This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for markhópagreining

Pissar þú í skóinn?

Ég er alsæl að bjóða velkominn gestabloggara á MáM bloggið. Þetta hefur staðið til lengi, en það er jú staðreynd að duglegt fólk sem hefur eitthvað að segja hefur líka mikið að gera og því hefur tekið sinn tíma að koma þessu af stað. Vonandi verður þetta bara fyrsti af mörgum skemmtilegum, áhugaverðum og gagnlegum gestabloggum.

Í dag bloggar hún Halla Kolbeinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Hugsmiðjunni, en við Halla kynntumst haustið 2012 þegar ég vann með Hugsmiðjunni í markaðsstefnunni þeirra. Síðan þá hafa þau bara verið að rokka sífellt feitar og feitar (bókstaflega – það er fullt af tónlistarmönnum þarna ha ha ha!) og nú nýlega var bloggið þeirra tilnefnt til SVEF verðlaunannna sem besti vefmiðillinn – og það í hópi stórra og landsþekktra vefmiðla! (Ég vil nú eiga pínku oggu ponsu pons í að blogginu skuli hafa verið ýtt úr vör svo ég er extra glöð fyrir þeirra hönd ;)

Jæja, nóg blaður frá mér – et voilà – gestablogg frá Höllu í Hugsmiðjunni: 

Góður grunnur er gulls ígildi

Í okkar daglega starfi hjá Hugsmiðjunni vinnum við mikið með viðskiptavinum sem koma til okkar í leit að nýjum, betri vef.

Sumir koma til okkar því þau vita að hér eru afburða forritarar, aðrir hafa séð hönnun frá okkur sem heillar og aðrir þekkja okkur vegna vinnubragða í viðmótsforritun. Það sem færri sjá er ósýnilega undirbúningsvinnan. Grunnurinn að góðum vef.

Vinnan sparar tímann

Fyrsta fasa í vefgerð köllum við oft greiningu og hönnun. Til eru mörg afbrigði af fyrstu skrefunum: Markhópagreining, markaðsgreining, vefstefnumótun, ímynd fyrirtækisins og tónn, samkeppnisgreining o.fl. Misjafnt er eftir verkefnum hvort þurfi að ráðast í allar greiningar, en best er, ef vel á að fara, að taka skurk á nokkrum þeirra. Greining getur munað því hvort vefur er hannaður fyrir markhóp fyrirtækisins (í stað starfsmanna fyrirtækisins) og hvort auðvelt sé að nota hann eða ekki.

Við bjóðum sjálf upp á marga þætti hjá okkur, en þegar kemur að því að gera fínt hjá sjálfum sér getur hjálpað að leita utan sinna eigin veggja og fá óháða leiðsögn og ráðgjöf.

Árið 2012 vorum við hjá Hugsmiðjunni að vinna að því að koma okkar eigin vef í loftið. Það gekk svona upp og ofan þannig að við tókum á það ráð að sækja leiðsögn að utan. Við höfðum samband við MáM og eftir nokkra fundi með Þórönnu fór leiðin hjá okkur að skýrast.

Það að sjá skýrt hverjir okkar markhópar eru, hverjir samkeppnisaðilarnir eru og hvað skilur okkur frá þeim er dýrmætt. Saman unnum við að því að koma auga á hvert núverandi brand okkar var og skerpa á því sem var að virka og setja upp plan fyrir framtíðina.

Pissum í skóinn?

Ég fæ á tilfinninguna að sumum finnst þessi vinna vera óþörf. Að fólk hugsi oft „við vitum hver við erum og við hvern við erum að tala: alla – stærra net hlýtur að þýða fleiri viðskiptavinir?“ “Sleppum frekar þessari ‘aukavinnu’ og förum beint í að vinna herferðina”. “Pissum í skóinn” heyri ég bara – skammgóður vermir.

Það er sjaldan sem fleiri en einn til tveir starfsmenn eru með sýnina á hreinu. Verðmætið í að vef-, markaðs-, hönnunar- og framkvæmdastjóri séu öll á sömu blaðsíðu með sýnina er ómetanlegt. Skyndilega er hægt að tala saman út frá sömu forsendum og setja saman aðgerðaplan fyrir markaðsstarf, stefnu og hönnun. Þegar vegakortið liggur fyrir er svo mikið auðveldara að klára hönnun því þá liggja markmiðin í augum uppi. Búið er að taka út mikið af ágiskunum og „tilfinningunni“ sem mismunandi aðilar eru með. Í stað þess að meta vef út frá því sem einhverjum finnst þá er hægt að spyrja: Uppfyllir þessi hönnun markmið okkar sem fyrirtækis? Er þetta það sem markhópur X er að leita að?

Munurinn í heimsóknartölum á vefinn milli ára staðfestir þetta. Árið 2013 fengum við 140% fleiri heimsóknir en 2012. Við höfum stuðst við vinnuskjölin og markaðskerfið frá MáM sem hefur leyft okkur að taka hlutina skrefinu lengra. Það er ótrúlegt hvað markviss undirbúningur skilar miklu.

Hugsmiðjan fór í gegnum MáM þjálfunarferlið og nýtir efnismarkaðssetningu í sínu markaðsstarfi :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: blogg, Branding, framtíðarsýn, markhópagreining, markhópur, samkeppnisgreining, stefna, sýn, vefsíðan

Þýðir eitthvað að vera að markaðssetja á Facebook lengur?

þýðir eitthvað að vera að markaðssetja á Facebook lengur? - thoranna.is

Ertu að markaðssetja á Facebook?

Ef svo er, þá hefurðu væntanlega tekið eftir því þegar þú horfir á tölurnar fyrir Facebook síðuna þína að póstarnir þínir eru að ná til sífellt færra fólks – eða hvað? Það hafa margir verið að taka eftir þessu núna í nokkurn tíma – og nei, það er ekki bara það að fólk hafi verið minna á Facebook í kringum hátíðarnar og sjái þess vegna minna af því sem þú póstar.

Facebook hefur sagt það bara hreint út að nú sé ekki lengur hægt að treysta á að ná til fólks frítt í gegnum Facebook síður og mæla með því að nota keyptar auglýsingar. Þetta ætti sosum ekki að koma neinum á óvart. A: Þeir eru jú í bissness og tekjurnar þeirra koma af auglýsingum og B: Það flæðir ógnarmagn af póstum á Facebook og þeir verða einhvern veginn að velja það sem þeir birta hjá fólki þannig að fólk sé að fá það sem það vill sjá – því annars yrði það fljótt að fara bara (og þá væri Facebook ansi gagnslaust markaðstól). Fólk sér ekki allt sem þeir sem það tengist á Facebook pósta – Facebook velur úr.

Þú getur séð nokkrar fleiri greinar um þessar Facebook breytingar hér fyrir neðan ef þú vilt kafa ;)

Hvað skal þá til bragðs taka? Eigum við að hætta bara að nota Facebook eða er eitthvað sem við getum gert til að vinna með þetta? – já, það getum við. Hér eru 7 atriði sem eru nauðsynleg til að fá sem mest út úr Facebook í dag:

Númer 1
Póstaðu efni sem fólk hefur áhuga á og gerir eitthvað með. Ef ég líka við, skrifa ummæli við eða deili pósti frá einhverjum (hvort sem það er manneskja eða síða) þá sýnir Facebook mér meira frá viðkomandi. Það þýðir að við þurfum að vera með efni sem fólk virkilega hefur áhuga á til að auka árangurinn af því sem við gerum frítt á síðunni okkar. Og hvernig getum við tryggt það? jú…

Númer 2
Við verðum að vita við hverja við viljum vera að tala. Þetta þýðir að við þurfum að vera mjög skýr á því hverjir markhóparnir okkar eru og við verðum að þekkja þá og skilja eins vel og mögulegt er svo við getum höfðað til þeirra. Facebook er samfélagsmiðill – hver vill vera í félagsskap með einhverjum sem leggur sig ekki fram um að þekkja mann eða skilja og er þess vegna bara að blaðra um eitthvað sem maður hefur engan áhuga á? – neitt frekar en maður talar við gæjann í partýinu sem talar bara um sig og hefur engan áhuga á þér ;)   – þetta er ein af ástæðunum fyrir því að markhópagreining er svona stór hluti af MáM þjálfuninni.
Númer 3
Þú þarft að vera áhugaverð(ur). Alveg eins og Michelin matreiðslumeistarar gera ekki bara góðan mat, heldur kunna líka að bera hann fram þannig að hann veki athygli, þá þarftu að huga að því hvernig þú birtist fólki. Hafðu karakter, vertu afgerandi, og hafðu samræmi. Það er þetta með brandið sem ég hef svo oft minnst á og þú getur fundið ýmislegt meira um hér á blogginu og brandið er líka mikilvægasti hluti MáM þjálfunarinnar ;)
Númer 4
Þú þarft að taka efnistökin þín, gerð efnisins og dreifinguna föstum tökum. Það er að ýmsu að huga. Þarna kemur inn eitt og annað er varðar efnismarkaðssetningu (e. content marketing). Ef þú græjar þetta ekki, þá verður mjög erfitt að vera alltaf að senda frá sér efni sem höfðar til hópsins og verkefnið verður óyfirstíganlegt fjall. Ég hef líka talað töluvert um efnismarkaðssetningu hér á blogginu.
Númer 5
Lærðu að nota Facebook auglýsingar almennilega til að styðja við það sem þú ert að gera á Facebook og annars staðar. Það er ótrúlegustu hluti hægt að gera með Facebook auglýsingum. Þú getur miðað auglýsingar á þá sem hafa lækað ákveðnar síður, þú getur keyrt inn netfangalista og auglýst bara á þá sem eru með þau netföng á Facebook, þú getur fundið “lookalike audiences” – þ.e. auglýst bara á fólk sem líkist hópnum sem er þegar á síðunni þinni o.fl. o.fl.
Númer 6
Það er ódýrara að auglýsa á þá sem eru búnir að læka síðuna þína heldur en aðra, svo að það er ennþá gott að hafa fullt af fylgjendum á síðunni – en það er tilgangslaust ef það eru ekki réttu fylgjendurnir (sjá nr. 2!). Allskonar like leikir, like-deila-kvitta og þá geturðu unnið iPad eða eitthvað bladí bla eru ekki bara leiðigjarnir og pirrandi, heldur draga að sér allskonar fólk sem hefur í rauninni engan áhuga á því sem þú hefur að bjóða og eru ekkert að fara að leiða til viðskipta – gerðu það fyrir mig – ekki gera það ;)
Númer 7
Náðu fólkinu þínu lengra. Ekki nota bara Facebook til að vera með þeim á Facebook. Notaðu Facebook til að ná til þeirra og hefja sambandið. Fáðu þau svo til að vera memm á póstlistanum þínum þar sem þú getur verið reglulega í sambandi án þess að borga fyrir hvert skipti. Fólk les kannski ekki alla tölvupóstana sem þú sendir, en alltaf einhverja, og eru minnt á þig í hvert skipti sem þú ert í pósthólfinu þeirra. Athugaðu þó að atriði 1.-4. hér fyrir ofan gilda alveg jafnt fyrir póstlistann þinn og Facebook. Athugaðu líka að póstlistamarkaðssetning hefur ýmsar reglur sem þú verður að kynna þér áður en haldið er af stað og það er ákveðin list að gera hana vel – fólk getur jú alltaf afskráð sig.
Hvað segir þú? Hefurðu fundið fyrir þessum breytingum hjá Facebook og hvað ætlar þú að gera í málunum?
Ef þú vilt lesa meira um þetta:

Upprunalegi Facebook pósturinn: https://www.facebook.com/business/news/What-Increased-Content-Sharing-Means-for-Businesses
http://allfacebook.com/pages-organic-reach-decline-news-feed-algorithm_b127398
http://adage.com/article/digital/facebook-admits-organic-reach-brand-posts-dipping/245530/
http://marketingland.com/facebook-concedes-that-organic-page-reach-is-dwindling-ads-are-best-way-to-been-seen-67302
http://www.ignitesocialmedia.com/facebook-marketing/facebook-brand-pages-suffer-44-decline-reach-since-december-1/
http://www.insidefacebook.com/2013/12/23/studies-show-more-than-40-percent-decreased-organic-reach-on-facebook/
http://www.insidefacebook.com/2013/12/05/facebook-pages-may-see-organic-reach-decline/
http://allfacebook.com/deanna-sandmann-sim-partners-reach_b128335
http://www.jonloomer.com/2013/12/11/facebook-page-post-reach/

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: auglýsingar, Brand, Branding, Content, efnismarkaðssetning, Facebook, markhópagreining, markhópur, póstlistinn, samfélagsmiðlarnir

Hvar er þetta fólk eiginlega?!

Átti frábæran laugardag að mentorast á Startup Weekend Reykjavík. Mæli eindregið með því að allir kynni sér hana og séu með þegar tækifæri gefst til. Hún er almennt haldin í Reykjavík á haustin, en þú getur fundið Startup Weekend  víðsvegar um landið á ýmsum tímum – og víðsvegar um heiminn.

Þarna hitti ég fullt af flottu fólki að vinna að fullt af flottum verkefnum og ég er mjög spennt að fylgjast með framhaldinu. Ein af þeim sem ég talað við þarna var nýbúin í námi og var að hefja fyrstu skref í ráðgjafastarfsemi í sínu fagi. Hún hafði samviskusamlega lesið pistlana mína og gerði sér vel grein fyrir því að hún þyrfti að skilgreina markhópinn sinn. Vandamálið var bara að hún hafði ekki hugmynd um hver draumaviðskiptavinurinn væri, eða hvernig henni líkaði best að vinna með viðskiptavinunum sínum, vegna þess að hún var algjörlega að byrja og hafði ekkert unnið við þetta áður með þessum hætti. Svo mér datt í hug að fleiri kynnu kannski að njóta góðs af því sem við ræddum á laugardaginn :)

Ég var að mörgu leyti í sömu stöðu þegar ég byrjaði. Ég vissi að ég vildi vinna með aðilum sem ekki hefðu sérfræðiþekkingu í markaðsfræðunum en þyrftu að bæta markaðsstarfið og ég hafði mínar hugmyndir um hvernig best væri að gera það. Svo ég byrjaði að vinna maður á mann með viðskiptavinum. Og það gekk bara vel. Ég reyndar ákvað svo að breyta hvernig ég vann, en ég hef fjallað um það í öðrum pistli og á eflaust eftir að tala um það aftur. Hitt sem gerðist var að ég fór að átta mig á hverskonar viðskiptavinum ég vildi vinna með. Það voru sem betur fer engir þeirra slæmir, alls ekki, en ég naut þess meira að vinna með sumum en öðrum og það var augljóst að sumir fengu meira út úr því að vinna með mér en aðrir.

Mín ráð til þessarar flottu stelpu sem ég hitti á Startup Weekend voru einföld. Byrjaðu bara! Hentu þér út í djúpu laugina. Jú, markaðssetningin verður ekki mjög markviss til að byrja með, því þú talar ansi vítt við alla sem mögulega vilja heyra, en þannig byrjarðu að fá fólk til þín. Talaðu frá hjartanu og því sem þér finnst, hvort sem það er á Facebook, í bloggi, á póstlistanum eða annars staðar og þá muntu laða að þér rétta fólkið fyrir þig.

Bjóddu vinum og vandamönnum fría ráðgjöf. Biddu þá að vera ekkert að segja frá því að þau séu ekki að borga, en vera endilega dugleg að segja frá ef þeim líkar vel og eru tilbúin að mæla með þér. Og vertu meðvituð. Vertu meðvituð um hvað þú fílar, hvað þú fílar ekki. Af hverju er það? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar að vinna með? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar ekki eins vel að vinna með.

Það gerir ekkert gagn að sitja og velta hlutunum fyrir sér of lengi. Jú, ég mun alltaf vera talsmaður þess að plana, en svo verðurðu líka bara að gera. Svo staldrarðu aftur við, lærir af reynslunni, og planar næstu skref byggt á þeirri reynslu. Það er engin önnur leið til að vita þetta allt saman. Það kemur ekki til með að koma til þín í draumi og það er enginn annar þarna úti sem getur sagt þér það.

Farðu út og talaðu við fólk. Fáðu þau til að prófa vöruna þína eða þjónustu, gefa þér endurgjöf og spekúleraðu í hvað virkar fyrir þig og hvað ekki. Þú átt stöðugt eftir að vera að slípa. Það eru núna að verða 2 ½ ár síðan ég byrjaði að vinna sjálfstætt og mér finnst ég vera hinum megin á hnettinum miðað við hvar ég byrjaði – og ég er enn að læra, tjúna til, slípa, græja og gera. Og veistu hvað, mikið er ég fegin – annars yrði þetta barasta leiðinilegt!

Gangi þér vel að finna fólkið þitt! :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markhópagreining, markhópur, vænlegur markhópur

Ekki vera hrædd(ur) við að þrengja…

ekki vera hrædd við að þrengja - thoranna.is

Þetta er klassískt í markaðsfræðunum og ég hef talað um þetta margoft áður. Finndu markhópinn þinn, þann sem er vænlegastur fyrir þig, og markaðssettu á hann. Ekki reyna að vera allt fyrir alla. Finndu drauma viðskiptavininn og finndu svo fleiri svoleiðis.

En það er ekkert auðvelt. Og það hræðir mann líka. Maður er alltaf meðvitaður um að maður gæti verið að missa af einhverjum sem gæti mögulega, kannski, fræðilega séð, keypt. Við gerum þetta öll. Ég geri þetta sjálf. Ég þarf alltaf að vera að minna mig á að velja og þrengja – reyna ekki að vera allt fyrir alla.
Hingað til hef ég skilgreint markhópinn minn sem lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru ekki sérfræðingar í markaðsmálum en þurfa að, og vilja, bæta þau. Flott mál. En vá hvað þetta er ennþá vítt! Svo ég er alltaf að skoða málin, spá og spekúlera, ræða við fólk og stilla til.
Ég hef íhugað að þrengja þetta þannig að þetta séu ofangreindir aðilar en í ákveðnum greinum. Það myndi líta einhvern veginn svona út – t.d. hótelmarkaðssetning frá A til Z, eða markaðssetja endurskoðendur frá A til Z eða markaðssetja fatahönnuði frá A til Z – ég væri í öllum bleiku hringjunum:
Maður gæti alveg orðið ansi góður í þeim markaðsaðgerðum sem ættu við þennan tiltekna bransa sem maður veldi. Þetta gæti alveg virkað. Eeeeeeen nei, það einhvern veginn virkar ekki fyrir mig. Ég er ekki sérfræðingur í ákveðnum greinum, per se,  og ég vil ekki vera það.
Ég veit hinsvegar að ég er sterkust og ánægðust þegar ég er að vinna í markaðsstefnunni, brandinu og að velja þær markaðsaðgerðir sem henta. Þegar kemur að þessum markaðsaðgerðum – því að setja upp póstlistann, nota Facebook o.s.frv. þá missi ég svolítið áhugann. Ég kann ýmislegt í því, ég gæti það alveg, en maður getur ekki verið allt fyrir alla og það eru mjög færir aðilar til sem eru sérfræðingar í því, en ekki svo góðir í því sem ég er góð í. Þannig að ég er komin á það að þetta er hinn valmöguleikinn:
Þetta er það sem ég vel. Að vinna í kjarna stefnunni, brandinu og velja þær markaðsaðgerðir sem best koma því til skila til markaðarins.
En hvað þýðir það þegar kemur að því að skilgreina markhópinn minn? Hmmm… draumaviðskiptavinurinn…
  • hún/hann þarf að hafa metnað til að vilja geta betur, betur og enn betur
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp framúrskarandi fyrirtæki – ekki bara eitthvað sem gengur
  • hún/hann þarf að vilja breyta heiminum með fyrirtækinu sínu – ekki endilega öllum, en a.m.k. sínu litla horni af honum
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp fyrirtæki sem er einstakt, öðruvísi og áhugavert
  • hún/hann þarf að vera tílbúin(n) að leggja á sig þá vinnu sem til þarf
  • hann/hún þarf að vera óhrædd(ur) – ja, tilbúinn að taka á hræðslunni
Því að maður verður alveg hræddur þegar maður er að reyna að breyta þó ekki sé nema litlu horni af heiminum. Maður verður hræddur þegar maður stefnir hærra og lengra en hinir. En það eru þeir sem takast á við þessa hræðslu sem fá að njóta þess að gera eitthvað sem skiptir máli.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Branding, draumaviðskiptavinur, góðir viðskiptavinir, markhópagreining, markhópur

Þú þarft að þekkja og skilja markhópinn

Það er ekki nóg að vita af hvaða kyni og á hvaða aldri markhópurinn þinn er.
Þú þarft að þekkja hann og skilja.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsmál, markaðssetning, markhópagreining, markhópur

  • « Previous Page
  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform