This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for framtíðarsýn

Fiðrildin á leið á toppinn…

Ætlaði að skrifa einhvern rosalega djúpan bloggpóst í dag og eitthvað en veistu, ég er eiginlega bara óvinnufær vegna fiðrildamergðarinnar í maganum á mér! Akkuru? Jú, af því að í dag kemur nýja bókin mín út!

Það er alveg magnað hvað maður getur orðið skíthræddur við að sýna umheiminum það sem maður hefur fram að færa. En veistu, ég er búin að ákveða að segja bara “skítt með það!”. Þeim sem líkar bókin, líkar hún, og þeim sem ekki líkar hún, líkar hún ekki. Og það er barasta allt í lagi. Því að maður getur aldrei verið fyrir alla. Sumir eiga eftir að fíla hana í botn og fá mikið gagn út úr henni. Aðrir eiga eftir að hafa einhverjar aðrar skoðanir á henni.

Þá er rosalega gott að muna það sem Don Miguel Ruiz skrifaði í frábærri bók sem heitir “The Four Agreements”, og ég mæli eindregið með því að lesa (já, og þakkir til Þórunnar vinkonu minnar fyrir að benda mér á hana :)  : “Don’t take anything personally”. Það er nefnilega þannig að það sem manneskjan hugsar, segir og gerir snýst í rauninni aldrei um aðra, það snýst um hana sjálfa. Fólk sér og dæmir hluti út fá sínum eigin raunveruleika, sinni upplifun og reynslu, engra annarra, og það er eitthvað sem þú getur ekki verið að spá í. Ef fólki líkar ekki það sem ég geri, þá er það barasta þeirra mál en ekki mitt.

Annar góður frasi sem mér finnst gott að minna mig á af og til er: “Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig, líttu í eigin barm”. Ég stend mig stundum að því að hugsa eitthvað miður gott um annað fólk – við gerum það ábyggilega öll einhvern tímann – en ég er farin að verða nokkuð góð í að stoppa mig af og hugsa “af hverju er ég að hugsa þetta?” og undantekningarlaust hefur ástæðan ekki með viðkomandi að gera, heldur mig. Mig og mitt óöryggi. Og þannig er því eflaust líka varið með aðra.

Góð vinkona mín sagði einu sinni við mig að það sem fólk, sem nyti almennt velgengni væri hræddast við, væri að standa eitt eftir á toppnum. Að þora að skara fram úr. Að skilja hina eftir sem ekki stefni svo hátt. Mig langar að trúa því að við fögnum þeim sem stefna á toppinn og komast þangað. Ég er ótrúlega stolt af mörgum af mínum vinum, fjölskyldu og viðskiptavinum sem hafa og eru að ná frábærum árangri í því sem þau eru að gera. Hér eru nokkur dæmi:

Eyrún vinkona mín í RóRó, sem er núna á Indiegogo með Lúllu dúkkuna sína og gengur rosa vel. Vantar bara herslumuninn að hún nái markmiðinu sínu (endilega leggið henni lið hér). Frábær manneskja með frábæra vöru sem á eftir að breyta lífi margra fjölskyldna í framtíðinni.

Rúna vinkona mín sem gaf út sína bók fyrr í haust, Branding Your X-Factor, og jetsettast um allan heim til að vinna með forsetum, og funda með stjórnendum stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Hún er ein af þessum manneskjum sem lyftir öllum í kringum sig upp á hærra plan og er sko ekki feimin við að styðja sitt fólk á toppinn.

Rakel Sölvadóttir, frumkvöðull í Skema og brautryðjandi í forritunarkennslu fyrir börn og unglinga. Það sem hún er að gera hér heima og með reKode úti í Bandaríkjunum er magnað og forréttindi að fá að fylgjast með úr stúkusæti.

Ég gæti haldið áfram að telja upp magnaða einstaklinga að gera ótrúlega flotta hluti en þessi póstur er þegar orðinn ansi langur á persónulegu nótunum ;)

Fögnum þeim sem stefna hátt og ætla sér á toppinn. Það er fólkið sem getur gert heiminn að betri stað.

Ég viðurkenni það alveg að mig langar á toppinn. Mig langar að lifa góðu lífi af því að vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera og vill byggja upp spennandi og áhugaverð fyrirtæki sem skipta máli. Mig langar að skrifa bækur, halda námskeið, fyrirlestra og vinnustofur út um allan heim og þessi bók sem kemur út í dag er liður í þeirri vegferð. Ég vona að sem flestir fagni henni, nái sér í eintak og njóti góðs af. Hún er m.a.s. frí á rafrænu formi á Amazon fram á sunnudag – og þú getur fengið Kindle lesara app í öll helstu tæki ;)   Þú finnur allar upplýsingar hér: https://thoranna.is/marketinguntangledbook/

P.s. Þú ert líklega að spyrja þig núna “hvað í ósköpunum hefur þetta að gera með markaðsmál?” – ja, þetta var bara svona smá persónuleg tjáning hjá mér á degi þar sem ég á erfitt að einbeita mér vegna spennings, en veistu, þetta hefur nefnilega heilmikið með markaðsmál að gera. Þau fyrirtæki sem ná árangri á markaði, sem ná árangri í markaðsmálunum, það eru fyrirtækin sem eru óhrædd við að standa upp úr, stefna á toppinn og standa fyrir eitthvað. Hugrekki er nefnilega öflugt vopn í markaðsstarfinu, svo þegar maður fer að spá í þetta, þá er þessi póstur barasta akkúrat spot on fyrir markaðsmálin ;)

Megir þú ná á þann topp sem þig langar að ná á – og ef ég get hjálpað þér að komast þangað þá er það barasta ennþá betra!

xo
Þóranna

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, ástríða, framtíðarsýn, hugrekki

Hinir mörgu hattar fyrirtækjaeigandans!

hinir mörgu hattar fyrirtækjaeigandans - thoranna.is
Við sem eigum eða stýrum minni fyrirtækjum þekkjum þetta öll. Að vera með marga hatta á hverjum degi. Það er í mörg horn að líta og margt sem þarf að huga að, því að þó að fyrirtækið sé ekki stórt, þá er breiddin í verkefnunum oft jafn mikil og í stærri fyrirtækjum, en við erum ekki með sérstakan starfsmenn í hverri deild – hvað þá heila deild af fólki!


Ef við bætist að vera frumkvöðull að byggja upp þitt eigið fyrirtæki, þá er auðvelt að detta í þá gryfju að finnast maður þurfa að gera allt sjálfur og vita allt, því að ef maður getur jú bjargað hlutunum sjálfur þá þarf maður ekki að borga öðrum fyrir að gera þá og sparar þar með peninga. Ekki satt?


Gengur dæmið upp?

En hvað gerist þá? Gengur dæmið upp?


Svarið er einfaldlega nei. Það getur mallað áfram. Fyrirtækið getur mögulega lifað af, en það verður aldrei meira en það. Það mun aldrei blómstra. Það mun aldrei veita þér þá ánægju sem þú leitar eftir og í stað þess að eiga og reka fyrirtæki ertu einfaldlega starfsmaður með harðasta yfirmann allra – þig! Og kulnun er mjög raunveruleg áhætta.


Staðreyndin er sú að það er jú gott að hafa góða yfirsýn yfir allar hliðar fyrirtækisins sem maður er að stýra og skilning á því hvað hvert og eitt svið felur í sér þannig að maður geti séð heildarmyndina og hafi vit á því sem er í gangi. En maður getur ekki verið sérfræðingur í öllu og maður hefur bara 24 tíma í sólarhringnum. “One man show” er einfaldlega dæmt til að rétt lifa af – ef ekki bara dauðadæmt.


Ég hef lært þetta sjálf á eigin skinni. Jú, sumt af því sem ég hef gert í mínu fyrirtæki hefur verið nauðsynlegt fyrir mig til að átta mig á hvernig best er að gera það. Ég er jú ekki með fyrirtæki sem er að gera eins og gert hefur verið áður. Markaðsþjálfun á netinu hefur ekki verið til á Íslandi áður, og markaðsþjálfun á þann hátt sem ég er að gera hana virðist ekki vera þarna úti heldur (ekki misskilja mig, það er fullt af flottu fólki úti í hinum stóra heimi að kenna ýmislegt varðandi markaðsmálin í gegnum netið, en ég hef ekki fundið neinn enskumælandi sem er að kenna þetta á sama hátt og ég og flestir eru að kenna á ákveðin markaðstól og -tæki). Vöruþróunin og að finna út úr hinum ýmsu hlutum hefur því kallað á að ég sé innsti koppur í búri í flestum verkefnum framanaf.


Hinsvegar get ég ekki sagt þér hvað hlutirnir fóru að gerast miklu hraðar og verða mun öflugri þegar ég lærði að fá hjálp. Í dag er ég með aðstoðarmanneskju í að sjá um ýmis dagleg verkefni fyrir mig, manneskju sem aðstoðar mig við bloggið, aðila sem aðstoðar mig með vefinn minn og annan sem er að vinna með mér í lykilorðagreiningu og leitarvélabestun. Ég er að vinna í því að koma mér á erlendan markað, sem ég hefði aldrei náð að gera annars og ég sé fram á að fá hina ýmsu aðila í hin ýmsu verkefni í framtíðinni. Ég kann margt af þessu og gæti bjargað mér – ég hef yfirsýnina og heildarmyndina – en mínum tíma er einfaldlega betur varið í að þjónusta viðskiptavinina mína með því að þróa þjónustuna og veita hana og í að markaðssetja mig.


Strategía og taktík

Það er einmitt hugsunin á bak við MáM þjálfunina að sjá stóru myndina og hafa grundvallarskilninginn sem maður þarf á markaðsmálum, geta mótað stefnuna og vita hvað maður á að gera. Ég mæli síðan ekkert endilega með því að þú græjir allt og gerir – verðir sérfræðingur í póstlistaforritum, vefgerð, öllum mögulegum og ómögulegum samfélagsmiðlum og hvað þetta allt er. Satt best að segja mæli ég eindregið með því að fá síðan sérfræðinga til að sjá um það um leið og þú hefur tök á því (sem er yfirleitt fyrr en maður heldur) – en með góðri yfirsýn og skilningi á því hvað þessi sérfræðingar sem maður kaupir þjónustu frá eru að gera þá er maður bæði upplýstari kaupandi að þjónustunni og getur haldið betur utan um heildardæmið. En heildarstefnan (e. strategy) þarf að vera þín. Aðgerðirnar (e. tactics) er svo hægt að fá hjálp með.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, Brand, framtíðarsýn, fylgjast með, skipulag, stefna

Pissar þú í skóinn?

Ég er alsæl að bjóða velkominn gestabloggara á MáM bloggið. Þetta hefur staðið til lengi, en það er jú staðreynd að duglegt fólk sem hefur eitthvað að segja hefur líka mikið að gera og því hefur tekið sinn tíma að koma þessu af stað. Vonandi verður þetta bara fyrsti af mörgum skemmtilegum, áhugaverðum og gagnlegum gestabloggum.

Í dag bloggar hún Halla Kolbeinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Hugsmiðjunni, en við Halla kynntumst haustið 2012 þegar ég vann með Hugsmiðjunni í markaðsstefnunni þeirra. Síðan þá hafa þau bara verið að rokka sífellt feitar og feitar (bókstaflega – það er fullt af tónlistarmönnum þarna ha ha ha!) og nú nýlega var bloggið þeirra tilnefnt til SVEF verðlaunannna sem besti vefmiðillinn – og það í hópi stórra og landsþekktra vefmiðla! (Ég vil nú eiga pínku oggu ponsu pons í að blogginu skuli hafa verið ýtt úr vör svo ég er extra glöð fyrir þeirra hönd ;)

Jæja, nóg blaður frá mér – et voilà – gestablogg frá Höllu í Hugsmiðjunni: 

Góður grunnur er gulls ígildi

Í okkar daglega starfi hjá Hugsmiðjunni vinnum við mikið með viðskiptavinum sem koma til okkar í leit að nýjum, betri vef.

Sumir koma til okkar því þau vita að hér eru afburða forritarar, aðrir hafa séð hönnun frá okkur sem heillar og aðrir þekkja okkur vegna vinnubragða í viðmótsforritun. Það sem færri sjá er ósýnilega undirbúningsvinnan. Grunnurinn að góðum vef.

Vinnan sparar tímann

Fyrsta fasa í vefgerð köllum við oft greiningu og hönnun. Til eru mörg afbrigði af fyrstu skrefunum: Markhópagreining, markaðsgreining, vefstefnumótun, ímynd fyrirtækisins og tónn, samkeppnisgreining o.fl. Misjafnt er eftir verkefnum hvort þurfi að ráðast í allar greiningar, en best er, ef vel á að fara, að taka skurk á nokkrum þeirra. Greining getur munað því hvort vefur er hannaður fyrir markhóp fyrirtækisins (í stað starfsmanna fyrirtækisins) og hvort auðvelt sé að nota hann eða ekki.

Við bjóðum sjálf upp á marga þætti hjá okkur, en þegar kemur að því að gera fínt hjá sjálfum sér getur hjálpað að leita utan sinna eigin veggja og fá óháða leiðsögn og ráðgjöf.

Árið 2012 vorum við hjá Hugsmiðjunni að vinna að því að koma okkar eigin vef í loftið. Það gekk svona upp og ofan þannig að við tókum á það ráð að sækja leiðsögn að utan. Við höfðum samband við MáM og eftir nokkra fundi með Þórönnu fór leiðin hjá okkur að skýrast.

Það að sjá skýrt hverjir okkar markhópar eru, hverjir samkeppnisaðilarnir eru og hvað skilur okkur frá þeim er dýrmætt. Saman unnum við að því að koma auga á hvert núverandi brand okkar var og skerpa á því sem var að virka og setja upp plan fyrir framtíðina.

Pissum í skóinn?

Ég fæ á tilfinninguna að sumum finnst þessi vinna vera óþörf. Að fólk hugsi oft „við vitum hver við erum og við hvern við erum að tala: alla – stærra net hlýtur að þýða fleiri viðskiptavinir?“ “Sleppum frekar þessari ‘aukavinnu’ og förum beint í að vinna herferðina”. “Pissum í skóinn” heyri ég bara – skammgóður vermir.

Það er sjaldan sem fleiri en einn til tveir starfsmenn eru með sýnina á hreinu. Verðmætið í að vef-, markaðs-, hönnunar- og framkvæmdastjóri séu öll á sömu blaðsíðu með sýnina er ómetanlegt. Skyndilega er hægt að tala saman út frá sömu forsendum og setja saman aðgerðaplan fyrir markaðsstarf, stefnu og hönnun. Þegar vegakortið liggur fyrir er svo mikið auðveldara að klára hönnun því þá liggja markmiðin í augum uppi. Búið er að taka út mikið af ágiskunum og „tilfinningunni“ sem mismunandi aðilar eru með. Í stað þess að meta vef út frá því sem einhverjum finnst þá er hægt að spyrja: Uppfyllir þessi hönnun markmið okkar sem fyrirtækis? Er þetta það sem markhópur X er að leita að?

Munurinn í heimsóknartölum á vefinn milli ára staðfestir þetta. Árið 2013 fengum við 140% fleiri heimsóknir en 2012. Við höfum stuðst við vinnuskjölin og markaðskerfið frá MáM sem hefur leyft okkur að taka hlutina skrefinu lengra. Það er ótrúlegt hvað markviss undirbúningur skilar miklu.

Hugsmiðjan fór í gegnum MáM þjálfunarferlið og nýtir efnismarkaðssetningu í sínu markaðsstarfi :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: blogg, Branding, framtíðarsýn, markhópagreining, markhópur, samkeppnisgreining, stefna, sýn, vefsíðan

Hver er þín vegferð?

Það er alltaf tilhneiging til þess, þegar maður rekur lítið fyrirtæki, að vilja vera og gera allt fyrir alla. Sérstaklega fyrstu árin, þegar maður er að koma fótum undir reksturinn og þarf að koma fjárstreyminu af stað. Þá er mikilvægt að halda fókus.

Til þess að halda fókus þá verður maður fyrst að vita nákvæmlega hver maður vill vera, sem fyrirtæki. Maður þarf að vita hvað maður gerir – og hvað maður gerir ekki, sem er ekki síður mikilvægt. Maður verður að trúa og treysta því að það sé rétt, til að halda sér á beinu brautinni, og maður verður að brenna fyrir það sem maður gerir – annars gefst maður einfaldlega upp. Auðvitað er maður alltaf að breytast, læra, þróast og finna sig betur og betur, en það er annað heldur en að elta hugmynd vikunnar út um hvippinn og hvappinn.

Ég þekki þetta vel sjálf. Ég lagði af stað með það að vilja efla minni fyrirtæki í markaðssetningu. Hvernig ég geri það hefur breyst, og er sífellt að þróast. Ég byrjaði með því að hitta viðskiptavini mína og vinna maður á mann, áttaði mig svo á því að það væri bæði tímafrekt og dýrt, auk þess sem ég var alltaf að segja sömu grundvallarhlutina aftur og aftur og aftur. Svo ég þróaði þetta áfram. Ég fór að gera þjálfunarefni og setti það á netið, þannig að fólk gæti unnið sig í gegnum það sjálft og leitað svo bara til mín þegar þarf að skoða sérstaka hluti, hluti sem ekki er hægt að staðla. Þannig get ég skalað þetta upp, þjónustað fleiri á lægra verði, og fyrir mig er það líka meira gefandi því að þegar ég vinn með viðskiptavininum maður á mann þá erum við komin upp úr grunnvinnunni og í frekari pælingar.

Freistingarnar eru hinsvegar alls staðar. Að fara þessa leið þýddi mikla vöruþróunarvinnu, bæði við að móta efnið, taka það upp, búa það til, tækla tæknilegu málin o.s.frv. o.s.frv. Vinna sem gaf ekki af sér tekjur þegar hún var unnin og vinna sem er enn í gangi. Ég reyni að halda fókus eins vel og ég get, en hef samt tekið að mér verkefni sem voru ekki eins og ég hefði viljað hafa þau, verkefni þar sem ég var að vinna maður á mann á óhagkvæman hátt bara til að fá fjárstreymið á þeim tímapunkti – en samt alltaf verkefni sem tengjast markaðsstarfinu.

Ég hef nokkrum sinnum á þessum tíma fengið atvinnutilboð. Góð atvinnutilboð. Og veistu, ég gæti alveg stundum hugsað mér að ráða mig í fasta vinnu, fyrir rétta starfið, rétta fyrirtækið – og síðast en ekki síst, rétta yfirmanninn (sem leyfði mér að sjálfsögðu að halda áfram að MáMast með ;)  Öll þessi störf fólu í sér einhverja markaðsvinnu, en voru samt aðallega annarskonar, verkefnastjórnun eða annað í þeim dúr. Eins ánægð og ég er að fólk skuli hugsa til mín, og vilja ráða mig – það er alveg notalegt fyrir egóið ;) – þá þakkaði ég alltaf kærlega fyrir mig en afþakkaði boðið.

Málið er nefnilega að ég veit loksins hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er og vil vera markaðsnörd. Það er fullt sem ég er ekki góð í og kann ekkert í, en þetta kann ég. Í þessu er ég góð. Vegna þess að ég brenn fyrir þetta, vegna þess að ég þreytist aldrei á að pæla í markaðsmálum, læra meira og meira og mér finnst ekkert eins skemmtilegt og að sjá þegar störf mín bera árangur. Því að með því að hjálpa öðrum að efla markaðsstarfið hjá þeim, þá gerir það viðkomandi kleift að vera og að gera það sem hann eða hún vill vera og gera. Það sem að viðkomandi brennur fyrir.

Það er minn fókus. Hugmynd vikunnar er kannski freistandi, en hún passar ekki inn í vegferðina mína. Hún passar ekki inn í markmiðin mín og hún passar ekki við ástríðuna mína. Þess vegna verð ég barasta að halda áfram að vera markaðsnörd.

Hver er þín leið? Hver eru þín markmið? Fyrir hvað brennur þú þegar kemur að fyrirtækinu þínu? Hver er þinn fókus?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, framtíðarsýn, stefna, sýn

Fáðu það sem þú vilt!

Það er þitt að gera þig skiljanlega(n) til að fá það sem þú vilt!

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: framtíðarsýn, miðlun, sýn

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform