This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for hugrekki

Branding: Verum öðruvísi! Verum hugrökk!

Viltu skjóta samkeppninni ref fyrir rass? Viltu virkilega vera sigurvegarinn á þínum markaði?

Þá verður að hafa það á hreinu af hverju fólk á að kjósa þig fram yfir aðra!

Klassíska svarið þegar spurt er “af hverju ætti ég að kjósa þig fram yfir samkeppnisaðilana þína?” eru svör á borð við:

  • “Við erum betri”
  • “Við bjóðum betri þjónustu”
  • “Við bjóðum betri gæði”
Hvað eiga þessi svör að þýða? Betri samkvæmt hverjum? Hvaða staðla erum við að miða við? Hver vill ekki halda því fram að þeir séu betri, með betri þjónustu og betri gæði? Segir einhver “Ja, við bjóðum bara svona sæmilega þjónustu”.


Auðvitað eigum við að leitast við að gera eins vel við viðskiptavini okkar og við mögulega getum innan þess ramma sem við höfum sett okkur m.a. m.t.t. verðs. Ef við ætlum að vera ódýrust á markaðnum, þá bjóðum við að sjálfsögðu ekki upp á lúxus, en við getum leitast við að bjóða bestu gæðin í okkar verðflokki. Það er hinsvegar grundvallargalli fólginn í því að ætla aðgreina sig frá samkeppninni með því að vera “betri”.


Í fyrsta lagi er enginn algildur staðall um það hvað er gott, betra eða best. Það er allt afstætt og fer bara eftir hverjum og einum hvernig það er metið. Í öðru lagi, þá er yfirleitt hægt að leika svoleiðis hluti eftir. Ef það sem þú ert að gera skiptir máli og er virkilega betra en það sem samkeppnin býður, svo mikið að þeir finna fyrir því, vittu til að þá verða þeir fljótir að stúdera það og gera nákvæmlega það sama. Það gengur kannski ekki alltaf hjá þeim, en þeir munu klárlega reyna og það gæti vel gengið. Þannig að ég er ekki að segja að þú eigir ekki að stefna að því að vera best(ur) í þínum bransa (þú átt klárlega að gera það!) heldur er ég einfaldlega að segja að það er mjög ólíklegt að það sé nóg og þú þarft á meiru að halda.


Af hverju á fólk að kjósa þig fram yfir samkeppnina?


Einfalt:


Af því þú ert öðruvísi!
 


Þú verður að vera vera öðruvísi á einhvern þann hátt sem höfðar til fólks.


Seth Godin skrifaði vel þekkta bók sem heitir “Purple Cow” eða Fjólublá kú. Í henni talar hann um að keyra eftir sveitavegi og sjá fjólubláa kú. Þú tekur pottþétt eftir henni. Og ekki bara það, heldur muntu tala um hana. Þú munt segja öllum frá henni! Þú munt líklegast fara út úr bílnum og taka mynd og sennilega pósta myndinni á Facebook og Instagram (að minnsta kosti þar!). Það er alveg hugsanlegt að þú myndir blogga um það. Hvernig sem allt er, þá er á hreinu að þú tekur eftir henni og þú munt hafa einhverjar skoðanir á henni. Hvaða tilfinningar vekur þessi fjólubláa kú? Fílarðu hana? Finnst þér hún ömurleg? Er hún skrýtin? Fyndin? Hún er öðruvísi, hún er þess virði að tala um og hún er væntanlega eitthvað sem þú fílar eða ekki. Og þú þarft það – þú þarft að finna leið til að vera öðruvísi.


Vertu öðruvísi á einhvern þann hátt sem skiptir máli og vertu hugrakkur / hugrökk! Taktu þetta alla leið – ekki bara setja eitthvað smá skraut á hlutina og segja “úúúúu sjáðu hvað við erum öðruvísi!” Farðu alla leið… ALLA leið! Vertu raunverulega öðruvísi!


Af hverju?


Í fyrsta lagi, þá geturðu átt þetta sem er öðruvísi. Ef þú ert bleika bókhaldsfyrirtækið þá væri ferlega hallærislegt fyrir einhverja aðra að koma inn á markaðinn og gera það sama. Fólk myndi bara segja “oh, þeir eru bara að reyna að vera eins og þetta bleika bókhaldsfyrirtæki sem er nú þegar til”. Það er bara hallærislegt, léleg eftirlíking og hermikráka.


Í öðru lagi þá vekja hlutir sem eru öðruvísi upp tilfinningar. Fólki líkar við það eða ekki – og þeim sem líkar við það eru líklegri til að skipta við þig. Ef þú ert “bara betri” þá getur einhver annar verið “bara betri” á morgun. Hvað er betra getur breyst á augabragði og mismunandi fólk skilgreinir “betri” á mismunandi hátt. Það að reyna að vera “betri” er á margan hátt eins og að reyna að vera ódýrastur. Á morgun getur einhver annar boðið betri díl og þá endar þetta með verðstríði. Spáðu t.d. í flug á milli heimsálfa. Eitt flugfélag fór að bjóða upp á sæti sem lögðust alveg niður – betra, já – en áður en maður vissi af voru öll flugfélögin í sambærilegum verðflokki farin að bjóða þau! Svo voru það í rauninni svefnsæti, einn byrjaði og hinir fylgdu á eftir. Þú endar með endalaust höfrungahlaup! Vertu öðruvísi á einhver hátt sem skiptir máli fyrir fólk og þú eykur líkurnar á því að fólk myndi við þig tryggð.


Það eru nokkur “brönd” sem ég fíla í botn af því að þau eru mjög mjög mikið öðruvísi. Ef þú skoðar Pinterest prófílinn minn á Pinterest.com/thoranna þá finnurðu töflur sem eru helgaðar sumum af þessum bröndum eins og t.d. Virgin, Poo Pourri, Ben & Jerry’s og Eat24. Kíktu á þau til að fá innblástur. Og eins mikið og ég þoli ekki klisjur, þá er ástæða fyrir því að þær eru til, og klassísk dæmi eru klassísk vegna þess að þau sýna hlutina svo vel. Spáðu í Apple. Apple hefur alltaf verið öðruvísi. Spáðu í þegar þeir komu með iMac-inn – hver var að gera gegnsæjar tölvur í sælgætislitum? Enginn! Og ef einhver hefði hermt eftir þeim? Þeir hefðu bara verið nákvæmlega það – eftirhermur. Þetta er dæmi um að vera öðruvísi og gríðarlega hugrakkur!


Þú þarft að vera öðruvísi og þarft að vera hugrökk/hugrakkur, því ef þú ert það ekki, þá mun á endanum einhver annar vera það – ég get lofað þér því! Ekki vera eins og hinir. Hafðu karakter. Burtséð frá öllu öðru, þá er lífið líka bara svo miklu skemmtilegra svoleiðis!



Af hverju ætti ég að skipta við þig? Hvað er öðruvísi við þig?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding, hugrekki

Fiðrildin á leið á toppinn…

Ætlaði að skrifa einhvern rosalega djúpan bloggpóst í dag og eitthvað en veistu, ég er eiginlega bara óvinnufær vegna fiðrildamergðarinnar í maganum á mér! Akkuru? Jú, af því að í dag kemur nýja bókin mín út!

Það er alveg magnað hvað maður getur orðið skíthræddur við að sýna umheiminum það sem maður hefur fram að færa. En veistu, ég er búin að ákveða að segja bara “skítt með það!”. Þeim sem líkar bókin, líkar hún, og þeim sem ekki líkar hún, líkar hún ekki. Og það er barasta allt í lagi. Því að maður getur aldrei verið fyrir alla. Sumir eiga eftir að fíla hana í botn og fá mikið gagn út úr henni. Aðrir eiga eftir að hafa einhverjar aðrar skoðanir á henni.

Þá er rosalega gott að muna það sem Don Miguel Ruiz skrifaði í frábærri bók sem heitir “The Four Agreements”, og ég mæli eindregið með því að lesa (já, og þakkir til Þórunnar vinkonu minnar fyrir að benda mér á hana :)  : “Don’t take anything personally”. Það er nefnilega þannig að það sem manneskjan hugsar, segir og gerir snýst í rauninni aldrei um aðra, það snýst um hana sjálfa. Fólk sér og dæmir hluti út fá sínum eigin raunveruleika, sinni upplifun og reynslu, engra annarra, og það er eitthvað sem þú getur ekki verið að spá í. Ef fólki líkar ekki það sem ég geri, þá er það barasta þeirra mál en ekki mitt.

Annar góður frasi sem mér finnst gott að minna mig á af og til er: “Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig, líttu í eigin barm”. Ég stend mig stundum að því að hugsa eitthvað miður gott um annað fólk – við gerum það ábyggilega öll einhvern tímann – en ég er farin að verða nokkuð góð í að stoppa mig af og hugsa “af hverju er ég að hugsa þetta?” og undantekningarlaust hefur ástæðan ekki með viðkomandi að gera, heldur mig. Mig og mitt óöryggi. Og þannig er því eflaust líka varið með aðra.

Góð vinkona mín sagði einu sinni við mig að það sem fólk, sem nyti almennt velgengni væri hræddast við, væri að standa eitt eftir á toppnum. Að þora að skara fram úr. Að skilja hina eftir sem ekki stefni svo hátt. Mig langar að trúa því að við fögnum þeim sem stefna á toppinn og komast þangað. Ég er ótrúlega stolt af mörgum af mínum vinum, fjölskyldu og viðskiptavinum sem hafa og eru að ná frábærum árangri í því sem þau eru að gera. Hér eru nokkur dæmi:

Eyrún vinkona mín í RóRó, sem er núna á Indiegogo með Lúllu dúkkuna sína og gengur rosa vel. Vantar bara herslumuninn að hún nái markmiðinu sínu (endilega leggið henni lið hér). Frábær manneskja með frábæra vöru sem á eftir að breyta lífi margra fjölskyldna í framtíðinni.

Rúna vinkona mín sem gaf út sína bók fyrr í haust, Branding Your X-Factor, og jetsettast um allan heim til að vinna með forsetum, og funda með stjórnendum stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Hún er ein af þessum manneskjum sem lyftir öllum í kringum sig upp á hærra plan og er sko ekki feimin við að styðja sitt fólk á toppinn.

Rakel Sölvadóttir, frumkvöðull í Skema og brautryðjandi í forritunarkennslu fyrir börn og unglinga. Það sem hún er að gera hér heima og með reKode úti í Bandaríkjunum er magnað og forréttindi að fá að fylgjast með úr stúkusæti.

Ég gæti haldið áfram að telja upp magnaða einstaklinga að gera ótrúlega flotta hluti en þessi póstur er þegar orðinn ansi langur á persónulegu nótunum ;)

Fögnum þeim sem stefna hátt og ætla sér á toppinn. Það er fólkið sem getur gert heiminn að betri stað.

Ég viðurkenni það alveg að mig langar á toppinn. Mig langar að lifa góðu lífi af því að vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera og vill byggja upp spennandi og áhugaverð fyrirtæki sem skipta máli. Mig langar að skrifa bækur, halda námskeið, fyrirlestra og vinnustofur út um allan heim og þessi bók sem kemur út í dag er liður í þeirri vegferð. Ég vona að sem flestir fagni henni, nái sér í eintak og njóti góðs af. Hún er m.a.s. frí á rafrænu formi á Amazon fram á sunnudag – og þú getur fengið Kindle lesara app í öll helstu tæki ;)   Þú finnur allar upplýsingar hér: https://thoranna.is/marketinguntangledbook/

P.s. Þú ert líklega að spyrja þig núna “hvað í ósköpunum hefur þetta að gera með markaðsmál?” – ja, þetta var bara svona smá persónuleg tjáning hjá mér á degi þar sem ég á erfitt að einbeita mér vegna spennings, en veistu, þetta hefur nefnilega heilmikið með markaðsmál að gera. Þau fyrirtæki sem ná árangri á markaði, sem ná árangri í markaðsmálunum, það eru fyrirtækin sem eru óhrædd við að standa upp úr, stefna á toppinn og standa fyrir eitthvað. Hugrekki er nefnilega öflugt vopn í markaðsstarfinu, svo þegar maður fer að spá í þetta, þá er þessi póstur barasta akkúrat spot on fyrir markaðsmálin ;)

Megir þú ná á þann topp sem þig langar að ná á – og ef ég get hjálpað þér að komast þangað þá er það barasta ennþá betra!

xo
Þóranna

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, ástríða, framtíðarsýn, hugrekki

Ertu með hausinn rétt skrúfaðan á? – hugarfarið skiptir öllu

ertu með hausinn rétt skrúfaðan á? - thoranna.is

Nýlega skrifaði ég grein í Markaðinn þar sem ég skammaði kvenþjóðina svolítið fyrir að vera stundum sjálfar sér verstar. Ef þú last hann ekki, þá geturðu gert það hér.

En veistu, þó ég hafi kosið að skrifa þennan pistil til kynsystra minna, þá er margt í honum sem á við alla. Ég sé það nefnilega alltaf betur og betur eftir því sem ég vinn með fleirum í að efla markaðsstarfið þeirra, að hugarfarið skiptir öllu. Það er hægt að kenna flest. Það er hægt að kenna þér að greina markhópana þína og samkeppnina. Það er hægt að kenna þér hvernig branding virkar, hvað það gerir fyrir þig og hvernig þú átt að gera það. Það er líka hægt að kenna þér á hinar ýmsu markaðsaðgerðir, að nota twitter, að skipuleggja vefsíðuna þína, að búa til Facebook auglýsingar o.s.frv. o.s.frv. Það er hægt að kenna þér að skipuleggja þig svo að markaðsstarfið taki ekki meiri tíma en þarf og sé áhrifaríkara fyrir vikið. Það sem ég get ekki kennt þér er grundvallar hugarfarið. Og hugarfarið skiptir öllu.

Hver þekkir ekki sögur af íþróttamönnum sem voru rosalega efnilegir en hausinn var ekki í lagi og þess vegna varð aldrei neitt úr þeim? Hver veit ekki um einhvern sem hefur alltaf brillerað í skóla en einhvern veginn aldrei plumað sig í lífinu? Mörg okkar könnumst við einhvern með frábæra vöru eða þjónustu sem aldrei nær flugi. Hvað er að klikka? Jú, yfirleitt hugarfarið.

Hversu vænlegt til árangurs er þetta: “Ég bara skil ekki þetta Facebook dótarí”, “Ég gæti aldrei selt neinum neitt”, “Ég kann ekki, get ekki, skil ekki, vil ekki …”? ;)      Ef þetta er hugarfarið, þá er alveg eins gott bara að fara að gera eitthvað annað. Ég get lofað þér að þú markaðssetur ekki neitt ef þú hugsar svona – alveg sama hvað ég kenni þér mikið og hvað varan þín eða þjónusta er frábær! :)

Ég og fjöldi annarra þarna úti getum kennt þér og hjálpað þér með markaðsstarfið þitt. En þú þarft að koma að borðinu með rétta hugarfarið. Þú verður að vera jákvæð(ur) og læra það að þú getur allt sem þú vilt. Ég veit alveg að ef ég og þú vildum verða heilaskurðlæknar þá gætum við það alveg (mig reyndar langar það bara ekki neitt, og þess vegna hef ég aldrei orðið það :)

Maður verður líka að læra að biðja um hjálp en líka að nýta þá hjálp til að efla sjálfan sig – ekki bara láta gera hlutina fyrir sig. Skrúfaðu hausinn rétt á. Láttu jákvæðnina ráða för. Segðu “ég þori, get og vil” og láttu vaða! Og ef þig vantar aðstoð þá er alltaf gott fólk til staðar ;)

Þangað til næst ;)
xo

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, ástríða, hugrekki

Ég elska þegar fólk fílar mig ekki!

Ég hitti vinkonu mína og kollega fyrr í vikunni. Hún spurði mig hvaða viðbrögð ég hefði fengið við síðasta bloggpóstinum og tölvupóstinum sem ég sendi þeim sem fylgja mér. Ástæðan fyrir því að hún spurði var að kona nokkur hafði komið að máli við hana og var ekki alls kostar ánægð með mig. Hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að taka því að í efnislínu tölvupóstsins sem ég hafði sent henni stóð “Ekki vera rass, … “ og nafn viðtakanda. Það var greinilegt á orðum vinkonu minnar að þetta hafði heldur betur farið fyrir brjóstið á konunni.

Vinkona mín reyndar spurði hana hvort hún hefði síðan lesið póstinn – vitandi að þá hefði hún væntanlega fattað grínið – en frúin hafði ekki gert það. O jæja …

Viðbrögð mín voru eintóm gleði. Mér fannst þetta frábært! OK – nú máttu alls ekki misskilja mig. Það var ekki markmiðið mitt að láta vesalings konunni líða eitthvað illa og mér þykir það miður. Hinsvegar er ég mjög glöð þegar einhver fílar alls ekki það sem ég geri. Af hverju? Af því að ef einhver fílar það engan veginn eru góðar líkur á því að einhver annar fíli það í botn! Og það er það sem maður vill.

Ugla sat á kvisti

Ég hef sagt það oft áður og segi það enn og aftur. Markaðssetning snýst öll um að mynda samband. Því sterkara samband sem þú* getur myndað, því líklegra er fólk til að kaupa af þér, því líklegra er það til að kaupa af þér aftur og því líklegra er það til að segja öðrum frá þér og skapa þér þannig meiri viðskipti. Þú vilt að sumir elski þig og aðrir hati þig – verum raunsæ, það eru aldrei allir að fara að elska þig! Þeir sem elska þig vilja ekki skipta við neinn annan og ef fólk fílar þig ekki þá ertu í það minnsta líkleg(ur) til að vekja umtal ;)

Ef öllum finnst þú* hinsvegar bara ágæt(ur), þá skiptirðu fólk ekki nógu miklu máli til að það velji þig framyfir einhvern annan. Ef þú ert ágæt(ur) og hinn er ágæt(ur) og þessi þarna er ágæt(ur) þá getur fólk alveg eins notað “ugla sat á kvisti” til að velja hvern það verslar við. Eða enn verra, valið eingöngu byggt á verðum – og þá fyrst fer reksturinn að verða erfiður þegar það er það eina sem maður keppir á!

*Athugaðu að þegar ég segi “þú” þá á ég við fyrirtækið þitt, vöru, þjónustu – jú eða þig sjálfa(n) ef þú ert það sem þú ert að markaðssetja.

Vertu bleik!

Þegar ég byrjaði í sjálfstæðum rekstri var ég mikið spurð hvað í ósköpunum ég væri að spá að nota þennan sterka bleika lit í markaðsefninu mínu. “Heldurðu að þetta komi ekki til með að stuða fólk?” var ég spurð, og “heldurðu að karlmenn vilji skipta við þig þegar þú notar þennan lit?”

Sjáðu til, það er mjög mjög mjööööööööög meðvituð ákvörðun að nota þennan bleika lit. Hann er fullkominn til að koma brandinu mínu til skila. Hann er eins og ég, kraftmikill, sterkur, biðst ekki afsökunar á neinu, lifandi og “in your face”. Hann er líka ólíkur litunum hjá öllum hinum sem eru á álíka markaði og ég.

Ef að þessi litur er nóg til að stöðva fólk í því að vilja vinna með mér, þá eru allar líkur á því að það fólk sé hvorteðer ekki rétta fólkið fyrir mig að vinna með. Ef liturinn stuðar einhvern, þá myndi ég væntanlega stuða þann hinn sama :)            Og ef að strákarnir vilja ekki vera memm bara af því að ég er bleik – ooo jæja, þá eru það hvorteðer ekki strákar sem ég vil vinna með ;)

Vertu þú!

Það hefur aldrei neinn náð langt á því að vera fyrir alla og þú munt ekki ná langt heldur ef þú reynir það. Vertu það sem þú vilt vera, það sem þú vilt að fyrirtækið þitt, vörur og þjónusta standi fyrir og þá muntu ekki bara ná í gegn um hávaðann og samkeppnina á markaðnum heldur muntu fyrir vikið mynda mun sterkari sambönd við fólk sem fílar þig í botn!

Kíktu hérna á Pinterest töfluna mína sem er helguð fólki, fyrirtækjum, vörum og þjónustu sem hafa afgerandi karakter sem fólk getur þá annað hvort elskað eða hatað – aðilar sem hafa hugrekki og uppskera tryggja fylgjendur í kjölfarið!: http://www.pinterest.com/thoranna/brave-brands/ – ef þú manst eftir fleirum sem eiga heima þarna, endilega láttu mig vita ;)

Brand stefnumótun er hjarta MáM þjálfunarinnar – byggðu upp brand sem fólk elskar!

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, gildi, hugrekki, líka við

Kanntu að segja nei?

Við erum flest í hjarta okkar gott fólk. Flest okkar vilja allt fyrir alla gera og það er náttúrulega voðalega gott. En þegar kemur að fyrirtækinu þínu þá er það eiginlega barasta dauðasynd! Ha? Jú, sjáðu til.

Í hverju ertu góð(ur)? Af hverju? Það er venjulega þannig að maður er góður í því sem maður nýtur þess að gera og maður nýtur þess að gera það sem maður er góður í. Þetta helst í hendur – eggið og hænan.
Svo stofnar maður fyrirtæki til að gera það sem maður er góður í. En það er ekkert auðvelt. Það er að mörgu að huga og það tekur tíma að byggja hlutina upp. Maður er mjög mjög mjög meðvitaður um að maður þarf á tekjum að halda. Án þeirra gengur þetta jú ekki. Svo maður fer að taka hliðarspor. Grafíski hönnuðurinn sem vill vera í að gera brand útlit samþykkir að gera útsölubækling fyrir lágvöruverðsverslun. Fatahönnuðurinn sem vill hanna eigin galakjóla tekur að sér að breyta jakkafötum. Og markaðsráðgjafinn sem elskar að vinna með stefnu og brand samþykkir að veita ráðgjöf við uppsetningu á Facebook síðu og AdWords auglýsingum.

Og hvað gerist?

  1. Maður verður hundfúll að vera að gera eitthvað sem maður vill ekki vera að gera.
  2. Maður gerir hlutina ekki eins vel af því að maður nýtur þeirra ekki, sem bitnar á gæðum vinnunnar og ánægju viðskiptavinarins – að ekki sé minnst á hvað það er erfitt að eiga jákvæð og góð samskipti við einhvern sem er að biðja mann að gera eitthvað sem maður vill ekki gera.
  3. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar hluti sem maður vill ekkert vera þekktur fyrir og það dregur að sér fleiri svoleiðis verkefni en ekki þau sem maður vill vera þekktur fyrir.
  4. Maður hefur engan tíma til að gera það sem maður vill gera, það situr bara á hakanum, og loksins uppgötvar maður að maður hefur ekki komið nálægt því í lengri tíma.
  5. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar, en ekki bara eitthvað ákveðið, og þá er maður bara allskonar maðurinn en ekki „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn – og hver heldurðu að fái draumaverkefnin þegar þau koma upp? Jep, „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn.

Ég er búin að vita þetta lengi lengi í hausnum. Þetta er allt í fræðunum. En ég er alltaf að læra þetta betur og betur á eigin skinni. Þess vegna fókusera ég á markaðsstefnuna, brandið og að velja tólin til að byggja það upp.

Ég er hætt að taka að mér verkefni á þessum sviðum því þau taka frá mér tíma og orku til að gera það sem ég er best í og elska að gera, og taka allan fókusinn úr brandinu mínu og veikja það.

Á ensku er talað um „Jack of all trades, master of none“ – og þegar fólk vill láta gera eitthvað almennilega þá vill það meistarann. Þú getur ekki verið meistarinn í öllu. Veldu þitt svið, haltu þig við það og ég lofa að ef þú heldur það út þá muntu uppskera eins og þú sáir ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, ástríða, Brand, hugrekki, stefna

  • 1
  • 2
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2022 Thoranna.is · Rainmaker Platform

Privacy Policy