This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Home
  • Blog
  • Speaking & Teaching
  • Training
  • Free Stuff!
  • About
  • Contact
  • Íslenska
You are here: Home / Archives for íslenskt

ICELANDIC ALERT: TILKYNNING

Það tilkynnist hér með að ég hef tekið að mér starf kynningarstjóra fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Þar sem ég hef aldrei verið flokkspólitísk vil ég taka það skýrt fram að svo er einnig nú og að þetta verkefni er ekki stuðningsyfirlýsing við Framsóknarflokkinn sem slíkan. Verkefnið er spennandi áskorun í starfi, auk þess sem ég styð heilshugar þann glæsilega hóp fólks sem nú býður sig fram til setu í bæjarstjórn í Reykjanesbæ undir merkjum flokksins.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt

Mældu árangur erfiðisins þegar kemur að markaðsstarfinu

Mælir þú árangurinn af markaðsstarfinu þínu? 
Það er klisja: “You can’t manage what you can’t measure” eða “Ef þú getur ekki mælt það þá geturðu ekki stjórnað því” en klisjur eru klisjur af ástæðu. Og ástæðan er oftar en ekki sú að það er sannleikskorn í þeim.
  • Hvernig veistu hvort hlutirnir eru að virka eða ekki?
  • Hefurðu efni á að eyða tíma í hluti sem virka ekki?
  • Hefurðu efni á að eyða peningum í hluti sem virka ekki?
  • Er einhver ástæða til að vera að gera hluti sem virka ekki fyrir þig?
Tryggðu að í hvert skipti sem þú gerir eitthvað í markaðstarfinu, eins og að setja upp Facebook síðu, nota Google auglýsingar, setja auglýsingu í blaðið, eða hvað sem þú ert að gera, að þú vitir til hvers þú ert að gera það. Hvað viltu að þessi markaðsaðgerð geri?
Hugsaðu um markaðsferlið – og ef þú þekkir það ekki, þá geturðu lesið um það hér. Ertu að gera þetta til að láta vita af þér, til að vekja áhuga, fá fólki til að lika við þig eða treysta þér, gefa fólki “smakk” af því sem þú hefur upp á að bjóða, ýta við fólki að ganga frá sölunni, fá meiri viðskipti

út úr núverandi viðskiptavinum eða fá núverandi viðskiptavini til að láta aðra vita af þér? Hvað er hlutverk þessarar tilteknu aðgerðar? Hvað viltu að þetta geri? Hvernig á þessi markaðsaðgerð að leiða fólk áfram í markaðsferlinu? Og hugsaðu svo um hvernig þú getur mælt hvort aðgerðin gerir það sem þú vilt að hún geri.

Þetta kallar á að markaðsaðgerðirnar þínar vinni saman, spili saman eins og hljóðfæri í sinfóníunni og styðji við hverja aðra.
 
Hér eru nokkur dæmi um hvað þú gætir viljað að markaðsaðgerðinar þínar gerðu og hvernig þú gætir mælt það:
  • Hvað viltu að fólk geri þegar það sér Facebook auglýsinguna þína? Viltu að þau smelli á hana og skrái sig á póstlista? – notaðu þá “conversion pixel” til að mæla hversu margir skrá sig.
  • Viltu auka traffík frá twitter inn á vefsíðuna þína? Notaðu Hootsuite til að tvíta og þá mæla þeir hversu margir smella á hlekkinn – og notaðu svo Google Analytics á vefsíðuna þína til að sjá hversu mikil traffík er að koma frá twitter og hvort að það sem þú ert að gera er að auka hana.
  • Ef þú selur beint í gegnum vefsíðuna þína, ertu að selja? Hversu margir koma á tiltekna síðu á vefnum og hversu margir af þeim kaupa svo? Ef þú færð fullt af traffík en enga sölu, þá veistu að síðan er líklega vandamálið. Hvernig geturðu bætt hana til að klára meiri sölu?
Það er fullt af hlutum sem þú getur verið að mæla. Ef þú veist nákvæmlega hverju  þú vilt vera að ná fram með því sem þú ert að gera, þá er mun auðveldara að mæla hvort þú ert að ná því. Ég mæli með því að gera færri hluti vel og vera viss um að þeir virki heldur en að gera fullt af hlutum og hafa ekki hugmynd um hvort þeir eru að virka fyrir þig.
Hvernig geturðu mælt árangurinn af því sem þú ert að gera í markaðsstarfinu þínu? Það er áskorun og vinna, en vildu heldur hlaupa eins og hamstur í hjóli eyðandi tíma, orku og peningum, og hafa ekkert upp úr krafsinun?

 

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsferli, mælingar

Þolinmæði þrautir vinnur allar – líka í markaðsstarfinu!

Það er langbest að gera sér bara grein fyrir því strax að markaðsstarf tekur tíma. Og sætta sig við það. Það gerist ekki nokkur skapaður hlutur á einni nóttu. Þetta er ekki spurning um eina risa auglýsingu hér eða boostaðan Facebook póst þar. Fólk þarf að fara í gegnum ákveðið ferli og þú verður að ná til þeirra ansi oft áður en þau eru tilbúin til að kaupa af þér. Ef þú vilt vita meira um markaðsferlið, endilega tjékkaðu á þessum pósti hér.

Skv. sölugúrúnum Brian Tracy tekur það fimm söluheimsóknir áður en viðskiptavinurinn er tilbúinn að kaupa. Það eru heimsóknir og mjög mjög dýr leið til að selja. Þú eyðir tíma dýrs starfsmanns í að fara til viðskiptavinarins og eyða með honum tíma. Þeir eru í sama herberginu, talandi saman augliti til auglitis í nokkrar mínútur a.m.k. Þannig að ef það tekur fimm slíkar heimsóknir að meðaltali, þá geturðu rétt ímyndað þér hversu miklu oftar þú þarft að ná til fólks í gegnum markaðsstarfið áður en það er tilbúið að kaupa. (Þú kannt að halda, byggt á þessu, að markaðsstarfið sé því ekki eins áhrifaríkt og söluheimsóknir, en treystu mér, það er ekki svo. Markaðsstarfið er mun skalanlegra en heimsóknir og getur náð til mun mun fleiri í einu á auðveldari hátt ;)

Mig langar að deila með þér einni af uppáhalds tilvitnunum mínum fyrir markaðsstarfið, sem hittir algjörlega í mark hvað þetta varðar. Hún er frá Thomas Smith:

  • Fyrst þegar maður lítur á auglýsingu, sér hann hana ekki.
  • Í annað skiptið tekur hann ekki eftir henni.
  • Í þriðja skiptið verður hann meðvitaður um að hún er til.
  • Í fjórða skiptið minnir hann að hann hafi séð hana.
  • Í fimmta skiptið les hann auglýsinguna.
  • Í sjötta skiptið lætur hann sem hann sjái hana ekki.
  • Í sjöunda skiptið les hann hana í gegn og segir, “Oh, þessi!”
  • Í áttunda skiptið segir hann, “þarna er þessi fjandans auglýsing aftur”.
  • Í níunda skiptið hugsar hann hvort það sé nú eitthvað varið í þetta.
  • Í tíunda skiptið spyr hann nágrannann hvort hann hafi prufað þetta.
  • Í ellefta skiptið veltir hann fyrir sér hvernig þetta getur borgað sig fyrir auglýsandann.
  • Í tólfta skiptið hugsar hann að þetta hljóti nú að vera gott.
  • Í þrettánda skiptið hugsar hann að það hljóti nú að vera eitthvað virði í þessu.
  • Í fjórtanda skiptið man hann að hann hefur lengi langað í svona.
  • Í fimmtánda skiptið kvelur þetta hann eiginlega því hann hefur ekki efni á þessu.
  • Í sextánda skiptið hugsar hann sem svo að einn daginn muni hann kaupa sér svona.
  • Í sautjánda skiptið setur hann á minnismiða að fá sér svona.
  • Í átjánda skiptið bölvar hann fátækt sinni.
  • Í nítjánda skiptið telur hann peningana sína vandlega.
  • Í tuttugasta skiptið sem hann sér auglýsinguna kaupir hann vöruna.

Þetta er akkúrat það sem ég er að tala um þegar ég tala um að þú þurfir að endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka. Fólk verður að sjá þig ansi oft áður en það er tilbúið að kaupa. Það sem er enn áhugaverðara er að Thomas Smith skrifaði þetta árið 1885!!!! Þetta er ekkert nýtt. Markaðsstarfið tekur tíma. Smith gerði sér grein fyrir þessu fyrir lööööööööööööngu síðan! Þú verður að endurtaka þig, þú verður að halda samræmi í því sem þú gerir og þú verður að tala sífellt um sömu hlutina til að ná í gegn og eignast stað í huga fólks.

Endurtekurðu þig nógu oft – eða gefstu kannski of snemma upp?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Endurtekning, markaðsferli

Endurtaka, endurtaka, endurtaka…

Í fyrri pósti hef ég talað um að maður þurfi að finna hvern einasta snertipunkt við brandið og skoða hvernig við getum notað hvern og einn til að byggja það. Við þurfum að tryggja að fólk fái sömu upplifun af okkur hvar sem það kemst í snertingu við okkur. En það er ekki nóg. Þú verður líka að endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka enn og aftur…

Það er frábært þegar manni leiðist!

Endurtekning er lykilatriði í markaðsetningu, og ég get lofað þér því að ef þú ert að vinna markaðsstarfið rétt, þá kemur þér til með að leiðast. Þú verður leið(ur) á brand útlitinu; litunum þínum, leturgerðinni, myndunum o.s.frv., þú verður leið(ur) á markaðsefninu; auglýsingunum, skilaboðunum o.s.frv. Þú færð leið á þessu öllu saman. Það er alveg klárt mál! En málið er að þú ert alltaf að vinna með þetta. Þú ert alltaf að horfa á þetta, hugsa um þetta, þú ert alltaf að hrærast í þessu. Það væri hinsvegar fínn árangur ef fólkið sem þú ert að reyna að ná til sæi svona 1% af öllu því sem þú ert að gera. Þú verður að muna að markaðsstarfið snýst ekki um þig. Það snýst um þau. Þér á eftir að leiðast þetta, en þú verður bara að láta þig hafa það og harka af þér!

Ef þú ferð að breyta hlutunum bara af því að þér leiðist; breyta skilaboðunum, breyta útlitinu hvort sem það er á auglýsingum, bæklingum, efni á samfélagsmiðlunum, blogginu eða hverju sem er,
þá ertu aftur á byrjunarreit. Við vitum öll hversu margir hlutir berjast um athygli okkar hvern einasta dag. Ef þú ert alltaf að breyta þá þekkir fólk þig ekki aftur og þú þarft að byrja að byggja upp vitund og fá þau til að þekkja þig algjörlega upp á nýtt. Ef þú hinsvegar heldur þig við það sama þá styrkirðu þig í minninu á þeim og endar með því að festast þar.

Slönguspilið

Þetta er svolítið eins og slönguspil. Með því að vera alltaf að og hafa samræmi í því sem þú gerir þá færistu upp borðið. Af og til gerist eitthvað stórt og flott, þú kannski færð góða fjölmiðlaumfjöllun eða herferð heppnast sérstaklega vel og þú færð að fara upp stigann og komast hraðar áfram. En ef þú ferð að breyta hlutunum, breyta skilaboðunum, útlitinu o.s.frv. þá nær snákurinn í þig og þú rennur niður aftur og þarft að byrja að klífa upp á nýtt!

Endurtekning > Þekking > Traust

Annar mikilvægur hlutur þegar kemur að endurtekningu, fyrir utan bara að tryggja að fólk viti af manni og þekki mann, er traust. Fólk kaupir af fólki og fyrirtækjum sem það þekkir, líkar við og treystir. Og endurtekning byggir traust. Spáðu bara í þessu þegar kemur að fólki. Við þekkjum öll einhverja sem okkur líður ekki alveg nógu vel með bara vegna þess að “ég veit aldrei hvar ég hef hann”. Ef við erum ekki samkvæm sjálfum okkur og fólk veit ekki alveg við hverju það á að búast þá fer það að hugsa “hmmm… ég veit nú ekki alveg með þetta”. Það kemur til með að eyðileggja það traust sem þú kannt að hafa byggt upp.

Það hefur einnig verið sannað að bara við það að sjá eða heyra sama hlutinn aftur og aftur og aftur þá aukast líkurnar á að þér fari að líka við hann og treysta honum. Hver man ekki eftir einhverju óþolandi popplagi í útvarpinu sem maður þoldi ekki þegar maður heyrði það fyrst en maður er farinn að dilla sér við þegar maður er búinn að heyra það í þúsundasta skiptið eða svo? ;)

Hér er saga sem sýnir þetta enn betur: Segjum svo að þú farir í ræktina í hverri viku, alltaf á sama tíma, og þar er einhver sem er alltaf þar á sama tíma og þú. Þú þekkir þessa manneskju ekki neitt, talar aldrei við hana, veist ekkert hvað hún heitir, en hún er alltaf þarna. Þú ert alltaf að sjá þetta andlit. Svo ferðu á t.d. námskeið þar sem þú þekkir ekki nokkurn mann, nema að þessi aðili úr ræktinni er þarna. Þegar leiðbeinandinn segir fólki að vinna í pörum, hver er fyrsta manneskjan sem þú dregst að? Að öllum líkindum er það manneskjan sem þú ert margoft búin(n) að sjá í ræktinni, því að það að hafa séð hana aftur og aftur og aftur hefur byggt upp traust og þér finnst þú þekkja hana – a.m.k. betur en hina. Þetta virkar algjörlega eins með fyrirtæki, vörur og þjónustu. Þú þarft að sjá þau aftur og aftur og aftur. Því meira sem þú sérð þau, því betur ferðu að þekkja þau og því meira treystirðu þeim. Það er enn ein ástæðan til þess að vera ekki að breyta hlutunum alltaf hreint. Þú verður að vera samkvæmur sjálfum þér og endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka svo enn meira.

Endurtekur þú þig nógu mikið?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Branding, Endurtekning, líka við, traust, vitund

Markaðsferlið

Það er mikilvægt að skilja ferlið sem viðskiptavinurinn þarf að fara í gegnum áður en hann er tilbúinn að kaupa af þér. Ef þú skilur það ferli, þá ertu betur í stakk búinn til að nýta markaðsaðgerðirnar þínar og skilaboðin markvisst til að færa hann í gegnum það og að kaupum.

Fyrsta skrefið er einfaldlega að fólk viti að þú ert til – vitund. Það þýðir ekki bara að fólk hafi séð þig einu sinni eða tvisvar, það þarf að hafa virklega tekið eftir þér til að hægt sé að segja að vitund sé til staðar. Það er ansi erfitt að fá einhver til að kaupa af manni sem veit ekki einu sinni að maður er til, ekki satt? ;)

Þó svo að fólk viti að þú ert til, þá er ekki þar með sagt að það hafi áhuga. Og ef fólk hefur ekki áhuga á fyrirtækinu þínu, vörunni eða þjónustunni, þá nær þetta ekki lengra. Þú verður að vekja áhuga þeirra til að fá þau til að vera tilbúin að hlusta og taka til greina það sem þú ert að segja. Það er ekki fyrr
en áhuginn er til staðar að þau tjékka á þér, með því t.d. að koma á vefsíðuna þína eða kíkja á þig á samfélagsmiðlunum, eða með því að kíkja við í versluninni þinni næst þegar þau eiga leið hjá.

Hvað svo ef þeim líkar ekki það sem þau sjá og upplifa þegar þau tjékka á þér? Þá er þetta líka bara búið. Við kaupum ekki frá fólki eða fyrirtækjum sem okkur líkar ekki við. Það er bara svo einfalt. En alveg eins og með fólk, þá mun aldrei öllum líka við þig – og það er allt í lagi. Hey, það er fullt af fólki þarna úti sem þolir mig ekki. En það skiptir engu máli, því að það kemur til með að vera fólk þarna úti sem fílar mig. Það að vera annað hvort eða er frábært, þú vilt að fólk annað hvort elski þig eða hati þig – því að þeir sem elska þig eru þeir sem eru líklegir til að kaupa. Þeir sem hugsa bara “æi, þetta er ágætt” gætu kannski keypt af þér einhvern tímann, en þeir eru alveg eins líklegir til að kaupa af einhverjum öðrum. Þú vilt ekki að fólk noti “ugla sat á kvisti” til að velja hvort það verslar við þig eða einhvern annan og hvað þá að það fari að horfa bara í verðin – það er stórhættulegt fyrir viðskiptin.

Hefurðu einhvern tímann farið inn í verslun og ætlað að kaupa eitthvað, en skipt um skoðun þegar þú ert kominn inn? Þú ætlar ennþá að kaupa það sem þú komst til að kaupa, en þú ætlar bara ekki að kaupa það þarna. Hefurðu jafnvel keyrt bæinn þveran og endilangan til að fara og kaupa hlutinn einhvers staðar annars staðar og jafnvel borgað aðeins meira, bara vegna þess að þér líkaði sú verslun betur? Við skiptum við fólk og fyrirtæki sem okkur líkar við, svo það skiptir máli að markhópnum þínum líki við þig!

Annar mikilvægur þáttur er traust. Við þurfum að treysta fólkinu og fyrirtækjunum sem við eigum viðskipti við. Traust skiptir alltaf máli, en það hefur kannski ekki alveg jafn mikið vægi þegar við kaupum eitthvað ódýrt sem skiptir okkur litlu máli, en eftir því sem hlutirnir verða dýrari, persónulegri eða krefjast meiri skuldbindingar, þá kallar það á meira traust til að við séum tilbúin að kaupa. Þú verður þess vegna að finna markvissar aðferðir til að byggja upp traust.

Hversu mikinn áhuga sem við höfum, hversu mikið sem okkur líkar við hlutina og við treystum þeim, þá finnst okkur alltaf öruggara að fá að prófa. Prufa er því oft algjörlega nauðsynleg áður en fólk er tilbúið að kaupa. Þegar um vöru er að ræða er þetta oft einfalt mál. Þú getur farið í verslunina og skoðað vöruna, haldið á henni, jafnvel prófað hana. Það eru oft ábyrgðir og oft hægt að skila innan ákveðins tíma. Þegar um þjónustu ræðir getur þetta verið aðeins erfiðara. Það er jú eðli þjónustu að ef þú prófar hana þá ertu búinn að fá hana. Það er ekki hægt að klippa hárið aftur á, eða tæma hausinn af þeirri þekkingu sem fólk fékk á námskeiðinu. Þú þarft þess vegna að hugsa aðeins út fyrir kassann með þetta og það eru margar leiðir til að leysa þetta mál. Sumar þjónustur bjóða prufu í ákveðinn tíma (mjög þekkt í hugbúnaðarbransanum t.d.), þú getur notað myndbönd, ummæli viðskiptavina og ýmsar aðrar leiðir.

Það er ekki fyrr en fólk hefur farið í gegnum alla þessa þætti: vitund – áhuga – líka við – traust – prufu – þá fyrst komum við að sölu. Og oftast þarf að ýta aðeins við henni. Fólk er einfaldlega þannig að því finnst auðveldara að taka ekki ákvörðun heldur en að gera það, svo þú þarft að ýta við þeim að taka ákvörðunin um að kaupa – og tryggja að það sé ekkert í söluferlinu sem hægt er að hnjóta um.

Þessu lýkur ekki öllu með sölunni. Það mætti segja að þarna sé sambandið fyrst að byrja, því eðli sambandsins hefur breyst. Þetta er ekki lengur bara einhver manneskja út í bæ, þessi manneskja er núna viðskiptavinur. Þú hefur þegar leitt viðkomandi í gegnum fyrri hluta markaðsferlisins, þannig að það er bara rökrétt að halda áfram að byggja þetta samband. Þessi aðili þekkir þig, hefur áhuga á þér, líkar við þig, treystir þér og hefur prófað vöruna þína eða þjónustu. Jú, að sjálfsögðu viltu alltaf líka vera að vinna í að ná í nýja viðskiptavini til að fyrirtæki vaxi enn frekar, en ekki sleppa hendinni af þeim sem þú hefur náð til nú þegar. Finndu út hvað meira þú getur gert fyrir þá og þá nærðu ekki bara endurtekinni sölu, heldur geturðu líka fengið eitt af öflugustu markaðstólunum – tilvísanir! Þegar viðskiptavinirnir þínir mæla með þér við aðra þá vita þeir af þér og eru mun líklegri til að hafa áhuga á þér, líka við þig, treysta þér og vera tilbúin til að prófa þig heldur en aðrir. Tilvísanir geta verið ótrúlega öflugar og eru markaðstól sem þú átt klárlega að vera að byggja upp.

Spekúleraðu í því hvað þú ert að gera í markaðsstarfinu í dag og hvernig það leiðir mögulega viðskiptavini í gegnum markaðsferlið. Hvernig geturðu notað aðgerðirnar til að styðja við ferlið og leiða fólk í gegnum það að sölu, endurtekinni sölu og tilvísunum?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: endurtekin sala, líka við, markaðsferli, prufa, tilvísun, traust, vitund

  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 26
  • Next Page »

Categories

  • Facebook
  • Google+
  • LinkedIn
  • Pinterest
  • Twitter
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter
  • Welcome
  • Target Groups
  • Competition
  • Branding
  • Marcoms
  • System
  • My Profile
  • Login

© 2021 Thoranna.is · Rainmaker Platform

Privacy Policy