This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for stefna

5 leiðir til að spara meiri tíma í markaðssetningu

5 leiðir til að spara tíma í markaðssetningu - thoranna.is

Þessi blessaður tími! – okkur vantar alltaf meira af honum!

“Time is on my side” sungu Rolling Stones. Svei mér þá, ég held þeir séu þeir einu sem það á við um! Alveg sama við hvern maður talar, hvert maður snýr sér og hvað maður gerir, það hefur enginn tíma.

Í sumar hef ég gert tvær kannanir meðal fólks í fyrirtækjarekstri og rauði þráðurinn, gegnumgangandi er að fólk vantar tíma. Það hefur ekki tíma í markaðsstarfið, það hefur ekki tíma til að læra að gera markaðsstarfið hagkvæmara þannig að það nái meiri árangri með það á minni tíma. Það hefur ekki tíma til að vera til!

Úff, ég skil það svo vel. Ég þekki þetta algjörlega sjálf!

En veistu, þetta þarf ekki að vera svona. Ég veit það líka af eigin raun, bæði frá mér og viðskiptavinum mínum.

Þú þarft engan fyrirlestur um um nauðsyn markaðsstarfsins og hversu mikilvægt það er að eyða tíma í það því annars gerist lítið sem ekkert í fyrirtækinu þínu og þú heldur áfram eins og hamstur í  hjóli. Ég meina – hey, þú veist það nú þegar, ekki satt ;)   Ef ekki, þá ættirðu kannski að kíkja hér.

Núna ætla ég að tala um tímann sem þú græðir á því að eyða fyrst smá tíma í að koma markaðsstarfinu í öflugan farveg. Þeim tíma sem þú verð í markaðsstarfið í dag, ef einhver er, gæti mögulega verið betur varið þannig að þú fáir mun meira út úr því sem þú gerir  ;)    Æi þú veist, þetta með að taka sér tíma til að gera teikningar af húsinu áður en maður byggir svo að það endi ekki svona:

heldur svona:

Ólíkt betra, ekki satt?

Kíktu á þetta litla vídeó til að sjá hvað eru mikilvægustu atriðin til að spara tíma í markaðsstarfinu en ná samt sem áður mun betri árangri en ella:

Ég er einmitt líka um þessar mundir að vinna í því að losa um enn meiri tíma svo ég geti sinnt því sem er mikilvægt, en ekki bara að slökka elda sem eru áríðandi. Ég ætla að segja þér meira frá því síðar…

xo
Þóranna

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: aðgreining, árangur, Brand, markhópagreining, markhópur, mikilvægt, samkeppnisgreining, stefna, tími, tól og tæki, vænlegur markhópur

Hinir mörgu hattar fyrirtækjaeigandans!

hinir mörgu hattar fyrirtækjaeigandans - thoranna.is
Við sem eigum eða stýrum minni fyrirtækjum þekkjum þetta öll. Að vera með marga hatta á hverjum degi. Það er í mörg horn að líta og margt sem þarf að huga að, því að þó að fyrirtækið sé ekki stórt, þá er breiddin í verkefnunum oft jafn mikil og í stærri fyrirtækjum, en við erum ekki með sérstakan starfsmenn í hverri deild – hvað þá heila deild af fólki!


Ef við bætist að vera frumkvöðull að byggja upp þitt eigið fyrirtæki, þá er auðvelt að detta í þá gryfju að finnast maður þurfa að gera allt sjálfur og vita allt, því að ef maður getur jú bjargað hlutunum sjálfur þá þarf maður ekki að borga öðrum fyrir að gera þá og sparar þar með peninga. Ekki satt?


Gengur dæmið upp?

En hvað gerist þá? Gengur dæmið upp?


Svarið er einfaldlega nei. Það getur mallað áfram. Fyrirtækið getur mögulega lifað af, en það verður aldrei meira en það. Það mun aldrei blómstra. Það mun aldrei veita þér þá ánægju sem þú leitar eftir og í stað þess að eiga og reka fyrirtæki ertu einfaldlega starfsmaður með harðasta yfirmann allra – þig! Og kulnun er mjög raunveruleg áhætta.


Staðreyndin er sú að það er jú gott að hafa góða yfirsýn yfir allar hliðar fyrirtækisins sem maður er að stýra og skilning á því hvað hvert og eitt svið felur í sér þannig að maður geti séð heildarmyndina og hafi vit á því sem er í gangi. En maður getur ekki verið sérfræðingur í öllu og maður hefur bara 24 tíma í sólarhringnum. “One man show” er einfaldlega dæmt til að rétt lifa af – ef ekki bara dauðadæmt.


Ég hef lært þetta sjálf á eigin skinni. Jú, sumt af því sem ég hef gert í mínu fyrirtæki hefur verið nauðsynlegt fyrir mig til að átta mig á hvernig best er að gera það. Ég er jú ekki með fyrirtæki sem er að gera eins og gert hefur verið áður. Markaðsþjálfun á netinu hefur ekki verið til á Íslandi áður, og markaðsþjálfun á þann hátt sem ég er að gera hana virðist ekki vera þarna úti heldur (ekki misskilja mig, það er fullt af flottu fólki úti í hinum stóra heimi að kenna ýmislegt varðandi markaðsmálin í gegnum netið, en ég hef ekki fundið neinn enskumælandi sem er að kenna þetta á sama hátt og ég og flestir eru að kenna á ákveðin markaðstól og -tæki). Vöruþróunin og að finna út úr hinum ýmsu hlutum hefur því kallað á að ég sé innsti koppur í búri í flestum verkefnum framanaf.


Hinsvegar get ég ekki sagt þér hvað hlutirnir fóru að gerast miklu hraðar og verða mun öflugri þegar ég lærði að fá hjálp. Í dag er ég með aðstoðarmanneskju í að sjá um ýmis dagleg verkefni fyrir mig, manneskju sem aðstoðar mig við bloggið, aðila sem aðstoðar mig með vefinn minn og annan sem er að vinna með mér í lykilorðagreiningu og leitarvélabestun. Ég er að vinna í því að koma mér á erlendan markað, sem ég hefði aldrei náð að gera annars og ég sé fram á að fá hina ýmsu aðila í hin ýmsu verkefni í framtíðinni. Ég kann margt af þessu og gæti bjargað mér – ég hef yfirsýnina og heildarmyndina – en mínum tíma er einfaldlega betur varið í að þjónusta viðskiptavinina mína með því að þróa þjónustuna og veita hana og í að markaðssetja mig.


Strategía og taktík

Það er einmitt hugsunin á bak við MáM þjálfunina að sjá stóru myndina og hafa grundvallarskilninginn sem maður þarf á markaðsmálum, geta mótað stefnuna og vita hvað maður á að gera. Ég mæli síðan ekkert endilega með því að þú græjir allt og gerir – verðir sérfræðingur í póstlistaforritum, vefgerð, öllum mögulegum og ómögulegum samfélagsmiðlum og hvað þetta allt er. Satt best að segja mæli ég eindregið með því að fá síðan sérfræðinga til að sjá um það um leið og þú hefur tök á því (sem er yfirleitt fyrr en maður heldur) – en með góðri yfirsýn og skilningi á því hvað þessi sérfræðingar sem maður kaupir þjónustu frá eru að gera þá er maður bæði upplýstari kaupandi að þjónustunni og getur haldið betur utan um heildardæmið. En heildarstefnan (e. strategy) þarf að vera þín. Aðgerðirnar (e. tactics) er svo hægt að fá hjálp með.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, Brand, framtíðarsýn, fylgjast með, skipulag, stefna

Pissar þú í skóinn?

Ég er alsæl að bjóða velkominn gestabloggara á MáM bloggið. Þetta hefur staðið til lengi, en það er jú staðreynd að duglegt fólk sem hefur eitthvað að segja hefur líka mikið að gera og því hefur tekið sinn tíma að koma þessu af stað. Vonandi verður þetta bara fyrsti af mörgum skemmtilegum, áhugaverðum og gagnlegum gestabloggum.

Í dag bloggar hún Halla Kolbeinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Hugsmiðjunni, en við Halla kynntumst haustið 2012 þegar ég vann með Hugsmiðjunni í markaðsstefnunni þeirra. Síðan þá hafa þau bara verið að rokka sífellt feitar og feitar (bókstaflega – það er fullt af tónlistarmönnum þarna ha ha ha!) og nú nýlega var bloggið þeirra tilnefnt til SVEF verðlaunannna sem besti vefmiðillinn – og það í hópi stórra og landsþekktra vefmiðla! (Ég vil nú eiga pínku oggu ponsu pons í að blogginu skuli hafa verið ýtt úr vör svo ég er extra glöð fyrir þeirra hönd ;)

Jæja, nóg blaður frá mér – et voilà – gestablogg frá Höllu í Hugsmiðjunni: 

Góður grunnur er gulls ígildi

Í okkar daglega starfi hjá Hugsmiðjunni vinnum við mikið með viðskiptavinum sem koma til okkar í leit að nýjum, betri vef.

Sumir koma til okkar því þau vita að hér eru afburða forritarar, aðrir hafa séð hönnun frá okkur sem heillar og aðrir þekkja okkur vegna vinnubragða í viðmótsforritun. Það sem færri sjá er ósýnilega undirbúningsvinnan. Grunnurinn að góðum vef.

Vinnan sparar tímann

Fyrsta fasa í vefgerð köllum við oft greiningu og hönnun. Til eru mörg afbrigði af fyrstu skrefunum: Markhópagreining, markaðsgreining, vefstefnumótun, ímynd fyrirtækisins og tónn, samkeppnisgreining o.fl. Misjafnt er eftir verkefnum hvort þurfi að ráðast í allar greiningar, en best er, ef vel á að fara, að taka skurk á nokkrum þeirra. Greining getur munað því hvort vefur er hannaður fyrir markhóp fyrirtækisins (í stað starfsmanna fyrirtækisins) og hvort auðvelt sé að nota hann eða ekki.

Við bjóðum sjálf upp á marga þætti hjá okkur, en þegar kemur að því að gera fínt hjá sjálfum sér getur hjálpað að leita utan sinna eigin veggja og fá óháða leiðsögn og ráðgjöf.

Árið 2012 vorum við hjá Hugsmiðjunni að vinna að því að koma okkar eigin vef í loftið. Það gekk svona upp og ofan þannig að við tókum á það ráð að sækja leiðsögn að utan. Við höfðum samband við MáM og eftir nokkra fundi með Þórönnu fór leiðin hjá okkur að skýrast.

Það að sjá skýrt hverjir okkar markhópar eru, hverjir samkeppnisaðilarnir eru og hvað skilur okkur frá þeim er dýrmætt. Saman unnum við að því að koma auga á hvert núverandi brand okkar var og skerpa á því sem var að virka og setja upp plan fyrir framtíðina.

Pissum í skóinn?

Ég fæ á tilfinninguna að sumum finnst þessi vinna vera óþörf. Að fólk hugsi oft „við vitum hver við erum og við hvern við erum að tala: alla – stærra net hlýtur að þýða fleiri viðskiptavinir?“ “Sleppum frekar þessari ‘aukavinnu’ og förum beint í að vinna herferðina”. “Pissum í skóinn” heyri ég bara – skammgóður vermir.

Það er sjaldan sem fleiri en einn til tveir starfsmenn eru með sýnina á hreinu. Verðmætið í að vef-, markaðs-, hönnunar- og framkvæmdastjóri séu öll á sömu blaðsíðu með sýnina er ómetanlegt. Skyndilega er hægt að tala saman út frá sömu forsendum og setja saman aðgerðaplan fyrir markaðsstarf, stefnu og hönnun. Þegar vegakortið liggur fyrir er svo mikið auðveldara að klára hönnun því þá liggja markmiðin í augum uppi. Búið er að taka út mikið af ágiskunum og „tilfinningunni“ sem mismunandi aðilar eru með. Í stað þess að meta vef út frá því sem einhverjum finnst þá er hægt að spyrja: Uppfyllir þessi hönnun markmið okkar sem fyrirtækis? Er þetta það sem markhópur X er að leita að?

Munurinn í heimsóknartölum á vefinn milli ára staðfestir þetta. Árið 2013 fengum við 140% fleiri heimsóknir en 2012. Við höfum stuðst við vinnuskjölin og markaðskerfið frá MáM sem hefur leyft okkur að taka hlutina skrefinu lengra. Það er ótrúlegt hvað markviss undirbúningur skilar miklu.

Hugsmiðjan fór í gegnum MáM þjálfunarferlið og nýtir efnismarkaðssetningu í sínu markaðsstarfi :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: blogg, Branding, framtíðarsýn, markhópagreining, markhópur, samkeppnisgreining, stefna, sýn, vefsíðan

Af hverju dó Europris?

RIP Europris - thoranna.is

Munið þið eftir Europris? Þessum allt muligt verslunum sem maður fékk bæklinga frá inn um lúguna reglulega. Europris hætti starfsemi á Íslandi fyrir allnokkru síðan.

Ég vil byrja á því að taka fram að ég veit alls ekki af hverju Europris hætti og þekki ekki til fyrirtækisins á nokkurn hátt annan en að hafa fengið bæklingana þeirra inn um lúguna og hafa farið nokkrum sinnum þarna inn. Hinsvegar hef ég mínar theoríur og mig langar að nota þær til að undirstrika ákveðna hluti sem skipta máli í markaðsmálunum.

Ég er á því að vandamálið við Europris hafi verið að maður vissi aldrei hvað Europris var. Jú, lágvöruverslun, en lágvöruverslun með hvað? Ég man eftir að hafa komið nokkrum sinnum þarna inn og það voru aldrei sömu vörurnar til. Þú gast ekki treyst því að eitthvað sem þú sást þarna í síðasta mánuði væri til þegar þú kæmir í næsta mánuði.

Ef mig vantar brauð og mjólk, þá veit ég að ég get farið t.d. í Nettó eða Bónus. Ég get treyst því að ég fái það þar. Ef mig vantar úlpu þá veit ég að ég get farið t.d. í 66 Norður eða Cintamani. Ef mig vantar bækur, þá fer ég í Eymundsson eða á Amazon. En þannig var það ekki með Europris. Maður gat aldrei gengið að því sem vísu að maður fengi það sem maður var að leita að. Maður vissi aldrei hverskonar búð þetta var. Ég vissi aldrei í hvaða skúffu í skjalaskápnum í hausnum á mér ég átti að flokka hana. Var þetta matvöruverslun? Já, en nei – ég gat klárlega ekki keypt alla matvöru sem mig vantaði. Var þetta fataverslun? Já og nei, eitthvað smá en þó ekki. Var þetta útivistarverslun? Hmmm stundum og stundum ekki.

Ég hafði bara aldrei hugmynd um hverskonar verslun þetta var. Og ef maður veit ekki í hvaða hólf eða skúffu maður á að flokka eitthvað, þá geymir maður það hvergi og man þess vegna ekki eftir því þegar maður vantar eitthvað sem þessi aðili gæti haft að bjóða. Og hvað Europris varðar þá vissi ég aldrei hvort þeir hefðu það sem mig vantaði.

Mig grunar nú samt að margir sakni þeirra. Ég man að amma fékk þarna eitthvað garn sem hún fílaði í botn. Við keyptum einhvern tímann eitthvað partýtjald þarna og þarna kenndi ýmissra grasa. En þetta er eitt skýrasta dæmið sem ég hef séð um hversu mikilvægt er að fólk viti hver þú ert og hvað þú gerir og geti treyst því.

Hvað finnst þér? Verslaðir þú í Europris? Saknarðu hennar?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, stefna

Kanntu að segja nei?

Við erum flest í hjarta okkar gott fólk. Flest okkar vilja allt fyrir alla gera og það er náttúrulega voðalega gott. En þegar kemur að fyrirtækinu þínu þá er það eiginlega barasta dauðasynd! Ha? Jú, sjáðu til.

Í hverju ertu góð(ur)? Af hverju? Það er venjulega þannig að maður er góður í því sem maður nýtur þess að gera og maður nýtur þess að gera það sem maður er góður í. Þetta helst í hendur – eggið og hænan.
Svo stofnar maður fyrirtæki til að gera það sem maður er góður í. En það er ekkert auðvelt. Það er að mörgu að huga og það tekur tíma að byggja hlutina upp. Maður er mjög mjög mjög meðvitaður um að maður þarf á tekjum að halda. Án þeirra gengur þetta jú ekki. Svo maður fer að taka hliðarspor. Grafíski hönnuðurinn sem vill vera í að gera brand útlit samþykkir að gera útsölubækling fyrir lágvöruverðsverslun. Fatahönnuðurinn sem vill hanna eigin galakjóla tekur að sér að breyta jakkafötum. Og markaðsráðgjafinn sem elskar að vinna með stefnu og brand samþykkir að veita ráðgjöf við uppsetningu á Facebook síðu og AdWords auglýsingum.

Og hvað gerist?

  1. Maður verður hundfúll að vera að gera eitthvað sem maður vill ekki vera að gera.
  2. Maður gerir hlutina ekki eins vel af því að maður nýtur þeirra ekki, sem bitnar á gæðum vinnunnar og ánægju viðskiptavinarins – að ekki sé minnst á hvað það er erfitt að eiga jákvæð og góð samskipti við einhvern sem er að biðja mann að gera eitthvað sem maður vill ekki gera.
  3. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar hluti sem maður vill ekkert vera þekktur fyrir og það dregur að sér fleiri svoleiðis verkefni en ekki þau sem maður vill vera þekktur fyrir.
  4. Maður hefur engan tíma til að gera það sem maður vill gera, það situr bara á hakanum, og loksins uppgötvar maður að maður hefur ekki komið nálægt því í lengri tíma.
  5. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar, en ekki bara eitthvað ákveðið, og þá er maður bara allskonar maðurinn en ekki „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn – og hver heldurðu að fái draumaverkefnin þegar þau koma upp? Jep, „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn.

Ég er búin að vita þetta lengi lengi í hausnum. Þetta er allt í fræðunum. En ég er alltaf að læra þetta betur og betur á eigin skinni. Þess vegna fókusera ég á markaðsstefnuna, brandið og að velja tólin til að byggja það upp.

Ég er hætt að taka að mér verkefni á þessum sviðum því þau taka frá mér tíma og orku til að gera það sem ég er best í og elska að gera, og taka allan fókusinn úr brandinu mínu og veikja það.

Á ensku er talað um „Jack of all trades, master of none“ – og þegar fólk vill láta gera eitthvað almennilega þá vill það meistarann. Þú getur ekki verið meistarinn í öllu. Veldu þitt svið, haltu þig við það og ég lofa að ef þú heldur það út þá muntu uppskera eins og þú sáir ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, ástríða, Brand, hugrekki, stefna

  • 1
  • 2
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform