This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for mikilvægt

Markaðssetning er branding

Ein af ástæðunum fyrir því að ég varð ástfangin af markaðsfræðunum er að þegar ég var í MBA náminu þá áttaði ég mig á því að markaðsstarfið er hjartað í öllum fyrirtækjum. (Mundu að markaðsstarfið er ekki bara auglýsingar ;) Án markaðsstarfsins þá eru engin fyrirtæki. Þeir sem eru ekki inni á markaðslínunni þola oft ekki þegar við markaðsnördarnir tölum um að “bissness = marketing”. En veistu, það er bara þannig :)

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta, svo ég ákvað að fá til liðs við mig tvo af uppáhalds gúrúunum mínum úr stjórnunar- og markaðsfræðunum til að koma til skila hversu mikilvæg markaðsmálin eru: Peter Drucker og Al Ries. Þannig að “don’t just take my word for it” – þeir geta sko heldur betur sagt þér hvernig þetta er! :)

Peter Drucker segir: “Meginhlutverk fyrirtækisins er að þjóna viðskiptavinunum með því að veita þær vörur og þjónustur sem það var sett á fót til að veita. Hagnaður er ekki aðalmarkmiðið, heldur nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fyrirtækið geti haldið áfram að vera til. Aðrar skyldur, svo sem við starfsmenn og samfélagið eru til staðar til að styðja áframhaldandi getu fyrirtækisins til að sinna meginhlutverki sínu.”

Þetta er alltaf kjarni markaðsstarfsins. Það þjóna viðskiptavininum. Því þetta þarf alltaf allt að snúast um viðskiptavininn. Þú verður að sjá hlutina með þeirra augum. Þú verður að gera þér grein fyrir því á hverju þeir þurfa að halda og hvað þeir vilja, og það er það sem þú þarft að veita þeim. Það er meginhlutverkið þitt. Ef þú reynir að troða upp á fólk hlutum sem það vill ekki og þarf ekki á að halda, þá ganga hlutirnir aldrei upp.

Peter Drucker sagði líka: “Þar sem að tilgangur fyrirtækisins er að búa til viðskiptavini, þá hefur fyrirtækið tvö, og einungis tvö, grundvallarhlutverk: markaðssetningu og nýsköpun. Markaðssetning og nýsköpun skapa árangur; allt hitt er kostnaður. Markaðsmálin er hið einstaka og aðgreinandi hlutverk fyrirtækisins.”

Spáðu aðeins í þetta. Hefur hann rangt fyrir sér? Hvað annað gefur árangur? Þetta er nokkuð skondið, því það er mjög algengt að litið sé á markaðsstarfið sem kostnað í fyrirtækjum, í stað þess að
vera eitthvað sem gefur af sér, og það er klárlega sjaldnast litið á það sem fjárfestingu. En það gæti ekki verið meira rangt að líta þannig á málin. Býr fjármálastjórnun til tekjur í sjálfu sér? Nei – það er hægt að stýra fjármálunum en peningarnir þurfa að koma einhversstaðar frá. Býr framleiðslan til tekjur? Nei, í raun ekki. Það kostar að framleiða og án markaðsstarfsins þá væri enginn til að kaupa vöruna og þar með myndi hún aldrei skapa tekjur. Býr starfsmannadeildin til tekjur? Nei, ekki í sjálfu sér. Upplýsingatæknideildin? Nei. Og það má auðveldlega taka þetta lengra. Nýsköpun fellur í raun undir markaðsmál. Manstu þetta með að það að þjónusta viðskiptavininn væri meginhlutverk fyrirtækisins? Jú, almennileg nýsköpun sprettur af því að finna betri leiðir til að þjónusta viðskiptavininn – og hvað er það annað en markaðsmál?

Al Ries segir: “Markaðssetning er það sem fyrirtæki eru í rekstri til að gera. Markaðssetning er aðalmarkmið fyrirtækisins.”

Og hann heldur áfram með aðra sterka yfirlýsingu: “Ef allt fyrirtækið er markaðsdeildin [og það er það], þá er allt fyrirtækið branding deildin.”

Nú er þetta að verða djúsí! Skilurðu núna af hverju ég er alltaf að hamra á þessu branding dæmi?

Þannig að af þessu öllu ætti þetta að vera nokkuð ljóst:

Viðskipti og rekstur = Markaðsmál = Branding :)

Sammála eða ósammála?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Drucker, markaðsmál, mikilvægt, Ries, þjónusta

5 leiðir til að spara meiri tíma í markaðssetningu

5 leiðir til að spara tíma í markaðssetningu - thoranna.is

Þessi blessaður tími! – okkur vantar alltaf meira af honum!

“Time is on my side” sungu Rolling Stones. Svei mér þá, ég held þeir séu þeir einu sem það á við um! Alveg sama við hvern maður talar, hvert maður snýr sér og hvað maður gerir, það hefur enginn tíma.

Í sumar hef ég gert tvær kannanir meðal fólks í fyrirtækjarekstri og rauði þráðurinn, gegnumgangandi er að fólk vantar tíma. Það hefur ekki tíma í markaðsstarfið, það hefur ekki tíma til að læra að gera markaðsstarfið hagkvæmara þannig að það nái meiri árangri með það á minni tíma. Það hefur ekki tíma til að vera til!

Úff, ég skil það svo vel. Ég þekki þetta algjörlega sjálf!

En veistu, þetta þarf ekki að vera svona. Ég veit það líka af eigin raun, bæði frá mér og viðskiptavinum mínum.

Þú þarft engan fyrirlestur um um nauðsyn markaðsstarfsins og hversu mikilvægt það er að eyða tíma í það því annars gerist lítið sem ekkert í fyrirtækinu þínu og þú heldur áfram eins og hamstur í  hjóli. Ég meina – hey, þú veist það nú þegar, ekki satt ;)   Ef ekki, þá ættirðu kannski að kíkja hér.

Núna ætla ég að tala um tímann sem þú græðir á því að eyða fyrst smá tíma í að koma markaðsstarfinu í öflugan farveg. Þeim tíma sem þú verð í markaðsstarfið í dag, ef einhver er, gæti mögulega verið betur varið þannig að þú fáir mun meira út úr því sem þú gerir  ;)    Æi þú veist, þetta með að taka sér tíma til að gera teikningar af húsinu áður en maður byggir svo að það endi ekki svona:

heldur svona:

Ólíkt betra, ekki satt?

Kíktu á þetta litla vídeó til að sjá hvað eru mikilvægustu atriðin til að spara tíma í markaðsstarfinu en ná samt sem áður mun betri árangri en ella:

Ég er einmitt líka um þessar mundir að vinna í því að losa um enn meiri tíma svo ég geti sinnt því sem er mikilvægt, en ekki bara að slökka elda sem eru áríðandi. Ég ætla að segja þér meira frá því síðar…

xo
Þóranna

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: aðgreining, árangur, Brand, markhópagreining, markhópur, mikilvægt, samkeppnisgreining, stefna, tími, tól og tæki, vænlegur markhópur

Er þetta öflugasta spurningin í markaðsstarfinu?

Við vitum öll að það er frábært ef viðskiptavinir eru ánægðir og segja öðrum frá okkur. Þeir sem heyra af okkur á þennan hátt eru mun líklegri til að eiga viðskipti við okkur, og fyrr, en þeir sem heyra af okkur eftir flestum öðrum leiðum. Við vitum líka að tilvísanir eru eitt af fáum tólum sem geta keyrt í gegnum alla hluta markaðsferlisins að sölu, jafnvel algjörlega án aðstoðar frá nokkru öðru (ja, þau okkar sem eru búin að horfa á þetta litla vídeó um markaðsferlið vita það klárlega ;)

Það geta öll fyrirtæki, vörur og þjónusta notið góðs af tilvísunum á einhvern hátt, en almennt er það þannig að því dýrari og/eða persónulegri sem þjónustan er, því mikilvægara verður þetta markaðstól. Ef þú færð t.d. einhvern til að þrífa heima hjá þér þá viltu helst fá tilvísun, ekki satt? En tilvísanir geta líka haft áhrif á mun minni kaup og ópersónulegri. Ef vinkona mín segir mér að Skúbídúbíbrauðið í Bladíbladí bakaríinu sé geggjað, þá er ég mun mun líklegri til að kaupa það en áður, ekki satt?

“Word-of-mouth” eða það að hlutirnir spyrjist frá manni til manns eru ein tegund tilvísana, en það eru ýmsar leiðir til að fá þær og ýta undir þær. Af hverju bara að krossleggja fingurna og vona að einhver mæli með okkur þegar við getum gert eitt og annað til að svo verði? ;)

Svo, þá kemur að þessari spurningu, sem gæti jafnvel verið mikilvægasta spurningin í markaðsstarfinu okkar…

“Myndir þú mæla með … við aðra?” (settu inn nafnið á fyrirtækinu þínu, vöru, þjónustu …) 

Hversu oft spyrðu að því? Ef það er ekki oft, af hverju er það?

Mörgum finnst óþægilegt að spyrja. Af hverju? Ef ég er spurð hvort ég er ánægð og myndi mæla með x, y, eða z við aðra, þá er ég almennt mjög ánægð að finna að fyrirtækinu er ekki sama um hvað mér finnst. Ef þú heldur að þú fáir neikvætt svar, þá ættirðu að líta í eigin barm og sjá hvort það eru ekki einhverjir augljósir hlutir sem þú gætir bætt – já og ekki spyrja tröllin – ef viðskiptavinurinn er alltaf neikvæður og til vandræða, þá má alveg sleppa því að spyrja hann ;)

Þetta er máttug spurning. Hún gefur okkur svo margt. Ef svarið er neikvætt, þá höfum við tækifæri til að kafa dýpra og spyrja í framhaldinu hvað fólk er óánægt með og hvað við gætum verið að gera betur. Það er ómetanlegt að bæta og fínstilla hlutina hjá sér byggt á raunverulegri endurgjöf frá viðskiptavinum en ekki bara því sem við gefum okkur (mundu það sem þeir segja á engilsaxneskunni, “to assume is to make-an-ASS-of-U-and-ME ;)    Og ef svarið er jákvætt, þá er það frábært! Þá er um að gera að grípa tækifærið og biðja strax um þessi meðmæli. Biddu viðkomandi að gefa þér ummæli sem þú mátt birta í markaðsefninu þínu, eða biddu viðkomandi að segja þremur vinum sínum frá þér, einhverjum sem þeir telja að muni virkilega kunna að meta það sem þú hefur að bjóða, eða finndu aðrar leiðir til að grípa tækifærið strax og fá þessa tilvísun.

Mörgum finnst óþægilegt að biðja um tilvísanir. Sumum líður eins og þeir séu að betla. Staðreyndin er hinsvegar sú að ef þú ert með góða vöru eða þjónustu sem viðskiptavinurinn er ánægður með, þá eru þeir meira en tilbúnir til að láta aðra vita af því. Mundu að sá sem veitir tilvísunina nýtur líka góðs af því að benda sínu fólki á hluti sem geta hjálpað þeim – það er eins og að gefa þeim gjöf.

Ef ég get vísað einhverjum á eitthvað sem hjálpar þeim þá bæði fer fólk að líta á mig sem “go to” manneskju þegar þeim vantar hluti (“spurðu Þórönnu, hún getur ábyggilega bent þér á eitthvað gagnlegt”), og þeir sem ég vísa á eru líklegri til að vísa á mig. Allir vinna.

Ef þú ert með frábæra vöru eða þjónustu, hjálpaðu viðskiptavinum þínum að hjálpa sínu fólki með því að gera þeim auðvelt fyrir að vísa á þig ;)

Farðu og spurðu viðskiptavinina þína hvort þeir myndu mæla með þér. Þegar þeir segja já hvað verður næsta skrefið þitt til að fá tilvísunina?

Þetta er einn af þeim hlutum sem eru á lista númer 3 yfir markaðsaðgerðir í MáM, en þar eru upplýsingar um fjölmargar markaðsaðgerðir sem er forgangsraðað eftir því sem þú þarft og svo er þeim raðað saman til að byggja besta mögulega markaðsprógrammið fyrir þig ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: endurtekin sala, mælingar, mikilvægt, tilvísun, þjónusta

Get ÉG ábyrgst árangurinn ÞINN?

get Ég ábyrgst árangurinn þinn? - thoranna.is

Það kemur oftar en ekki fyrir þegar maður ræðir við fólk sem er í leit að aðstoð við markaðsmálin að það er búið að prófa eitt og annað. Það er ekki ósjaldan sem fólk segir mér að það hafi nú auglýst í útvarpinu, eða keypt auglýsinu í blaðinu, og skilur ekkert af hverju það virkaði ekki. Svo réð það almannatengslastofu og því næst einhvern til að græja leitarvélarbestun og það bara skilur ekki að það sá engan varanlegan árangur – ef nokkurn. Svo kemur það til mín og leitar ráða og oftar en ekki spyr það hvenær það geti búist við að sjá árangur af vinnunni. Því hann þarf helst að sjást á morgun.

Þetta minnir mig svolítið á það sem ég hef lesið mér til um barnauppeldi. Ég á tvö börn (fædd 2004 og 2008) og er þessi týpa sem las allar óléttubækurnar á meðgöngunni og uppeldisbækurnar á meðan barnið var enn ekki farið að ganga. Eitt af lyklunum við barnauppeldi er samræmi yfir lengri tíma. Að nota alltaf sömu aðferðirnar. Ef þú byrjar að nota 1, 2, 3 aðferðina, haltu þig þá við hana. Ef þú notar “timeout” þá þarftu að halda þig við að gera það og það tekur tíma þar til þetta fer allt að virka almennilega. Flest okkar könnumst við foreldra sem hlaupa úr einu í annað, nota þessa aðferðina einn daginn og hina hinn daginn og skilja ekkert af hverju börnin vaða upp um alla veggi.

Þetta er alveg eins í markaðsstarfinu. Ef við hlaupum alltaf í sitt hvora áttina reynandi þetta í dag og hitt á morgun þá er aldrei neitt að fara að virka. Ég er ekki að segja að maður eigi að berja hausnum við steinninn og halda áfram án þess að breyta nokkru þegar það er greinilegt að hlutirnir gera ekkert gagn, en við verðum að gefa þeim sjéns. Við verðum að gefa þeim tíma. Markaðssetning, alveg eins og barnauppeldi, er maraþon – ekki spretthlaup.

Fyrir ykkur sem lesið þetta og kannist ekki við þetta með barnauppeldið, þá er kannski gagnlegra að setja þetta fram í samhengi við vigtina og ræktina. Ef að ég svelti mig þess vikuna, fer á LKL hina vikuna, South Beach næstu vikuna og gerist svo grænmetisæta vikuna þar á eftir, þá er ekki líklegt að ég nái miklum árangri. Eða ef ég fer í ræktina í fjóra tíma í dag en svo ekkert í viku, og svo fimm tíma á dag í 3 daga og svo ekkert í mánuð. Við vitum að við þurfum að vinna jafnt og þétt að markmiðunum okkar og gefa hlutunum tíma. Þannig næst varanlegur árangur.

Þess vegna þarftu að leggja góðan grunn að markaðsstarfinu, velja þær aðgerðir sem eru líklegastar til að virka, vinna þær jafnt og þétt og vel og gefa þeim tíma.

Ég var spurð um daginn hvort ég gæti ábyrgst árangurinn af MáM þjálfuninni minni. Svarið er einfalt: Nei. Ekkert frekar en einkaþjálfarinn í ræktinni getur ábyrgst árangurinn þinn. Það ert þú sem þarft að vinna vinnuna. Ég get leitt þig rétta vegu og gefið þér tækin og tólin, en það er þitt að nýta þau. Alveg eins og það er þitt að mæta í ræktina og gera æfingarnar.

Og það er munurinn á þeim sem ná árangri og þeim sem gera það ekki. Hvernig þú notar það sem þú færð í hendurnar. Það er ástæðan fyrir því að sumir eru í brjáluðu formi og aðrir ekki og ástæðan fyrir því að sum fyrirtæki rokka feitt í markaðsstarfinu og önnur ekki.

Hey, ef þetta væri auðvelt, þá værum við öll búin að gera þetta ;)


P.s. 9 ára dóttir mín sagði mér brandara um daginn um mann sem ákvað að synda yfir Ermasundið. Þegar hann var kominn hálfa leið þá gafst hann upp og synti til baka! Ha ha ha ha … einmitt ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, mikilvægt

Markaðsmálin eru mikilvæg!

Fyrsta vídeóið í MáM blogginu fjallar um mikilvægi markaðsstarfsins fyrir árangur fyrirtækisins þíns og að taka frá tíma fyrir það.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, markaðsmál, mikilvægt, skipulag

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform