This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for samkeppnisgreining

Hvernig fylgist þú með samkeppninni þinni?

Í fyrri pósti held ég að mér hafi tekist að sannfæra fólk um nauðsyn þess að fylgjast með samkeppninni – eða hvað? ;)  En það er ekki nóg að rannsaka þá bara með smásjá einu sinni og svo ekkert meira. Hlutirnir breytast og þróast hratt í nútímaheimi og þú þarft alltaf að vera með puttann á púlsinum.

Það er mjög misjafnt hvað þú ert að skoða hjá samkeppninni eftir því í hvaða bransa þú ert, en það eru alltaf ákveðin kjarnaatriði á borð við:

  • Hvað eru þeir að gera í markaðssetningu?
  • Hvert virðast þeir stefna?
  • Hvaða markhópum eru þeir að einbeita sér að?
  • Hversu stórir eru þeir (starfsmannafjöldi, velta, markaðshlutdeild)?
Það er fullt fleira og ýmislegt sem á sérstaklega við hjá þér og þessir hlutir munu breytast. Ef eitthvað er öruggt í þessu lífi þá er það að hlutirnir breytast ;)

Hér eru nokkrar leiðir til að fylgjast með samkeppninni til að passa að þeir taki ekki fram úr þér ;)

Heimsæktu þá!

Ef að þú ert í þannig bransa að fyrirtæki séu með ákveðinn stað sem fólk kemur á, þá legg ég til að þú heimsækir samkeppnina reglulega. Einn viðskiptavina minna á veitingastað og í hverri viku fer hún og borðar á einhverjum af veitingastöðum samkeppnisaðilanna. Þetta er frábær leið til að sjá hvað þeir eru að bralla, sjá breytingar á matseðlinum, fá tilfinningu fyrir umhverfinu og almennt að upplifa samkeppnina. Eru samkeppnisaðilar þínir með verslun, bakararí eða hvað sem er þannig að þú getir heimsótt þá?
Ég veit að þetta getur verið snúið ef þetta er lítill markaður með fáum aðilum þar sem þú getur eiginlega ekki látið sjá þig hjá samkeppnisaðilanum. Og þar sem maður kannski er ekkert alltaf – það væri t.d. skrýtið ef þú kæmir og mátaðir brúðarkjóla einu sinni í mánuði! En þú getur fengið aðra í lið með þér, s.s. starfsfólkið þitt, vini og fjölskyldu og launað þeim hjálpina með einhverjum hætti – þú getur ábyggilega látið þér detta eitthvað sniðugt í hug!

Vertu áskrifandi, fylgdu, líkaðu við o.s.frv.

  • Vertu á póstlistanum
  • Skráðu þig til að fá sent fréttabréf ef þeir gefa slíkt út
  • Spreðaðu í like á Facebook
  • Fylgdu þeim á öðrum samfélagsmiðlum, s.s. Twitter, Pinterest, Instagram o.s.frv.
  • Vertu áskrifandi að fréttum og bloggi frá þeim

Skoðaðu þá á netinu

Kíktu á vefsíðuna þeirra reglulega – þú getur lært ýmislegt um þá þar. Það er alltaf erfitt fyrir mann að ákveða sjálfur hversu miklar upplýsingar maður á að setja á vefinn, því að þá getur samkeppnin séð þær líka, en ég myndi ekki hafa of miklar áhyggjur af því. Þú ætlar að fylgjast vel með samkeppnisaðilunum þínum, og þú ætlar að vera svo frábær í því sem þú gerir að þó að samkeppnin fái upplýsingar um þig á vefsíðunni þá skiptir það ekki máli! Vertu viss um að viðskiptavinirnir geti fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa – það er aðalmálið!
Svo er náttúrulega Google vinur okkar. Gúgglaðu þá! Gerðu það reglulega. A.m.k. einu sinni í mánuði og þú kannski þarft að gera það oftar – það fer eftir markaðnum þínum. Hversu fjörugur er markaðurinn þinn? Hversu mikið er í gangi?
Þú getur líka notað Google Alert og fengið að vita þegar samkeppnisaðilarnir þínir poppa upp á netinu einhvers staðar.
Þetta eru bara nokkrar einfaldar leiðir til að fylgjast með samkeppninni. Hverja líst þér best á? Lumarðu á fleirum? Deildu með okkur í ummælunum! :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: samkeppni, samkeppnisgreining

Af hverju þarftu að vita eitthvað um samkeppnina þína?!

Nýlega átti ég fund með forystumanni íslensks sprotafyrirtækis sem stefnir hátt og lofar góðu. Þegar ég spurði hann hvernig samkeppnisaðilar þeirra gerðu hlutina sagði hann að honum væri alveg sama um samkeppnina, þau vildu bara einbeita sér að því sem þau væru að gera. Ég skil það alveg. Ekki eyða of mikilli orku í hina.

Vandamálið er hinsvegar að þú ert að reyna að fá fólk til að kaupa af þér frekar en einhverjum öðrum. Ef þú veist ekki hvaða valmöguleikum fólk stendur frammi fyrir og hvaða kosti það er að bera saman, hvernig geturðu mögulega fengið fólk til að skilja að það sem þú býður sé málið? Ef þú þekkir ekki samkeppnina, hvernig ætlar þú að svara þegar þú ert spurð(ur): “Af hverju ætti ég að kaupa af þér frekar en þeim?”
Ef þú þekkir þá ekki, þá geturðu ekki svarað almennilega!

Betri þjónusta, betri gæði, bla bla bla bla bla – vertu öðruvísi!

Ekki falla heldur í þá gildru að svara með “Vegna þess að við bjóðum betri þjónustu”, eða “við bjóðum betri gæði”. Þetta er allt allt of almennt svar sem segir manni ekki neitt. Betri þjónustu samkvæmt hverjum? Við hvaða þjónustustig eða -staðla er verið að miða? Það sem þér finnst betri þjónusta er kannski ekki það sem öðrum finnst betri þjónusta og þínar þjónustukröfur geta verið allt aðrar en hjá öðrum. Fólk er kannski barasta ekkert að spá í þeim hlutum sem þú flokkar sem “betri þjónusta”. Þjónusta og gæði eru tveir af þeim hlutum sem er hvað erfiðast að ætla að nota sem forskot á samkeppnina.
Jay Conrad Levinson, faðir skæruliðamarkaðssetningarinnar, segir: “Þetta snýst ekki um að vera betri en samkeppnisaðilinn. Þetta snýst um að vera öðruvísi”. Ef þú þekkir ekki samkeppnina og veist ekki hvernig þeir eru, hvernig ætlar þú þá að vera öðruvísi? Og það að vera öðruvísi – sérstaða á markaði – er lykilatriði í góðri markaðssetningu.

“Ég veit þetta allt saman” veikin ;)

Oft þegar ég spyr fólk um samkeppnina heyri ég líka: “Ég veit alveg hverjir þetta eru, ég þarf ekkert að skoða þá sérstaklega”. Það eru allnokkrir viðskiptavinir sem hafa sagt nákvæmlega þetta þegar ég legg til að þau stúderi samkeppnina. Hey, ég er að vinna með fullorðnu fólki. Ég ráðlegg bara. Ég get ekki neytt fólk til að gera hlutina :)  Svo ég læt þetta vera og held áfram að vinna með þeim. Án undantekningar kemur annað hvort að því að a) fólk ákveður að fylgja nú ráðum mínum og vinna þessa vinnu eða b) fólk áttar sig á því á einhverjum tímapunkti að það er fast og getur í raun ekki tekið ýmsar stefnumótandi ákvarðanir án þess að vita eitt og annað um samkeppnina. Og þá skella þau sér í að gera greininguna sem ég lagði til að þau gerðu :) Og í hvert skipti kemur fólk til mín eftir þetta alveg upptjúnað og spennt og að missa sig yfir öllu því sem þau lærðu, tækifærunum sem þau afhjúpuðu o.s.frv.

Maður getur nefnilega líka lært svo mikið af samkeppninni. Þú lærir hvað hinir gera vel og þú getur fengið ýmislegt gott lánað hjá þeim. Þú sérð líka á hverju samkeppnisaðilarnir eru að klikka, þannig að þú getur forðast að gera sömu mistök, og það sem meira er, þú afhjúpar ýmis tækifæri. Sumir viðskiptavinir mínir hafa hreinlega fundið nýjar vörur og þjónustuleiðir eftir að hafa stúderað samkeppnina – vörur og þjónustuleiðir sem þeir hafa bara fengið dágott upp úr, takk fyrir ;)

Meðvitund

Ég er alls ekki að segja að þú eigir að bregðast við öllu sem samkeppnisaðilar þínir gera, hvað þá elta þá, en þú þarft að vera meðvituð/-aður um hvað þeir eru að gera. Þetta er í raun mjög einfalt: Ef þú fylgist ekki með samkeppnisaðilunum þá veistu ekki hvað þeir eru að bralla og þeir gætu barasta læðst fram úr þér einn daginn og skilið þig eftir í rykinu. Viltu virkilega taka sjénsinn á því?
Mín tillaga er að næstu vikuna spáirðu svolítið í þetta. Hverjir eru samkeppnisaðilarnir þínir? Hvað eru þeir að gera svona almennt? Hvað gera þeir vel? Hvað gera þeir illa? Hvernig gera þeir hlutina? Hvert virðast þeir vera að stefna? Hvernig geturðu búið svo um hnútana að þegar fólk skoðar þá og skoðar svo það sem þú hefur að bjóða að það vilji heldur skipta við þig?


Það væri frábært að heyra hvað þú græðir á þessu – endilega deildu með okkur hér fyrir neðan :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: samkeppni, samkeppnisgreining

Hvernig nýtist markaðssetning fyrir hreyfihamlaða?

Markaðsmál eiga það til að hafa á sér þá ímynd að markaðsfólk læri einfaldlega að troða upp á mann allskonar hlutum sem maður þarf ekki. Það er hinsvegar mikill misskilningur. Markaðsstarf snýst um að mæta þörfum fólks, og svo þarf maður að láta fólk vita að maður getur mætt þörfum þess, leyst vandamál þess o.s.frv. Það gerir ekkert gagn að geta gert gagn en gera það svo ekki vegna þess að enginn veit af því, eða fólk áttar sig ekki á því hvað maður gerir fyrir það ;)

Gott dæmi um hvernig nýta má markaðsfræðin algjörlega til góðs var þegar Sigurbjörg Daníelsdóttir, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar, hafði samband við mig í vetur. Þekkingarmiðstöðin er upplýsinga- og fræðslumiðstöð fyrir hreyfihamlaða og aðstandendur þeirra og starfsfólk hennar fann að þrátt fyrir að hafa komið upp glæsilegum upplýsingavef o.fl. þá var það ekki nóg. Þau þurftu að finna leiðir til að láta fólk vita af honum og hvernig mætti nýta þjónustuna þeirra.
Ég ákvað að bjóða þeim frítt í MáM Bootcamp (planið er að bjóða alltaf einu verkefni frítt í Bootcamp framvegis, einhverju sem er “not-for-profit” og samfélagið nýtur góðs af). Í staðinn bað ég Sigurbjörgu að deila með fólki hvernig MáM hefði nýst þeim.
Við settumst því við tölvurnar, Sigurbjörg í Reykjavík og ég í Njarðvík, og tókum spjall um þessi mál. Þar sem netið var eitthvað að stríða okkur og myndin var ekki góð, ákvað ég að láta hljóðið nægja – bara svona eins og í gamla góða útvarpinu :)
Ég vona að þú hafir gagn og gaman af því að heyra um reynslu þeirra hjá Þekkingarmiðstöðinni af því að vinna markaðsstarfið eftir MáM ferlinu. Ég hvet þig líka eindregið til að kynna þér það frábæra starf sem miðstöðin vinnur. Vefurinn þeirra er thekkingarmidstod.is og óhætt að mæla með honum við hvern þann sem málefni hreyfihamlaðra varðar, hvort sem þú ert hreyfihamlaður einstaklingur, aðstandandi, fyrirtæki eða félag sem vilt betur mæta þörfum þessa hóps eða hvað annað það er.
Smelltu til að hlusta á spjallið okkar um reynslu Þekkingarmiðstöðvarinnar af MáM Bootcamp.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsmál, markhópagreining, póstlistinn, samfélagsmiðlarnir, samkeppnisgreining, upplýsingar, þjónusta

5 leiðir til að spara meiri tíma í markaðssetningu

5 leiðir til að spara tíma í markaðssetningu - thoranna.is

Þessi blessaður tími! – okkur vantar alltaf meira af honum!

“Time is on my side” sungu Rolling Stones. Svei mér þá, ég held þeir séu þeir einu sem það á við um! Alveg sama við hvern maður talar, hvert maður snýr sér og hvað maður gerir, það hefur enginn tíma.

Í sumar hef ég gert tvær kannanir meðal fólks í fyrirtækjarekstri og rauði þráðurinn, gegnumgangandi er að fólk vantar tíma. Það hefur ekki tíma í markaðsstarfið, það hefur ekki tíma til að læra að gera markaðsstarfið hagkvæmara þannig að það nái meiri árangri með það á minni tíma. Það hefur ekki tíma til að vera til!

Úff, ég skil það svo vel. Ég þekki þetta algjörlega sjálf!

En veistu, þetta þarf ekki að vera svona. Ég veit það líka af eigin raun, bæði frá mér og viðskiptavinum mínum.

Þú þarft engan fyrirlestur um um nauðsyn markaðsstarfsins og hversu mikilvægt það er að eyða tíma í það því annars gerist lítið sem ekkert í fyrirtækinu þínu og þú heldur áfram eins og hamstur í  hjóli. Ég meina – hey, þú veist það nú þegar, ekki satt ;)   Ef ekki, þá ættirðu kannski að kíkja hér.

Núna ætla ég að tala um tímann sem þú græðir á því að eyða fyrst smá tíma í að koma markaðsstarfinu í öflugan farveg. Þeim tíma sem þú verð í markaðsstarfið í dag, ef einhver er, gæti mögulega verið betur varið þannig að þú fáir mun meira út úr því sem þú gerir  ;)    Æi þú veist, þetta með að taka sér tíma til að gera teikningar af húsinu áður en maður byggir svo að það endi ekki svona:

heldur svona:

Ólíkt betra, ekki satt?

Kíktu á þetta litla vídeó til að sjá hvað eru mikilvægustu atriðin til að spara tíma í markaðsstarfinu en ná samt sem áður mun betri árangri en ella:

Ég er einmitt líka um þessar mundir að vinna í því að losa um enn meiri tíma svo ég geti sinnt því sem er mikilvægt, en ekki bara að slökka elda sem eru áríðandi. Ég ætla að segja þér meira frá því síðar…

xo
Þóranna

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: aðgreining, árangur, Brand, markhópagreining, markhópur, mikilvægt, samkeppnisgreining, stefna, tími, tól og tæki, vænlegur markhópur

Dæmi úr reynslubanka markaðsnörds

dæmi úr reynslubanka markaðsnörds - thoranna.is

Númer 1

Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Geturðu græjað fyrir mig … [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og Facebook auglýsingum, Google auglýsingum, vefsíðu og bara svona almennt að græja hitt og þetta svona taktískt]?”.

Markaðsnörd: “Hver er markhópurinn?”

Viðmælandi: “Bara allir”

Markaðsnörd: “Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar?”

Viðmælandi: “Ég þarf ekkert að pæla í þeim”

Markaðsnörd: “Hvernig er brand stefnan þín?”

Viðmælandi: “Brand hvað…? – ég er ekki með neitt svoleiðis”

Markaðsnörd: “Hvað hefurðu verið að gera í markaðsstarfinu hingað til?”

Viðmælandi: “Ég var með [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og útvarpsauglýsingum, blaðaauglýsingum, Facebook auglýsingum og hinu og þessu] þarna um daginn en það kom nú sosum ekkert út úr þeim”

Markaðsnörd: “Má ég leggja til að við byrjum á því að vinna grunnvinnuna, skoða markhópana þína, samkeppnina og hvaða brand þú vilt byggja upp og svo byggt á því að gera markvissa aðgerðaáætlun og prógramm fyrir markaðsstarfið þitt?”

Viðmælandi: “Getur þú ekki bara gert þetta fyrir mig?”

Markaðsnörd: “Nei því miður, við þurfum alltaf að vinna saman að þessu. Þetta er þitt fyrirtæki, sem þú þekkir manna best og veist hverjum þú vilt vinna með og hver þú ert og þ.a.l. hvernig þú vilt að fyrirtækið þitt birtist heiminum. Auk þess er dýrt að kaupa mig til að sjá um þetta í framhaldinu. Það myndi þá borga sig frekar að ráða manneskju, ef þetta er ekki eitthvað sem þú ert tilbúinn að gera sjálf(ur), og þar sem þú ert að leita til mín þá grunar mig að það sé ekki inni í myndinni.”

Viðmælandi: “Ég nenni ekkert að standa í þessu.”

Númer 2

Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að hafa skilning á þessu og að þó að ég fái aðstoð við þetta, eða mögulega ráði einhvern síðar meir, þá er þetta mitt fyrirtæki og markaðsmálin það sem nær í viðskiptin. Ég vil þess vegna setja mig vel inn í þetta, þó ég fái síðan meiri hjálp með eitt og annað. Getur þú hjálpað mér með það?”.

Markaðsnörd: “Já klárlega. Besta leiðin er að þú vinnir skýra markaðsstefnu með minni aðstoð, fáir markhópana þína á hreint, skoðir samkeppnina vel, farir í stefnumótun fyrir brandið þitt og svo geturðu gert skilvirkt plan um hvaða markaðsaðgerðir þú ætla að nota og hvernig þú getur skipulagt þær þannig að þær verði sem áhrifaríkastar og hagkvæmastar.”

Viðmælandi: “Mér líst vel á það. Hvenær getum við byrjað?”

Markaðsnörd: “Þú getur ýmist byrjað núna strax og unnið sjálfsætt en þó með aðgang að mér á netinu og með ráðgjöf yfir netið ef á þarf að halda, eða þú getur verið með í Bootcamp næst þegar það er þar sem hópur fólks fer saman í gegnum þetta ferli og þannig færðu meira aðhald og stuðning bæði frá mér og hinum þátttakendunum.”

Viðmælandi: “Þetta hljómar vel. Hvernig skrái ég mig?”

Markaðsnörd: “á www.mam.is“

Viðmælandi: “Frábært – ég kýli á það”

Hvor heldurðu að sjái meiri árangur í markaðsstarfinu sínu?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: árangur, Brand, markhópagreining, samkeppnisgreining

  • 1
  • 2
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2022 Thoranna.is · Rainmaker Platform

Privacy Policy