This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for samkeppni

Hvernig fylgist þú með samkeppninni þinni?

Í fyrri pósti held ég að mér hafi tekist að sannfæra fólk um nauðsyn þess að fylgjast með samkeppninni – eða hvað? ;)  En það er ekki nóg að rannsaka þá bara með smásjá einu sinni og svo ekkert meira. Hlutirnir breytast og þróast hratt í nútímaheimi og þú þarft alltaf að vera með puttann á púlsinum.

Það er mjög misjafnt hvað þú ert að skoða hjá samkeppninni eftir því í hvaða bransa þú ert, en það eru alltaf ákveðin kjarnaatriði á borð við:

  • Hvað eru þeir að gera í markaðssetningu?
  • Hvert virðast þeir stefna?
  • Hvaða markhópum eru þeir að einbeita sér að?
  • Hversu stórir eru þeir (starfsmannafjöldi, velta, markaðshlutdeild)?
Það er fullt fleira og ýmislegt sem á sérstaklega við hjá þér og þessir hlutir munu breytast. Ef eitthvað er öruggt í þessu lífi þá er það að hlutirnir breytast ;)

Hér eru nokkrar leiðir til að fylgjast með samkeppninni til að passa að þeir taki ekki fram úr þér ;)

Heimsæktu þá!

Ef að þú ert í þannig bransa að fyrirtæki séu með ákveðinn stað sem fólk kemur á, þá legg ég til að þú heimsækir samkeppnina reglulega. Einn viðskiptavina minna á veitingastað og í hverri viku fer hún og borðar á einhverjum af veitingastöðum samkeppnisaðilanna. Þetta er frábær leið til að sjá hvað þeir eru að bralla, sjá breytingar á matseðlinum, fá tilfinningu fyrir umhverfinu og almennt að upplifa samkeppnina. Eru samkeppnisaðilar þínir með verslun, bakararí eða hvað sem er þannig að þú getir heimsótt þá?
Ég veit að þetta getur verið snúið ef þetta er lítill markaður með fáum aðilum þar sem þú getur eiginlega ekki látið sjá þig hjá samkeppnisaðilanum. Og þar sem maður kannski er ekkert alltaf – það væri t.d. skrýtið ef þú kæmir og mátaðir brúðarkjóla einu sinni í mánuði! En þú getur fengið aðra í lið með þér, s.s. starfsfólkið þitt, vini og fjölskyldu og launað þeim hjálpina með einhverjum hætti – þú getur ábyggilega látið þér detta eitthvað sniðugt í hug!

Vertu áskrifandi, fylgdu, líkaðu við o.s.frv.

  • Vertu á póstlistanum
  • Skráðu þig til að fá sent fréttabréf ef þeir gefa slíkt út
  • Spreðaðu í like á Facebook
  • Fylgdu þeim á öðrum samfélagsmiðlum, s.s. Twitter, Pinterest, Instagram o.s.frv.
  • Vertu áskrifandi að fréttum og bloggi frá þeim

Skoðaðu þá á netinu

Kíktu á vefsíðuna þeirra reglulega – þú getur lært ýmislegt um þá þar. Það er alltaf erfitt fyrir mann að ákveða sjálfur hversu miklar upplýsingar maður á að setja á vefinn, því að þá getur samkeppnin séð þær líka, en ég myndi ekki hafa of miklar áhyggjur af því. Þú ætlar að fylgjast vel með samkeppnisaðilunum þínum, og þú ætlar að vera svo frábær í því sem þú gerir að þó að samkeppnin fái upplýsingar um þig á vefsíðunni þá skiptir það ekki máli! Vertu viss um að viðskiptavinirnir geti fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa – það er aðalmálið!
Svo er náttúrulega Google vinur okkar. Gúgglaðu þá! Gerðu það reglulega. A.m.k. einu sinni í mánuði og þú kannski þarft að gera það oftar – það fer eftir markaðnum þínum. Hversu fjörugur er markaðurinn þinn? Hversu mikið er í gangi?
Þú getur líka notað Google Alert og fengið að vita þegar samkeppnisaðilarnir þínir poppa upp á netinu einhvers staðar.
Þetta eru bara nokkrar einfaldar leiðir til að fylgjast með samkeppninni. Hverja líst þér best á? Lumarðu á fleirum? Deildu með okkur í ummælunum! :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: samkeppni, samkeppnisgreining

Af hverju þarftu að vita eitthvað um samkeppnina þína?!

Nýlega átti ég fund með forystumanni íslensks sprotafyrirtækis sem stefnir hátt og lofar góðu. Þegar ég spurði hann hvernig samkeppnisaðilar þeirra gerðu hlutina sagði hann að honum væri alveg sama um samkeppnina, þau vildu bara einbeita sér að því sem þau væru að gera. Ég skil það alveg. Ekki eyða of mikilli orku í hina.

Vandamálið er hinsvegar að þú ert að reyna að fá fólk til að kaupa af þér frekar en einhverjum öðrum. Ef þú veist ekki hvaða valmöguleikum fólk stendur frammi fyrir og hvaða kosti það er að bera saman, hvernig geturðu mögulega fengið fólk til að skilja að það sem þú býður sé málið? Ef þú þekkir ekki samkeppnina, hvernig ætlar þú að svara þegar þú ert spurð(ur): “Af hverju ætti ég að kaupa af þér frekar en þeim?”
Ef þú þekkir þá ekki, þá geturðu ekki svarað almennilega!

Betri þjónusta, betri gæði, bla bla bla bla bla – vertu öðruvísi!

Ekki falla heldur í þá gildru að svara með “Vegna þess að við bjóðum betri þjónustu”, eða “við bjóðum betri gæði”. Þetta er allt allt of almennt svar sem segir manni ekki neitt. Betri þjónustu samkvæmt hverjum? Við hvaða þjónustustig eða -staðla er verið að miða? Það sem þér finnst betri þjónusta er kannski ekki það sem öðrum finnst betri þjónusta og þínar þjónustukröfur geta verið allt aðrar en hjá öðrum. Fólk er kannski barasta ekkert að spá í þeim hlutum sem þú flokkar sem “betri þjónusta”. Þjónusta og gæði eru tveir af þeim hlutum sem er hvað erfiðast að ætla að nota sem forskot á samkeppnina.
Jay Conrad Levinson, faðir skæruliðamarkaðssetningarinnar, segir: “Þetta snýst ekki um að vera betri en samkeppnisaðilinn. Þetta snýst um að vera öðruvísi”. Ef þú þekkir ekki samkeppnina og veist ekki hvernig þeir eru, hvernig ætlar þú þá að vera öðruvísi? Og það að vera öðruvísi – sérstaða á markaði – er lykilatriði í góðri markaðssetningu.

“Ég veit þetta allt saman” veikin ;)

Oft þegar ég spyr fólk um samkeppnina heyri ég líka: “Ég veit alveg hverjir þetta eru, ég þarf ekkert að skoða þá sérstaklega”. Það eru allnokkrir viðskiptavinir sem hafa sagt nákvæmlega þetta þegar ég legg til að þau stúderi samkeppnina. Hey, ég er að vinna með fullorðnu fólki. Ég ráðlegg bara. Ég get ekki neytt fólk til að gera hlutina :)  Svo ég læt þetta vera og held áfram að vinna með þeim. Án undantekningar kemur annað hvort að því að a) fólk ákveður að fylgja nú ráðum mínum og vinna þessa vinnu eða b) fólk áttar sig á því á einhverjum tímapunkti að það er fast og getur í raun ekki tekið ýmsar stefnumótandi ákvarðanir án þess að vita eitt og annað um samkeppnina. Og þá skella þau sér í að gera greininguna sem ég lagði til að þau gerðu :) Og í hvert skipti kemur fólk til mín eftir þetta alveg upptjúnað og spennt og að missa sig yfir öllu því sem þau lærðu, tækifærunum sem þau afhjúpuðu o.s.frv.

Maður getur nefnilega líka lært svo mikið af samkeppninni. Þú lærir hvað hinir gera vel og þú getur fengið ýmislegt gott lánað hjá þeim. Þú sérð líka á hverju samkeppnisaðilarnir eru að klikka, þannig að þú getur forðast að gera sömu mistök, og það sem meira er, þú afhjúpar ýmis tækifæri. Sumir viðskiptavinir mínir hafa hreinlega fundið nýjar vörur og þjónustuleiðir eftir að hafa stúderað samkeppnina – vörur og þjónustuleiðir sem þeir hafa bara fengið dágott upp úr, takk fyrir ;)

Meðvitund

Ég er alls ekki að segja að þú eigir að bregðast við öllu sem samkeppnisaðilar þínir gera, hvað þá elta þá, en þú þarft að vera meðvituð/-aður um hvað þeir eru að gera. Þetta er í raun mjög einfalt: Ef þú fylgist ekki með samkeppnisaðilunum þá veistu ekki hvað þeir eru að bralla og þeir gætu barasta læðst fram úr þér einn daginn og skilið þig eftir í rykinu. Viltu virkilega taka sjénsinn á því?
Mín tillaga er að næstu vikuna spáirðu svolítið í þetta. Hverjir eru samkeppnisaðilarnir þínir? Hvað eru þeir að gera svona almennt? Hvað gera þeir vel? Hvað gera þeir illa? Hvernig gera þeir hlutina? Hvert virðast þeir vera að stefna? Hvernig geturðu búið svo um hnútana að þegar fólk skoðar þá og skoðar svo það sem þú hefur að bjóða að það vilji heldur skipta við þig?


Það væri frábært að heyra hvað þú græðir á þessu – endilega deildu með okkur hér fyrir neðan :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: samkeppni, samkeppnisgreining

Ég elska hann Pablo :)

Ég gekk einu sinni inn í verslun að leita að kuldabuxum á dóttur mína. Þegar ég kom inn var ekki nokkur sála sjáanleg. Eftir smá stund kemur fram maður og þegar ég spyr hann hvort hann eigi kuldabuxur á svona stelpuskottu þá bendir hann lufsulega út í eitt hornið og segir: “ef þær eru til þá eru þær þarna”. Því næst tók hann upp dagblað og hóf að lesa það! Ég hvorki fann kuldabuxur, né, ef ég hefði fundið þær, held ég að ég hefði keypt þær. Ég meina – átti ég að gera þeim það til geðs að borga þeim peninga fyrir 0% þjónustu?

Ég var í Ameríkunni núna í byrjun nóvember. Sem er sosum ekki í frásögur færandi, nema að ég kíkti í svona kannski eina eða tvær búðir (eða svo, hmmmm ;) – og ég fékk menningarsjokk! Jákvætt menningarsjokk! :)

Við konurnar könnumst flest allar við það að það leiðinlegasta sem maður getur verslað sér er gallabuxur. En við látum okkur hafa það, því að þó að það sé leiðinlegt að versla þær þá notum við þær í botn og þær eru náttúrulega bara æðislegar – sérstaklega ef maður dettur niður á gott par sem fer manni vel. Svo ég ákvað, þar sem þarna í Ameríkunni var þessi fína gallabuxnabúð með góð verð, að nú skyldi ég versla mér gallabuxur.

Með hjartslætti og kvíða fór ég inn. Ég horfði ráðvillt á hillur eftir hillur eftir hillur af gallabuxum og taldi í mig kjark. Kemur þá að mér ungur maður, voða sætur og hress, og býður fram aðstoð sína. Ég greip hann náttúrulega fastataki. Hann spurði mig eftir hverju ég væri að leita, mælti með sniðum, litum, sagði mér að ég þyrfti að passa að þó ég væri með sama sniðið þá gæti nú þurft mismunandi stærð eftir því hvaða litur væri á gallabuxunum því efnið væri aðeins öðruvísi og ég veit ekki hvað og hvað. Svo valdi hann nokkrar buxur fyrir mig að prófa, fór með mig inn í mátunarklefa og beið á meðan ég mátaði. Lét mig koma fram, skoðaði mig í bak og fyrir og sagði mér hvað gekk, hvenær ég þyrfti aðra stærð, (hann m.a.s. sagði nokkrum sinnum að ég þyrfti minna númer – og hvaða kona elskar ekki að heyra það!). Hann fór og náði í aðrar stærðir þegar þurfti og bara hreinlega snérist í kringum mig eins og skopparakringla. Þetta var hann Pablo og ég er ástfangin af honum. Ekki eins og manninum mínum (enda hefði Pablo líka meiri áhuga á manninum mínum en mér ;)  en OMG, ég væri til í að klóna litla útgáfu af honum og geta haft hann með mér í vasanum alltaf þegar ég fer að versla gallabuxur. Honum tókst að gera gallabuxnamátun og -kaup ánægjuleg og það er afrek út af fyrir sig!

Þessi verslun er í Ameríku (Levi’s í Wrentham Outlet fyrir utan Boston ;) og ég hef þegar lofað sjálfri mér því að þangað fer ég aftur. Ég keypti mér þrennar buxur – sem ég elska – og mun ábyggilega kaupa mér aðrar þrennar þegar ég fer næst. Ég segi öllum heiminum frá þessu … ég er eitt stykki himinlifandi og brjálæðislega ánægður viðskiptavinur!

Allt of oft þegar maður kemur inn í verslun hérna á blessuðum klakanum, þá fær maður á tilfinninguna að maður sé að trufla starfsfólkið. Bölvað vesen er þetta á manni að vera eitthvað að þvælast þarna inn og skoða og kannski barasta kaupa eitthvað. Þetta er náttúrulega ekki algilt, ég hef alveg fengið svaka góða þjónustu í íslenskum verslunum, en þetta er því miður algengara en hitt. Hvernig í ósköpunum getum við kvartað yfir því að fólk versli ekki hjá okkur þegar þetta er viðmótið sem fólk fær? Nei takk – hingað og ekki lengra. Taki það til sín það íslenska verslunarstarfsfólk sem á það, rífið ykkur upp á rassgatinu og farið að vinna fyrir laununum ykkar. Já og vitiði, bónusinn er að það verður líka bara miklu skemmtilegra í vinnunni því það verða allir svo glaðir :)

Átt þú sögu af góðri þjónustu einhverstaðar sem þú vilt deila með okkur? Segðu okkur endilega frá! :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsdrifni, samkeppni, sölumennska, þjónusta

Ekki byggja á sandi

Efnismarkaðssetning getur verið gríðarlega sterkt tól fyrir minni fyrirtæki. Það tekur jú tíma og vinnu, en ekki svo mikla beinharða peninga – jafnvel enga  – en hún krefst þess hinsvegar að þú sért búinn að vinna grunnvinnuna þína vel.

Ef þú veist ekki til hverra þú ætlar að höfða og ef þú þekkir ekki áhorfendur eða lesendur, hvernig ætlarðu þá að gera efni sem að þeir hafa áhuga á? Hvernig veistu hvar best er að deila efninu með þeim? Hvernig veistu hverskonar efni þau eru líklegust til að vilja sjá; texta, vídeó, myndir o.s.frv.

Þú vilt heldur ekki bara tala um það sem þú gerir, þú vilt hafa svigrúm til að fjalla um ýmislegt í kringum það sem höfðar til markhópsins – annars ertu bara eins og leiðinlegi gæinn í partýinu sem talar bara um sig og sín áhugamál. Þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að vita hver markhópurinn eða markhóparnir eru og að þekkja þá og skilja mjög vel.

Já og ef þú ert með marga markhópa, hvaða efni höfðar til hvers, hvernig er best að koma því til skila þannig að það nýtist sem best, en líka að efni til eins markhóps hafi ekki neikvæð áhrif á annan markhóp ef hann sér það. Þetta þarf allt að vera á hreinu til að ná árangri með efnið þitt.

Að sama skapi verðurðu að vita hver þú vilt vera, hvaða hugsanir þú vilt vekja, hvaða tilfinningar þú vilt að vakni hjá fólki þegar það kemst í samband við þig í gegnum efnið þitt. Efnið þitt byggir brandið þitt á mjög sterkan hátt – en ef þú veist ekki hvernig brand þú vilt byggja upp þá getur efnið aldrei markvisst stuðlað að því að byggja það upp, og jafnvel gert meira illt en gott með því að gera ímyndina óljósa og fólk átti sig ekki á því hver þú ert og hvað þú gerir. Það er aldrei vænlegt til árangurs.

Ef það er ekki samræmi í efninu frá þér, ef það er ekki að koma sömu skilaboðunum og sama brandinu til skila, þá verður það aldrei eins áhrifaríkt – og við megum ekki vera að því að gera hluti sem vinna ekki fyrir okkur jafn hörðum höndum og við gerum sjálf!
Við þurfum líka að huga að því hvar efnið sem við sendum frá okkur passar inn í markaðsferlið. Hvernig ætlum við að nota það til að ýta fólki í gegnum ferlið, í áttina að sölu og áfram að meiri sölu, bæði hjá þeim og í gegnum tilvísanir.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, efnismarkaðssetning, markaðsferli, markhópur, samkeppni

Að fylgjast með samkeppninni

Förum aðeins yfir hvernig þú getur fylgst með samkeppninni…

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: samkeppni, samkeppnisgreining

  • 1
  • 2
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform