This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for þjónusta

Markaðssetning er branding

Ein af ástæðunum fyrir því að ég varð ástfangin af markaðsfræðunum er að þegar ég var í MBA náminu þá áttaði ég mig á því að markaðsstarfið er hjartað í öllum fyrirtækjum. (Mundu að markaðsstarfið er ekki bara auglýsingar ;) Án markaðsstarfsins þá eru engin fyrirtæki. Þeir sem eru ekki inni á markaðslínunni þola oft ekki þegar við markaðsnördarnir tölum um að “bissness = marketing”. En veistu, það er bara þannig :)

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta, svo ég ákvað að fá til liðs við mig tvo af uppáhalds gúrúunum mínum úr stjórnunar- og markaðsfræðunum til að koma til skila hversu mikilvæg markaðsmálin eru: Peter Drucker og Al Ries. Þannig að “don’t just take my word for it” – þeir geta sko heldur betur sagt þér hvernig þetta er! :)

Peter Drucker segir: “Meginhlutverk fyrirtækisins er að þjóna viðskiptavinunum með því að veita þær vörur og þjónustur sem það var sett á fót til að veita. Hagnaður er ekki aðalmarkmiðið, heldur nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fyrirtækið geti haldið áfram að vera til. Aðrar skyldur, svo sem við starfsmenn og samfélagið eru til staðar til að styðja áframhaldandi getu fyrirtækisins til að sinna meginhlutverki sínu.”

Þetta er alltaf kjarni markaðsstarfsins. Það þjóna viðskiptavininum. Því þetta þarf alltaf allt að snúast um viðskiptavininn. Þú verður að sjá hlutina með þeirra augum. Þú verður að gera þér grein fyrir því á hverju þeir þurfa að halda og hvað þeir vilja, og það er það sem þú þarft að veita þeim. Það er meginhlutverkið þitt. Ef þú reynir að troða upp á fólk hlutum sem það vill ekki og þarf ekki á að halda, þá ganga hlutirnir aldrei upp.

Peter Drucker sagði líka: “Þar sem að tilgangur fyrirtækisins er að búa til viðskiptavini, þá hefur fyrirtækið tvö, og einungis tvö, grundvallarhlutverk: markaðssetningu og nýsköpun. Markaðssetning og nýsköpun skapa árangur; allt hitt er kostnaður. Markaðsmálin er hið einstaka og aðgreinandi hlutverk fyrirtækisins.”

Spáðu aðeins í þetta. Hefur hann rangt fyrir sér? Hvað annað gefur árangur? Þetta er nokkuð skondið, því það er mjög algengt að litið sé á markaðsstarfið sem kostnað í fyrirtækjum, í stað þess að
vera eitthvað sem gefur af sér, og það er klárlega sjaldnast litið á það sem fjárfestingu. En það gæti ekki verið meira rangt að líta þannig á málin. Býr fjármálastjórnun til tekjur í sjálfu sér? Nei – það er hægt að stýra fjármálunum en peningarnir þurfa að koma einhversstaðar frá. Býr framleiðslan til tekjur? Nei, í raun ekki. Það kostar að framleiða og án markaðsstarfsins þá væri enginn til að kaupa vöruna og þar með myndi hún aldrei skapa tekjur. Býr starfsmannadeildin til tekjur? Nei, ekki í sjálfu sér. Upplýsingatæknideildin? Nei. Og það má auðveldlega taka þetta lengra. Nýsköpun fellur í raun undir markaðsmál. Manstu þetta með að það að þjónusta viðskiptavininn væri meginhlutverk fyrirtækisins? Jú, almennileg nýsköpun sprettur af því að finna betri leiðir til að þjónusta viðskiptavininn – og hvað er það annað en markaðsmál?

Al Ries segir: “Markaðssetning er það sem fyrirtæki eru í rekstri til að gera. Markaðssetning er aðalmarkmið fyrirtækisins.”

Og hann heldur áfram með aðra sterka yfirlýsingu: “Ef allt fyrirtækið er markaðsdeildin [og það er það], þá er allt fyrirtækið branding deildin.”

Nú er þetta að verða djúsí! Skilurðu núna af hverju ég er alltaf að hamra á þessu branding dæmi?

Þannig að af þessu öllu ætti þetta að vera nokkuð ljóst:

Viðskipti og rekstur = Markaðsmál = Branding :)

Sammála eða ósammála?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Drucker, markaðsmál, mikilvægt, Ries, þjónusta

Hvernig nýtist markaðssetning fyrir hreyfihamlaða?

Markaðsmál eiga það til að hafa á sér þá ímynd að markaðsfólk læri einfaldlega að troða upp á mann allskonar hlutum sem maður þarf ekki. Það er hinsvegar mikill misskilningur. Markaðsstarf snýst um að mæta þörfum fólks, og svo þarf maður að láta fólk vita að maður getur mætt þörfum þess, leyst vandamál þess o.s.frv. Það gerir ekkert gagn að geta gert gagn en gera það svo ekki vegna þess að enginn veit af því, eða fólk áttar sig ekki á því hvað maður gerir fyrir það ;)

Gott dæmi um hvernig nýta má markaðsfræðin algjörlega til góðs var þegar Sigurbjörg Daníelsdóttir, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar, hafði samband við mig í vetur. Þekkingarmiðstöðin er upplýsinga- og fræðslumiðstöð fyrir hreyfihamlaða og aðstandendur þeirra og starfsfólk hennar fann að þrátt fyrir að hafa komið upp glæsilegum upplýsingavef o.fl. þá var það ekki nóg. Þau þurftu að finna leiðir til að láta fólk vita af honum og hvernig mætti nýta þjónustuna þeirra.
Ég ákvað að bjóða þeim frítt í MáM Bootcamp (planið er að bjóða alltaf einu verkefni frítt í Bootcamp framvegis, einhverju sem er “not-for-profit” og samfélagið nýtur góðs af). Í staðinn bað ég Sigurbjörgu að deila með fólki hvernig MáM hefði nýst þeim.
Við settumst því við tölvurnar, Sigurbjörg í Reykjavík og ég í Njarðvík, og tókum spjall um þessi mál. Þar sem netið var eitthvað að stríða okkur og myndin var ekki góð, ákvað ég að láta hljóðið nægja – bara svona eins og í gamla góða útvarpinu :)
Ég vona að þú hafir gagn og gaman af því að heyra um reynslu þeirra hjá Þekkingarmiðstöðinni af því að vinna markaðsstarfið eftir MáM ferlinu. Ég hvet þig líka eindregið til að kynna þér það frábæra starf sem miðstöðin vinnur. Vefurinn þeirra er thekkingarmidstod.is og óhætt að mæla með honum við hvern þann sem málefni hreyfihamlaðra varðar, hvort sem þú ert hreyfihamlaður einstaklingur, aðstandandi, fyrirtæki eða félag sem vilt betur mæta þörfum þessa hóps eða hvað annað það er.
Smelltu til að hlusta á spjallið okkar um reynslu Þekkingarmiðstöðvarinnar af MáM Bootcamp.

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsmál, markhópagreining, póstlistinn, samfélagsmiðlarnir, samkeppnisgreining, upplýsingar, þjónusta

Er þetta öflugasta spurningin í markaðsstarfinu?

Við vitum öll að það er frábært ef viðskiptavinir eru ánægðir og segja öðrum frá okkur. Þeir sem heyra af okkur á þennan hátt eru mun líklegri til að eiga viðskipti við okkur, og fyrr, en þeir sem heyra af okkur eftir flestum öðrum leiðum. Við vitum líka að tilvísanir eru eitt af fáum tólum sem geta keyrt í gegnum alla hluta markaðsferlisins að sölu, jafnvel algjörlega án aðstoðar frá nokkru öðru (ja, þau okkar sem eru búin að horfa á þetta litla vídeó um markaðsferlið vita það klárlega ;)

Það geta öll fyrirtæki, vörur og þjónusta notið góðs af tilvísunum á einhvern hátt, en almennt er það þannig að því dýrari og/eða persónulegri sem þjónustan er, því mikilvægara verður þetta markaðstól. Ef þú færð t.d. einhvern til að þrífa heima hjá þér þá viltu helst fá tilvísun, ekki satt? En tilvísanir geta líka haft áhrif á mun minni kaup og ópersónulegri. Ef vinkona mín segir mér að Skúbídúbíbrauðið í Bladíbladí bakaríinu sé geggjað, þá er ég mun mun líklegri til að kaupa það en áður, ekki satt?

“Word-of-mouth” eða það að hlutirnir spyrjist frá manni til manns eru ein tegund tilvísana, en það eru ýmsar leiðir til að fá þær og ýta undir þær. Af hverju bara að krossleggja fingurna og vona að einhver mæli með okkur þegar við getum gert eitt og annað til að svo verði? ;)

Svo, þá kemur að þessari spurningu, sem gæti jafnvel verið mikilvægasta spurningin í markaðsstarfinu okkar…

“Myndir þú mæla með … við aðra?” (settu inn nafnið á fyrirtækinu þínu, vöru, þjónustu …) 

Hversu oft spyrðu að því? Ef það er ekki oft, af hverju er það?

Mörgum finnst óþægilegt að spyrja. Af hverju? Ef ég er spurð hvort ég er ánægð og myndi mæla með x, y, eða z við aðra, þá er ég almennt mjög ánægð að finna að fyrirtækinu er ekki sama um hvað mér finnst. Ef þú heldur að þú fáir neikvætt svar, þá ættirðu að líta í eigin barm og sjá hvort það eru ekki einhverjir augljósir hlutir sem þú gætir bætt – já og ekki spyrja tröllin – ef viðskiptavinurinn er alltaf neikvæður og til vandræða, þá má alveg sleppa því að spyrja hann ;)

Þetta er máttug spurning. Hún gefur okkur svo margt. Ef svarið er neikvætt, þá höfum við tækifæri til að kafa dýpra og spyrja í framhaldinu hvað fólk er óánægt með og hvað við gætum verið að gera betur. Það er ómetanlegt að bæta og fínstilla hlutina hjá sér byggt á raunverulegri endurgjöf frá viðskiptavinum en ekki bara því sem við gefum okkur (mundu það sem þeir segja á engilsaxneskunni, “to assume is to make-an-ASS-of-U-and-ME ;)    Og ef svarið er jákvætt, þá er það frábært! Þá er um að gera að grípa tækifærið og biðja strax um þessi meðmæli. Biddu viðkomandi að gefa þér ummæli sem þú mátt birta í markaðsefninu þínu, eða biddu viðkomandi að segja þremur vinum sínum frá þér, einhverjum sem þeir telja að muni virkilega kunna að meta það sem þú hefur að bjóða, eða finndu aðrar leiðir til að grípa tækifærið strax og fá þessa tilvísun.

Mörgum finnst óþægilegt að biðja um tilvísanir. Sumum líður eins og þeir séu að betla. Staðreyndin er hinsvegar sú að ef þú ert með góða vöru eða þjónustu sem viðskiptavinurinn er ánægður með, þá eru þeir meira en tilbúnir til að láta aðra vita af því. Mundu að sá sem veitir tilvísunina nýtur líka góðs af því að benda sínu fólki á hluti sem geta hjálpað þeim – það er eins og að gefa þeim gjöf.

Ef ég get vísað einhverjum á eitthvað sem hjálpar þeim þá bæði fer fólk að líta á mig sem “go to” manneskju þegar þeim vantar hluti (“spurðu Þórönnu, hún getur ábyggilega bent þér á eitthvað gagnlegt”), og þeir sem ég vísa á eru líklegri til að vísa á mig. Allir vinna.

Ef þú ert með frábæra vöru eða þjónustu, hjálpaðu viðskiptavinum þínum að hjálpa sínu fólki með því að gera þeim auðvelt fyrir að vísa á þig ;)

Farðu og spurðu viðskiptavinina þína hvort þeir myndu mæla með þér. Þegar þeir segja já hvað verður næsta skrefið þitt til að fá tilvísunina?

Þetta er einn af þeim hlutum sem eru á lista númer 3 yfir markaðsaðgerðir í MáM, en þar eru upplýsingar um fjölmargar markaðsaðgerðir sem er forgangsraðað eftir því sem þú þarft og svo er þeim raðað saman til að byggja besta mögulega markaðsprógrammið fyrir þig ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: endurtekin sala, mælingar, mikilvægt, tilvísun, þjónusta

Það sem Herjólfur og aðrir geta lært af leikskóla sonar míns

Bæði börnin mín hafa verið í frábærum leikskóla hér í Innri Njarðvík sem heitir Akur og er Hjallastefnuleikskóli. Frumburðurinn er nú kominn í skóla, en guttinn er enn á Akri og alsæll. Og við foreldrarnir erum líka alsæl. Þegar dóttir okkar byrjaði þarna, þá þriggja ára, þá var skólinn glænýr. Ég meina, hún var bókstaflega í fyrsta hópnum sem var þarna. Við fundum aldrei nokkurn tímann fyrir því að það væri ekki allt á hreinu, og það er fyndið núna að heyra starfsfólkið, sem maður hefur fengið tækifæri til að kynnast vel, tala um kaosið sem þau upplifðu á bak við tjöldin í byrjun – en við foreldrarnir vissum aldrei af!

Margir sem ekki þekkja Hjallastefnuna hafa á henni hinar ýmsu skoðanir. Ég ætla ekki að fara út í þau mál hér nema til að nota nokkur atriði til að sýna fram á hvað fyrirtæki geta lært af Hjallastefnunni þegar kemur að upplifun viðskiptavina. Eitt af því sem þeir, sem ekki þekkja til, gagnrýna er að allt sé mjög formfast. Það er allt merkt, plássinn barnanna þar sem þau sitja í samveru, plássinn frammi á gangi þar sem þau bíða ef verið er t.d. að fara út og allir hlutir, hvort sem það eru hlutir eða húsgögn eru litamerktir sínum kjarna (kjarnarnir heita eftir litunum, s.s. Rauður, Blár, Gulur o.s.frv.) og í skúffum, skápum og hillum er merkt hvað á að fara hvar. Það sem margir taka sérstaklega eftir er að á göngunum eru örvar sem segja til um hvar skuli ganga – þarna er hreinlega hægri umferð, líkt og á götunum.

Þetta hefur aldrei stuðað mig neitt, og eftir að ég sótti foreldrafund þar sem Margrét Pála Ólafsdóttir, upphafsmanneskja Hjallastefnunnar, útskýrði ástæðurnar að baki þessu, þá finnst mér þetta frábært. Þegar lítið barn kemur á nýjan stað, líkt og leikskóla, þar sem er fullt af öðrum börnum, fullt af kennurum og mikið líf og fjör, þá er auðvelt að finnast heimurinn afskaplega stór og mikil hætta á að óöryggi grípi litla einstaklinga. Með því að þau fái sitt merkta pláss í leikskólaveröldinni finna þau að þau eiga sitt pláss í þessum heimi og verða ekki eins hrædd um að verða útundan. Með því að merkja hvar hlutir eiga að vera þá bæði tryggjum við að þeir týnist síður, en kennum þeim líka hvar þeir eiga að vera og kennum þeim góða umgengni. Almennt séð hjálpa allir þessir hlutir til við að einfalda aðeins veröldina fyrir litla gorma sem eru að taka sín fyrstu skref í stórum heimi þar sem sem auðvelt er að verða óöruggur og hræddur.

Og hvað kemur þetta fyrirtækjum við? Jú, nú skal ég segja þér aðra sögu.

Eins og margir sem fylgja mér á blogginu eða samfélagsmiðlunum urðu varir við, þá varð ég veðurteppt í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Það er svosem ekki í frásögur færandi. Hinsvegar, þá varð mér mikið hugsað til leikskóla sonar míns á ferðum mínum með Herjólfi því að þau hjá Herjólfi gætu nefnilega lært mikið af honum.

Beðið eftir Herjólfi í Þorlákshöfn til að komast til Eyja

Í allri minni upplifun af þessum ferðum fann ég að ég var ekki “innanbúðar” – ég var ekki partur af þessum heimi. Það var greinilega ýmislegt sem Eyjamenn og aðrir sem alltaf eru að ferðast með Herjólfi vissu, en fyrir “óinnvígða” eins og mig, þá varð ég bara að reka mig á hlutina. Þetta voru hlutir eins og bara hreinlega hvernig maður fer um borð. Tröppurnar úr afgreiðslunni sem fara upp í landganginn eru ekki merktar, a.m.k. úti í Eyjum, svo maður gæti alveg eins haldið að þær lægju upp á skrifstofugang. Engar örvar og hægri umferð þar.

Mjög þakklát fyrir að hafa verið bent á að bóka koju! :)

Annað var þetta með kojurnar. Mér var sem betur fer bent á, af velviljuðum Eyjamanni, að bóka mér koju – sérstaklega þar sem mátti búast við að vont væri í sjóinn. Flott mál. Ég bóka koju og ég er afskaplega þakklát fyrir þær ráðleggingar. Þegar inn er komið eru engar skýrar merkingar um hvernig maður á svo að bera sig að. Ég fer í kaffiteríuna og spyr, og kemur þá í ljós að í öðrum enda kaffiteríunnar á maður að gefa sig fram, afhenda kojumiðann og fá úthlutaða koju. Þetta kom hvergi fram við bókun né var þetta merkt neinstaðar svo maður gæti séð inni í skipinu.Ég hefði geta vafrað þarna um heillengi og aldrei vitað neitt – og aldrei komist í koju. Á leikskólanum er sko á hreinu hvar allt er og hvað það er. Engin kojuleit þar!

Þetta eru svona litlir og einfaldir hlutir. Ekkert stórmál en eitthvað sem Herjólfsmenn ættu klárlega að huga að þar sem að upplifun viðskiptavina skiptir máli. (En það er kannski svona þegar hlutirnir eru ríkiseinokunarbatterí – þá er kannski lítill hvati, eða hvað? ;)

Hinsvegar tók algjörlega steininn úr á leiðinni aftur í land. Það var sólarhringsseinkun, sem er jú ekkert mál og bara skiljanlegt. Ég átti bókað kl. 8 á miðvikudegi en það var ekki siglt fyrr en kl. 8 á fimmtudegi. Á miðvikudagsmorgninum leit hinsvegar fyrst um sinn út fyrir að yrði siglt, svo að okkur var tjáð að siglt yrði kl. 9, við skyldum bara fara inn í skip og koma okkur fyrir. Kl. 9 er tilkynnt að farið verði kl. 10 og svo kl. 10 er tilkynnt að ekki verið farið í bili, allir beðnir um að yfirgefa skipið og reynt yrði aftur kl. 13 – sem svo varð 14 og svo ferðinni aflýst. Seinnipartinn hafði ég farið í afgreiðsluna og spurt sérstaklega hvort ég þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir þegar um svona seinkanir og frestanir væri að ræða og var sagt að ég ætti bara bókað og þyrfti ekkert að spá í því meir.

Vélin sem beið mín á Reykjavíkurflugvelli til að fara til Hafnar

Ég mæti á fimmtudagsmorgninum, klár í Herjólf, og þar sem það hafði orði sólarhringsseinkun þá þurfti ég að keyra beina leið frá Þorlákshöfn út á Reykjavíkurflugvöll til að ná flugi til Hafnar í Hornafirði þar sem næsta námskeið hjá mér var. Þá er mér tjáð að bíllinn minn kæmist ekki með í land! “Ha? En ég spurði sérstaklega í gær hvort að ég þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir”. Ég var að tala við vegg. Ég fékk að ræða við rekstrarstjórann sem tjáði mér að það væri ekkert hægt að gera. Þeir gengu fyrir sem áttu bókað kl. 8 á fimmtudagsmorgninum. Ég hefði þurft að setja mig á biðlista daginn áður. Hmmmm … það væri nú áhugavert ef þeir gengju fyrir í flug sem ættu bókað í dag þrátt fyrir að það hefði verið ófært allan gærdaginn. Mjög sérstakt fyrirkomulag, svo ekki sé meira sagt.

Þegar ég sagði stjóranum að ég hefði sérstaklega spurt daginn áður hvort ég þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir og verið sagt að svo væri ekki, þá fór hann að tala um að þetta væri nú reynt starfsfólk og vissi nú alveg hvernig þetta væri, gefandi í skyn að þetta gæti nú ekki verið. Ég spurði hann einfaldlega hvort að hann teldi að ég væri að ljúga því að mér hefði verið sagt þetta, og hann dró þá í land með það. Þá hinsvegar sagði hann mér að þetta kæmi skýrt fram á miðanum mínum. Hmmmmm … það myndi vera miðinn sem ég afhenti á miðvikudagsmorgninum þegar allir voru sendir í skip áður en siglingu var seinkað og svo aflýst. Það er jú voðalega erfitt að skoða hann þegar maður er ekki með hann. Merkilegt nokk, þá fékk ég bæði tölvupóst og sms um seinkanirnar og svo þegar var aflýst, en þessar – ja, frekar svona mikilvægu – upplýsingar komu ekki fram þar.

Þetta þýddi að ég þurfti að skilja bílinn eftir í Eyjum, sigla sjálf á Þorlákshöfn og draga manninn minn úr vinnu til að sækja mig þangað og keyra mig út á Reykjavíkurflugvöll. Bíllinn kom svo með næsta bát – sem kom að landi í Landeyjarhöfn! Frá Suðurnesjunum er það svona tæpur vinnudagur í tímum að keyra fram og til baka, takk fyrir. Þetta sem betur fer bjargaðist fyrir horn þar sem góðviljaðir aðilar nýttu tengslanetið sitt og fundu mann sem var að koma með þeim bát og var tilbúinn að keyra bílinn í höfuðborgina – en það er ekkert sjálfgefið og við einfaldlega duttum í lukkupottinn þar.

Það er því óhætt að segja að mín upplifun af því að ferðast með Herjólfi hafi ekki verið góð – og þá á ég ekki við seinkanir og velting – við því er ekkert að gera og vel skiljanlegt – heldur einfaldlega upplýsingagjöf og þjónustu. Í leikskólanum vita börnin – og foreldrarnir – nákvæmlega hvernig hlutirnir fara fram og hvernig á að bera sig að, nýjir sem reyndir.

Mér varð nú líka hugsað til erlendra ferðamanna sem kjósa þennan samgöngumáta – hamingjan hjálpi þeim. Það er merkilegt að þeir komist nokkurn tímann til Eyja!

Hefði Hjallastefnan séð um upplifun viðskiptavina Herjólfs efast ég ekki um að það væri algjörlega á hreinu hvert ég ætti að fara og hvað ég ætti að gera til að komast um borð. Ég hefði fengið skýrar leiðbeiningar, og merkingar, um hvernig ég ætti að bera mig að í kojumálunum og þegar ferðinni var aflýst hefði ég fengið skýrar upplýsingar um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig (og þar sem ég þekki leikskólann ekki af öðru en sanngirni þá hugsa ég að eðlileg forgangsröð hefði verið á hlutum eins og bílabókunum). Og ég hefði fengið tölvupóst (Herjólfsfólk er jú með netfangið mitt), eftir að ég kom heim, með könnun um hvernig ferðin hefði verið og hvernig bæta mætti þjónustuna!

Og áður en einhver sendir á mig “já, en þetta stendur nú þarna, þú hefðir átt að sjá þetta eða vita hitt” – þá er það bara svo einfalt að þú átt aldrei að gera ráð fyrir að viðskiptavinurinn sjái eitthvað eða viti eitthvað. Þú átt einfaldlega að tryggja að það sem hann verður að sjá og vita fari alls ekki fram hjá honum. Þú átt að fá aðra sem ekki þekkja til að til að prófa allt þjónustuferlið, allt kaupferlið – allt sem því viðkemur. Og þú átt að hlusta á þá. Að þessu leyti hefur viðskiptavinurinn einfaldlega alltaf rétt fyrir sér!

Hefurðu prófað þetta fyrir þitt fyrirtæki?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: miðlun, skipulag, upplýsingar, þjónusta

Ég elska hann Pablo :)

Ég gekk einu sinni inn í verslun að leita að kuldabuxum á dóttur mína. Þegar ég kom inn var ekki nokkur sála sjáanleg. Eftir smá stund kemur fram maður og þegar ég spyr hann hvort hann eigi kuldabuxur á svona stelpuskottu þá bendir hann lufsulega út í eitt hornið og segir: “ef þær eru til þá eru þær þarna”. Því næst tók hann upp dagblað og hóf að lesa það! Ég hvorki fann kuldabuxur, né, ef ég hefði fundið þær, held ég að ég hefði keypt þær. Ég meina – átti ég að gera þeim það til geðs að borga þeim peninga fyrir 0% þjónustu?

Ég var í Ameríkunni núna í byrjun nóvember. Sem er sosum ekki í frásögur færandi, nema að ég kíkti í svona kannski eina eða tvær búðir (eða svo, hmmmm ;) – og ég fékk menningarsjokk! Jákvætt menningarsjokk! :)

Við konurnar könnumst flest allar við það að það leiðinlegasta sem maður getur verslað sér er gallabuxur. En við látum okkur hafa það, því að þó að það sé leiðinlegt að versla þær þá notum við þær í botn og þær eru náttúrulega bara æðislegar – sérstaklega ef maður dettur niður á gott par sem fer manni vel. Svo ég ákvað, þar sem þarna í Ameríkunni var þessi fína gallabuxnabúð með góð verð, að nú skyldi ég versla mér gallabuxur.

Með hjartslætti og kvíða fór ég inn. Ég horfði ráðvillt á hillur eftir hillur eftir hillur af gallabuxum og taldi í mig kjark. Kemur þá að mér ungur maður, voða sætur og hress, og býður fram aðstoð sína. Ég greip hann náttúrulega fastataki. Hann spurði mig eftir hverju ég væri að leita, mælti með sniðum, litum, sagði mér að ég þyrfti að passa að þó ég væri með sama sniðið þá gæti nú þurft mismunandi stærð eftir því hvaða litur væri á gallabuxunum því efnið væri aðeins öðruvísi og ég veit ekki hvað og hvað. Svo valdi hann nokkrar buxur fyrir mig að prófa, fór með mig inn í mátunarklefa og beið á meðan ég mátaði. Lét mig koma fram, skoðaði mig í bak og fyrir og sagði mér hvað gekk, hvenær ég þyrfti aðra stærð, (hann m.a.s. sagði nokkrum sinnum að ég þyrfti minna númer – og hvaða kona elskar ekki að heyra það!). Hann fór og náði í aðrar stærðir þegar þurfti og bara hreinlega snérist í kringum mig eins og skopparakringla. Þetta var hann Pablo og ég er ástfangin af honum. Ekki eins og manninum mínum (enda hefði Pablo líka meiri áhuga á manninum mínum en mér ;)  en OMG, ég væri til í að klóna litla útgáfu af honum og geta haft hann með mér í vasanum alltaf þegar ég fer að versla gallabuxur. Honum tókst að gera gallabuxnamátun og -kaup ánægjuleg og það er afrek út af fyrir sig!

Þessi verslun er í Ameríku (Levi’s í Wrentham Outlet fyrir utan Boston ;) og ég hef þegar lofað sjálfri mér því að þangað fer ég aftur. Ég keypti mér þrennar buxur – sem ég elska – og mun ábyggilega kaupa mér aðrar þrennar þegar ég fer næst. Ég segi öllum heiminum frá þessu … ég er eitt stykki himinlifandi og brjálæðislega ánægður viðskiptavinur!

Allt of oft þegar maður kemur inn í verslun hérna á blessuðum klakanum, þá fær maður á tilfinninguna að maður sé að trufla starfsfólkið. Bölvað vesen er þetta á manni að vera eitthvað að þvælast þarna inn og skoða og kannski barasta kaupa eitthvað. Þetta er náttúrulega ekki algilt, ég hef alveg fengið svaka góða þjónustu í íslenskum verslunum, en þetta er því miður algengara en hitt. Hvernig í ósköpunum getum við kvartað yfir því að fólk versli ekki hjá okkur þegar þetta er viðmótið sem fólk fær? Nei takk – hingað og ekki lengra. Taki það til sín það íslenska verslunarstarfsfólk sem á það, rífið ykkur upp á rassgatinu og farið að vinna fyrir laununum ykkar. Já og vitiði, bónusinn er að það verður líka bara miklu skemmtilegra í vinnunni því það verða allir svo glaðir :)

Átt þú sögu af góðri þjónustu einhverstaðar sem þú vilt deila með okkur? Segðu okkur endilega frá! :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsdrifni, samkeppni, sölumennska, þjónusta

  • 1
  • 2
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2022 Thoranna.is · Rainmaker Platform

Privacy Policy