This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for Thoranna

Branding: Verum öðruvísi! Verum hugrökk!

Viltu skjóta samkeppninni ref fyrir rass? Viltu virkilega vera sigurvegarinn á þínum markaði?

Þá verður að hafa það á hreinu af hverju fólk á að kjósa þig fram yfir aðra!

Klassíska svarið þegar spurt er “af hverju ætti ég að kjósa þig fram yfir samkeppnisaðilana þína?” eru svör á borð við:

  • “Við erum betri”
  • “Við bjóðum betri þjónustu”
  • “Við bjóðum betri gæði”
Hvað eiga þessi svör að þýða? Betri samkvæmt hverjum? Hvaða staðla erum við að miða við? Hver vill ekki halda því fram að þeir séu betri, með betri þjónustu og betri gæði? Segir einhver “Ja, við bjóðum bara svona sæmilega þjónustu”.


Auðvitað eigum við að leitast við að gera eins vel við viðskiptavini okkar og við mögulega getum innan þess ramma sem við höfum sett okkur m.a. m.t.t. verðs. Ef við ætlum að vera ódýrust á markaðnum, þá bjóðum við að sjálfsögðu ekki upp á lúxus, en við getum leitast við að bjóða bestu gæðin í okkar verðflokki. Það er hinsvegar grundvallargalli fólginn í því að ætla aðgreina sig frá samkeppninni með því að vera “betri”.


Í fyrsta lagi er enginn algildur staðall um það hvað er gott, betra eða best. Það er allt afstætt og fer bara eftir hverjum og einum hvernig það er metið. Í öðru lagi, þá er yfirleitt hægt að leika svoleiðis hluti eftir. Ef það sem þú ert að gera skiptir máli og er virkilega betra en það sem samkeppnin býður, svo mikið að þeir finna fyrir því, vittu til að þá verða þeir fljótir að stúdera það og gera nákvæmlega það sama. Það gengur kannski ekki alltaf hjá þeim, en þeir munu klárlega reyna og það gæti vel gengið. Þannig að ég er ekki að segja að þú eigir ekki að stefna að því að vera best(ur) í þínum bransa (þú átt klárlega að gera það!) heldur er ég einfaldlega að segja að það er mjög ólíklegt að það sé nóg og þú þarft á meiru að halda.


Af hverju á fólk að kjósa þig fram yfir samkeppnina?


Einfalt:


Af því þú ert öðruvísi!
 


Þú verður að vera vera öðruvísi á einhvern þann hátt sem höfðar til fólks.


Seth Godin skrifaði vel þekkta bók sem heitir “Purple Cow” eða Fjólublá kú. Í henni talar hann um að keyra eftir sveitavegi og sjá fjólubláa kú. Þú tekur pottþétt eftir henni. Og ekki bara það, heldur muntu tala um hana. Þú munt segja öllum frá henni! Þú munt líklegast fara út úr bílnum og taka mynd og sennilega pósta myndinni á Facebook og Instagram (að minnsta kosti þar!). Það er alveg hugsanlegt að þú myndir blogga um það. Hvernig sem allt er, þá er á hreinu að þú tekur eftir henni og þú munt hafa einhverjar skoðanir á henni. Hvaða tilfinningar vekur þessi fjólubláa kú? Fílarðu hana? Finnst þér hún ömurleg? Er hún skrýtin? Fyndin? Hún er öðruvísi, hún er þess virði að tala um og hún er væntanlega eitthvað sem þú fílar eða ekki. Og þú þarft það – þú þarft að finna leið til að vera öðruvísi.


Vertu öðruvísi á einhvern þann hátt sem skiptir máli og vertu hugrakkur / hugrökk! Taktu þetta alla leið – ekki bara setja eitthvað smá skraut á hlutina og segja “úúúúu sjáðu hvað við erum öðruvísi!” Farðu alla leið… ALLA leið! Vertu raunverulega öðruvísi!


Af hverju?


Í fyrsta lagi, þá geturðu átt þetta sem er öðruvísi. Ef þú ert bleika bókhaldsfyrirtækið þá væri ferlega hallærislegt fyrir einhverja aðra að koma inn á markaðinn og gera það sama. Fólk myndi bara segja “oh, þeir eru bara að reyna að vera eins og þetta bleika bókhaldsfyrirtæki sem er nú þegar til”. Það er bara hallærislegt, léleg eftirlíking og hermikráka.


Í öðru lagi þá vekja hlutir sem eru öðruvísi upp tilfinningar. Fólki líkar við það eða ekki – og þeim sem líkar við það eru líklegri til að skipta við þig. Ef þú ert “bara betri” þá getur einhver annar verið “bara betri” á morgun. Hvað er betra getur breyst á augabragði og mismunandi fólk skilgreinir “betri” á mismunandi hátt. Það að reyna að vera “betri” er á margan hátt eins og að reyna að vera ódýrastur. Á morgun getur einhver annar boðið betri díl og þá endar þetta með verðstríði. Spáðu t.d. í flug á milli heimsálfa. Eitt flugfélag fór að bjóða upp á sæti sem lögðust alveg niður – betra, já – en áður en maður vissi af voru öll flugfélögin í sambærilegum verðflokki farin að bjóða þau! Svo voru það í rauninni svefnsæti, einn byrjaði og hinir fylgdu á eftir. Þú endar með endalaust höfrungahlaup! Vertu öðruvísi á einhver hátt sem skiptir máli fyrir fólk og þú eykur líkurnar á því að fólk myndi við þig tryggð.


Það eru nokkur “brönd” sem ég fíla í botn af því að þau eru mjög mjög mikið öðruvísi. Ef þú skoðar Pinterest prófílinn minn á Pinterest.com/thoranna þá finnurðu töflur sem eru helgaðar sumum af þessum bröndum eins og t.d. Virgin, Poo Pourri, Ben & Jerry’s og Eat24. Kíktu á þau til að fá innblástur. Og eins mikið og ég þoli ekki klisjur, þá er ástæða fyrir því að þær eru til, og klassísk dæmi eru klassísk vegna þess að þau sýna hlutina svo vel. Spáðu í Apple. Apple hefur alltaf verið öðruvísi. Spáðu í þegar þeir komu með iMac-inn – hver var að gera gegnsæjar tölvur í sælgætislitum? Enginn! Og ef einhver hefði hermt eftir þeim? Þeir hefðu bara verið nákvæmlega það – eftirhermur. Þetta er dæmi um að vera öðruvísi og gríðarlega hugrakkur!


Þú þarft að vera öðruvísi og þarft að vera hugrökk/hugrakkur, því ef þú ert það ekki, þá mun á endanum einhver annar vera það – ég get lofað þér því! Ekki vera eins og hinir. Hafðu karakter. Burtséð frá öllu öðru, þá er lífið líka bara svo miklu skemmtilegra svoleiðis!



Af hverju ætti ég að skipta við þig? Hvað er öðruvísi við þig?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding, hugrekki

Snertipunktar við brandið

Það að byggja upp brand er kjarni markaðsstarfsins. Það er það sem aðgreinir þig frá hinum, og, ef vel tekst til, laðar fólk að þér. Eins og ég hef rætt í öðrum póstum, þá verður þú að ákveða hvernig brand þú vilt byggja upp, hvernig þú vilt að það sé og vinna markvisst að því að byggja það upp.

Segjum að þú sért alveg með á hreinu hvernig þú vilt að brandið þitt sé. Þú ert með brand kjarnann á hreinu (í hvaða skúffu þú vilt vera ;)   Þú veist hvað þú vilt að komi upp í hugann á fólki og veist hvaða tilfinningar þú vilt vekja. Hvernig tökum við þessar brand tengingar og það sem við viljum vera þekkt fyrir og byggjum þær í hugum og hjörtum fólks?

Það eru tvö lykilatriði í þessu: Annars vegar að nota hvern einasta mögulega (og ómögulega :) snertipunkt við brandið – og við ætlum að ræða það aðeins meira hér. Hinsvegar að endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka meira … og endurtaka aftur …

Finndu snertipunktana við brandið þitt

Það var þetta með þessa snertipunkta. Við þurfum að finna
hvern einasta stað og hvert einasta mögulega atriði þar sem fólk getur komist í snertingu við brandið þitt. Þetta eru snertipunktarnir þínir. Við þurfum svo að greina þessa snertipunkta og finna út hvernig við getum fengið eins mikið út úr þeim og mögulegt er svo þeir nýtist í botn til að stimpla brandið þitt inn hjá fólki.

Það eru nokkrir stórir og augljósir snertipunktar, þessir alveg klassísku. Þetta eru hlutir eins og verslunarrýmið þitt, ef þú ert með slíkt, skrifstofurnar þínar, vefsíðan, markaðsefnið og allt þetta sem þú myndir t.d. fá hönnuð eða grafískan hönnuð til að vinna í fyrir þig. Og þú átt klárlega að vera að nýta þá í botn. En það er sosum eitthvað sem flest fyrirtæki gera. Munurinn liggur (eins og svo oft) í smáatriðunum. Hugsaðu um alla hina snertipunktana sem fólk upplifir. Litlu hlutirnir sem kosta oft ekki mikið en fólki yfirsést líka oft að nýta almennilega. Hvernig geturðu notað þá til að byggja upp brandið? Þetta eru litlu hlutirnir sem geta virkilega glatt viðskiptavininn og fengið þá til að hugsa “Vá! Það er virkilega búið að hugsa fyrir öllu hérna”. Þetta eru líka oft áhugaverðustu hlutirnir að hugsa um, en fela líka í sér áskorun. Hlutir eins og, hvernig talar brandið mitt? Hver er tónninn í texta og tali? Hvernig er svarað í símann? Er það formlegt? Létt og skemmtilegt? Hvernig eru starfstitlarnir hjá ykkur? Er það bara þetta týpíska, “framkvæmdastjóri”, “forstjóri”, “fjármálastjóri” eða eruð þið með “yfir-skógefari” (e. “Chief Shoe Giver”) eins og hjá Toms eða “Voyager” og “Imaginator” (ferðalangur og “ímyndari”) eins og hjá Fafu?

Annar snertipunktur sem virðist augljós er skrifstofan. Ég minntist á hana hér fyrir ofan en oft ef maður er með skrifstofur sem viðskiptavinurinn kemur aldrei inn inn á, þá gleymast þær. En þær hafa samt áhrif á brandið þitt því þær hafa áhrif á starfsfólkið þitt og samstarfsaðila – þetta er umhverfið sem þau vinna í. Þetta er hluti af innri markaðssetningu, að tryggja að starfsfólkið þitt andi að sér brandinu, eða “eat, sleep and breathe it” eins og sagt er. Þannig eru þau betur í stakk búin að byggja það upp með þér gagnvart heiminum þarna fyrir utan. Gættu þess að þó að viðskiptavinurinn komi kannski aldrei inn á skrifstofurnar hjá þér þá sé starfsfólkið þitt stöðugt að upplifa brandið svo þau geti hjálpað viðskiptavinum þínum að upplifa það.

Hvernig er símsvarakveðja þín? Ég heyrði af einni sem hringir viljandi í WOW Air eftir lokunartíma bara af því henni finnst símsvarakveðjan þeirra svo skemmtileg! Það er magnað og kostar þá ekkert meira heldur en að vera með einhverja standard og hundleiðinlega símsvarakveðju. Þetta er hinsvegar eitthvað sem fólk talar um, byggir upp brand persónuleikann þeirra og er þess vegna mun áhrifaríkara.

Hugsaðu um litlu hlutina eins og reikningana, kvittanirnar og tölvupóstsundirskriftina. Hvernig geturðu notað þessa litlu hluti til að byggja upp brandið þitt?

Farðu í gegnum hvern einasta litla snertipunkt við brandið þitt og spáðu í hvernig þú getur notað þá í botn.

Ertu að nota alla snertipunktana við brandið þitt til hins ítrasta?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding, Endurtekning

Brand tengingar

 

Í fyrri pósti hef ég talað um mikilvægi þess að fólk geti sett okkur í kassa, eða skúffu í skjalaskápnum í höfðinu. Fólk þarf á mjög auðveldan hátt, og á engum tíma, að vita hver við erum til að þau taki eftir okkur og við eigum sjéns á plássi í minninu. Það, eitt og sér, er hinsvegar ekki nóg.

Þeir sem hafa lesið bókina mína, Marketing Untangled, þekkja markaðsferlið. Markaðsferlið segir okkur að áður en fólk kaupir af okkur þá þarf það ekki bara að vita af okkur, heldur þurfum við líka að vekja áhuga þeirra, þeim þarf að líka við okkur og þau þurfa að treysta okkur. Til þess að ná því þurfum við líka að byggja upp ýmsar tengingar í kollinum á þeim, bæði huglægar tengingar og tilfinningalegar. Öðruvísi komum við ekki til með að geta byggt sterkari tengingu við fólk og skapað trygga viðskiptavini.

Spáðu bara í hvað margt kemur upp í hugann og hversu miklar tilfinningar vakna þegar við hugsum um sum af þekktustu bröndunum þarna úti. Hér eru tvö vel þekkt dæmi, og nokkrir af þeim hlutum sem líklegt er að komi upp í hugann þegar við hugsum til þeirra:

Disney er hluti af okkur öllum. Það er einfaldlega ekki hægt að komast hjá því að fá ýmislegt upp í kollinn og finna tilfinningarnar innra með okkur þegar við heyrum eða sjáum orðið “Disney”. Og hvort sem við elskum eða hötum Lady Gaga, þá er aldrei hægt að saka hana um að vera óáhugaverða og engin hætta á að það komi ekkert upp í hugann – kjötkjóllinn er t.d. mynd sem erfitt er að má úr huganum!

Það eru svona tengingar sem gera brönd áhugaverð, geta fengið fólk til að líka við þau og treysta þeim nægilega mikið til að vilja kaupa af þeim. (Auðvitað aldrei alla – en þá sem eru í markhópnum). Brand tengingar geta komið úr ýmsum áttum og þegar við förum í gegnum branding vinnuna okkar þá eru til hinar ýmsu æfingar til að hjálpa þér að átta þig á þeim brand tengingum sem þú gætir verið að byggja upp fyrir þitt brand. Hverjar sem þær eru, þá verðurðu að vera meðvituð/-aður um þær og tryggja að þær brand tengingar sem skapast hjá fólki séu þær sem þú vilt að séu til staðar og munu leiða til viðskipta.

Brand tengingar geta komið úr ýmsum áttum. T.d. geta þær komið frá vörunni sjálfri eða þjónustunni: Er varan einföld eða fáguð? Ódýr og hressileg? Lúxus? Er brandið tengt ákveðnum stað? Er það t.d. sérstaklega franskt, amerískt, íslenskt eða frá ákveðnum bæ eða landsvæði? Myndrænir hlutir mynda sterkar brand tengingar. Spáðu t.d. í öllum myndunum sem koma upp í hugan þegar þú hugsar um brönd eins og Disney, Apple eða Coca-Cola. Brönd geta haft ýmis tákn. Ekki bara lógó, heldur líka tákn á borð við fólk (Steve Jobs, Richard Branson), hluti eins og kók flöskuna eða Mikka mús eyru, eða jafnvel byggingar eins og Trump Tower. Brönd geta tengst ákveðnum árstímum og tilefnum. Er þetta fyrir sumarið eða veturinn? Ákveðna hátíðisdaga? Hverskonar fólk tengjum við við brandið sem notendur? Hverjir við teljum að noti það sem frá brandinu kemur getur haft mikil áhrif. Viljum við vera hluti af þeim hópi? Brandið hefur ákveðinn persónuleika. Ef brandið væri persóna, hverskonar manneskja væri það? Hvernig er sambandi fólks við brandið? Er brandið meira svona virðulegur ráðgjafi, eða hress félagi?

Við gætum haldið endalaust áfram. Það er svo margt sem hægt er að skoða og kanna til að finna út hvernig þú vilt byggja brandið þitt upp og það er margt af því mjög skemmtilegt :)  Vinsæl æfing er að fara í “ef brandið mitt væri … ” og finna hvað lýsir því best hvernig þú vilt að brandið sé. Það getur verið eins og eitthvað dýr, bílategund, drykkur, bíómynd og hitt og þetta. Allir þessi hlutir hjálpa þeim sem koma að uppbyggingu brandsins að fá sem besta mynd af því hvernig við viljum að aðrir upplifi okkur og tryggir þannig að allir séu á sömu blaðsíðu. Þessar æfingar geta líka hjálpað þér að finna hluti sem eiga við brandið þitt sem þú hefðir kannski annars ekki áttað þig á.

Við þurfum að vera meðvituð um hvaða brand tengingar við byggjum, því þær hafa mjög mikil áhrif á hvort fólk tekur eftir brandinu okkar, hvort því líkar við það, treystir því og á endanum, hvort það kaupir af okkur.

Hvað viltu að fólk hugsi og hvaða tilfinningar viltu að vakni hjá fólki þegar það sér fyrirtækið þitt, vöru eða þjónustu?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding

Markaðssetning er branding

Ein af ástæðunum fyrir því að ég varð ástfangin af markaðsfræðunum er að þegar ég var í MBA náminu þá áttaði ég mig á því að markaðsstarfið er hjartað í öllum fyrirtækjum. (Mundu að markaðsstarfið er ekki bara auglýsingar ;) Án markaðsstarfsins þá eru engin fyrirtæki. Þeir sem eru ekki inni á markaðslínunni þola oft ekki þegar við markaðsnördarnir tölum um að “bissness = marketing”. En veistu, það er bara þannig :)

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta, svo ég ákvað að fá til liðs við mig tvo af uppáhalds gúrúunum mínum úr stjórnunar- og markaðsfræðunum til að koma til skila hversu mikilvæg markaðsmálin eru: Peter Drucker og Al Ries. Þannig að “don’t just take my word for it” – þeir geta sko heldur betur sagt þér hvernig þetta er! :)

Peter Drucker segir: “Meginhlutverk fyrirtækisins er að þjóna viðskiptavinunum með því að veita þær vörur og þjónustur sem það var sett á fót til að veita. Hagnaður er ekki aðalmarkmiðið, heldur nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fyrirtækið geti haldið áfram að vera til. Aðrar skyldur, svo sem við starfsmenn og samfélagið eru til staðar til að styðja áframhaldandi getu fyrirtækisins til að sinna meginhlutverki sínu.”

Þetta er alltaf kjarni markaðsstarfsins. Það þjóna viðskiptavininum. Því þetta þarf alltaf allt að snúast um viðskiptavininn. Þú verður að sjá hlutina með þeirra augum. Þú verður að gera þér grein fyrir því á hverju þeir þurfa að halda og hvað þeir vilja, og það er það sem þú þarft að veita þeim. Það er meginhlutverkið þitt. Ef þú reynir að troða upp á fólk hlutum sem það vill ekki og þarf ekki á að halda, þá ganga hlutirnir aldrei upp.

Peter Drucker sagði líka: “Þar sem að tilgangur fyrirtækisins er að búa til viðskiptavini, þá hefur fyrirtækið tvö, og einungis tvö, grundvallarhlutverk: markaðssetningu og nýsköpun. Markaðssetning og nýsköpun skapa árangur; allt hitt er kostnaður. Markaðsmálin er hið einstaka og aðgreinandi hlutverk fyrirtækisins.”

Spáðu aðeins í þetta. Hefur hann rangt fyrir sér? Hvað annað gefur árangur? Þetta er nokkuð skondið, því það er mjög algengt að litið sé á markaðsstarfið sem kostnað í fyrirtækjum, í stað þess að
vera eitthvað sem gefur af sér, og það er klárlega sjaldnast litið á það sem fjárfestingu. En það gæti ekki verið meira rangt að líta þannig á málin. Býr fjármálastjórnun til tekjur í sjálfu sér? Nei – það er hægt að stýra fjármálunum en peningarnir þurfa að koma einhversstaðar frá. Býr framleiðslan til tekjur? Nei, í raun ekki. Það kostar að framleiða og án markaðsstarfsins þá væri enginn til að kaupa vöruna og þar með myndi hún aldrei skapa tekjur. Býr starfsmannadeildin til tekjur? Nei, ekki í sjálfu sér. Upplýsingatæknideildin? Nei. Og það má auðveldlega taka þetta lengra. Nýsköpun fellur í raun undir markaðsmál. Manstu þetta með að það að þjónusta viðskiptavininn væri meginhlutverk fyrirtækisins? Jú, almennileg nýsköpun sprettur af því að finna betri leiðir til að þjónusta viðskiptavininn – og hvað er það annað en markaðsmál?

Al Ries segir: “Markaðssetning er það sem fyrirtæki eru í rekstri til að gera. Markaðssetning er aðalmarkmið fyrirtækisins.”

Og hann heldur áfram með aðra sterka yfirlýsingu: “Ef allt fyrirtækið er markaðsdeildin [og það er það], þá er allt fyrirtækið branding deildin.”

Nú er þetta að verða djúsí! Skilurðu núna af hverju ég er alltaf að hamra á þessu branding dæmi?

Þannig að af þessu öllu ætti þetta að vera nokkuð ljóst:

Viðskipti og rekstur = Markaðsmál = Branding :)

Sammála eða ósammála?

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Drucker, markaðsmál, mikilvægt, Ries, þjónusta

Branding II: Í hvaða skúffu viltu vera?

Brandið þitt er öflugasta tólið í markaðssetningunni þinni. Ég hef fjallað um í það í fyrri póstum og þá staðreynd að við erum alltaf með brand, hvort sem við ætlum okkur það eða ekki. Ég hef líka talað um að þú þurfir að finna út hvert brandið þitt er, áður en þú getur farið að móta það í það sem þú vilt að það sé. Spurningin er þá, hvernig viltu að brandið þitt sé?

Í dag eru allir að tala um að hugsa út fyrir kassann og vá hvað ég gæti ekki verið meira sammála um nauðsyn þess! Hinsvegar, þegar kemur að branding, þá þarftu að hugsa um að vera í kassa. Einskonar brand kassa. Fyrsta skrefið í að byggja upp brand er nefnilega að finna kjarnann í því, það sem það snýst allt um – þú gætir kallað það hjartað í brandinu. Það má segja að við þurfum að ákveða í hvaða kassa í huga fólks við viljum að brandið okkar fari.

Við vitum að heimurinn sem við búum í er gríðarlega flókinn. Á hverjum degi dynja á okkur hundruð ef ekki þúsundir skilaboða; auglýsingar, hinar ýmsu vörur og þjónustur, fyrirtæki o.s.frv. Það eru allir að reyna að ná athygli okkar. Til að verða ekki algjörlega ringluð og til að reyna að koma einhverju skikki á þetta, þá reynum við að skipuleggja þetta í huganum með einhverjum hætt. Það mætti segja að við göngum um með skjalaskáp í hausnum, og í hvert skipti sem við tökum eftir einhverju sem okkur finnst þess virði að geyma, þá setjum við það í viðeigandi skúffu í skjalaskápnum.

Sem markaðsfólk þurfum við að ná í gegnum allan þennan hávaða á markaðnum til að
ná athygli fólks, vekja áhuga þeirra og fá þau til að muna eftir okkur. Við viljum að þau setji okkur í skúffu í skjalaskápnum í hausnum og við viljum vera efst í þeirri skúffu, svo við séum það fyrsta sem þau sjá þegar þau kíkja aftur í hana til að ná í það sem þau þurfa á að halda.

En vegna þess að það eru svo margir hlutir sem eru að reyna að komast í skúffurnar í þessum skjalaskáp, þá verður fólk mjög vandfýsið. Við geymum bara hluti í skúffunum sem við vitum algjörlega hvað eru. Hluti sem við vitum alveg hvar við eigum að geyma. Ef það er eitthvað óljóst í hvaða skúffu hlutirnir eiga að fara, þá hendum við þeim bara. Þeir fara ekki í neina skúffu. Það er bara of mikið vesen og við viljum ekki þurfa að hafa fyrir því að átta okkur á því hvað þetta er og í hvaða skúffu það á heima.

Um leið og fólk sér brandið þitt, hvort sem það er fyrir fyrirtækið, vöru, þjónustu eða þig sjálfa(n), þá þarf það að skilja alveg um leið hvað það er. Fólk verður að geta ákveðið á sekúndubroti í hvaða skúffu í skjalaskápnum það á að setja þig.

Segjum sem svo að ég sjái auglýsingu frá gluggaþvottafyrirtæki. Það er algjörlega á hreinu hvað þetta fyrirtæki gerir og ég set það í skúffuna merkta “gluggaþvottur”. Ég sé annað fyrirtæki sem býr til kaffi og ég set það í skúffuna merkta “kaffi”. Svo þegar ég þarf að láta þrífa glugga, þá fer ég aftur í gluggaþvottaskúffuna og halló – þarna er það! Ég þarf kaffi, og ég veit nákvæmlega í hvaða skúffu ég á að fara eftir því og þar er kaffifyrirtækið.

Hvað ef ég sé fyrirtæki sem býður upp á kaffi, te, kex og sultu? Gengur það upp? Já, því að það er allt eitthvað sem hentar fyrir kaffitímann. Þá er skúffan bara “kaffitími” frekar en bara “kaffi” eða bara “te” bara “kex” eða bara “sulta”. En fyrirtæki sem býður upp á gluggaþvott og bólstrun? Ha? Fyrirgefðu? Hvað? Það “meikar ekki sense”. Það er ekki nein lógísk sameiginleg skúffa fyrir þessa hluti, þannig að við vitum ekki hvar við eigum að setja þetta og þá fer þetta barasta ekkert í skjalaskápinn. Við megum ekki láta fólk þurfa að hafa neitt fyrir hlutunum. Ef við þurfum að hugsa of mikið, þá bara sleppum við því. Það er bara allt of mikið annað í gangi til að standa í svoleiðis löguðu!

Það er mjög mikilvægt að vera algjörlega með það á hreinu hver við erum og að geta gert fólki það algjörlega ljóst. Það sem það gerir líka fyrir okkur er að gefa fyrirtækinu okkar fókus og leiðbeina okkur varðandi hvað gengur og hvað gengur ekki þegar kemur að brandinu okkar. Þegar við erum að íhuga að bæta við vöru- eða þjónustuúrvalið, þá getum við hugsað til skúffunnar okkar og ef það sem við erum að spá í passar ekki í hana, þá vitum við að það er ekki málið. Ja, við erum a.m.k. meðvituð um að við erum að taka sjéns og getum þá sett niður plan um hvernig við ætlum að aðlaga hlutina. En það er efni í annan bloggpóst :)

Í hvaða skúffu viltu að brandið þitt sé og ertu að koma því kýrskýrt til skila? ;)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding

  • « Previous Page
  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • …
  • 26
  • Next Page »
  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2022 Thoranna.is · Rainmaker Platform

Privacy Policy