Brandið þitt er öflugasta tólið í markaðssetningunni þinni. Ég hef fjallað um í það í fyrri póstum og þá staðreynd að við erum alltaf með brand, hvort sem við ætlum okkur það eða ekki. Ég hef líka talað um að þú þurfir að finna út hvert brandið þitt er, áður en þú getur farið að móta það í það sem þú vilt að það sé. Spurningin er þá, hvernig viltu að brandið þitt sé?
Í dag eru allir að tala um að hugsa út fyrir kassann og vá hvað ég gæti ekki verið meira sammála um nauðsyn þess! Hinsvegar, þegar kemur að branding, þá þarftu að hugsa um að vera í kassa. Einskonar brand kassa. Fyrsta skrefið í að byggja upp brand er nefnilega að finna kjarnann í því, það sem það snýst allt um – þú gætir kallað það hjartað í brandinu. Það má segja að við þurfum að ákveða í hvaða kassa í huga fólks við viljum að brandið okkar fari.
Við vitum að heimurinn sem við búum í er gríðarlega flókinn. Á hverjum degi dynja á okkur hundruð ef ekki þúsundir skilaboða; auglýsingar, hinar ýmsu vörur og þjónustur, fyrirtæki o.s.frv. Það eru allir að reyna að ná athygli okkar. Til að verða ekki algjörlega ringluð og til að reyna að koma einhverju skikki á þetta, þá reynum við að skipuleggja þetta í huganum með einhverjum hætt. Það mætti segja að við göngum um með skjalaskáp í hausnum, og í hvert skipti sem við tökum eftir einhverju sem okkur finnst þess virði að geyma, þá setjum við það í viðeigandi skúffu í skjalaskápnum.
Sem markaðsfólk þurfum við að ná í gegnum allan þennan hávaða á markaðnum til að
ná athygli fólks, vekja áhuga þeirra og fá þau til að muna eftir okkur. Við viljum að þau setji okkur í skúffu í skjalaskápnum í hausnum og við viljum vera efst í þeirri skúffu, svo við séum það fyrsta sem þau sjá þegar þau kíkja aftur í hana til að ná í það sem þau þurfa á að halda.
En vegna þess að það eru svo margir hlutir sem eru að reyna að komast í skúffurnar í þessum skjalaskáp, þá verður fólk mjög vandfýsið. Við geymum bara hluti í skúffunum sem við vitum algjörlega hvað eru. Hluti sem við vitum alveg hvar við eigum að geyma. Ef það er eitthvað óljóst í hvaða skúffu hlutirnir eiga að fara, þá hendum við þeim bara. Þeir fara ekki í neina skúffu. Það er bara of mikið vesen og við viljum ekki þurfa að hafa fyrir því að átta okkur á því hvað þetta er og í hvaða skúffu það á heima.
Um leið og fólk sér brandið þitt, hvort sem það er fyrir fyrirtækið, vöru, þjónustu eða þig sjálfa(n), þá þarf það að skilja alveg um leið hvað það er. Fólk verður að geta ákveðið á sekúndubroti í hvaða skúffu í skjalaskápnum það á að setja þig.
Segjum sem svo að ég sjái auglýsingu frá gluggaþvottafyrirtæki. Það er algjörlega á hreinu hvað þetta fyrirtæki gerir og ég set það í skúffuna merkta “gluggaþvottur”. Ég sé annað fyrirtæki sem býr til kaffi og ég set það í skúffuna merkta “kaffi”. Svo þegar ég þarf að láta þrífa glugga, þá fer ég aftur í gluggaþvottaskúffuna og halló – þarna er það! Ég þarf kaffi, og ég veit nákvæmlega í hvaða skúffu ég á að fara eftir því og þar er kaffifyrirtækið.
Hvað ef ég sé fyrirtæki sem býður upp á kaffi, te, kex og sultu? Gengur það upp? Já, því að það er allt eitthvað sem hentar fyrir kaffitímann. Þá er skúffan bara “kaffitími” frekar en bara “kaffi” eða bara “te” bara “kex” eða bara “sulta”. En fyrirtæki sem býður upp á gluggaþvott og bólstrun? Ha? Fyrirgefðu? Hvað? Það “meikar ekki sense”. Það er ekki nein lógísk sameiginleg skúffa fyrir þessa hluti, þannig að við vitum ekki hvar við eigum að setja þetta og þá fer þetta barasta ekkert í skjalaskápinn. Við megum ekki láta fólk þurfa að hafa neitt fyrir hlutunum. Ef við þurfum að hugsa of mikið, þá bara sleppum við því. Það er bara allt of mikið annað í gangi til að standa í svoleiðis löguðu!
Það er mjög mikilvægt að vera algjörlega með það á hreinu hver við erum og að geta gert fólki það algjörlega ljóst. Það sem það gerir líka fyrir okkur er að gefa fyrirtækinu okkar fókus og leiðbeina okkur varðandi hvað gengur og hvað gengur ekki þegar kemur að brandinu okkar. Þegar við erum að íhuga að bæta við vöru- eða þjónustuúrvalið, þá getum við hugsað til skúffunnar okkar og ef það sem við erum að spá í passar ekki í hana, þá vitum við að það er ekki málið. Ja, við erum a.m.k. meðvituð um að við erum að taka sjéns og getum þá sett niður plan um hvernig við ætlum að aðlaga hlutina. En það er efni í annan bloggpóst :)
Í hvaða skúffu viltu að brandið þitt sé og ertu að koma því kýrskýrt til skila? ;)