Þetta er klassískt í markaðsfræðunum og ég hef talað um þetta margoft áður. Finndu markhópinn þinn, þann sem er vænlegastur fyrir þig, og markaðssettu á hann. Ekki reyna að vera allt fyrir alla. Finndu drauma viðskiptavininn og finndu svo fleiri svoleiðis.
En það er ekkert auðvelt. Og það hræðir mann líka. Maður er alltaf meðvitaður um að maður gæti verið að missa af einhverjum sem gæti mögulega, kannski, fræðilega séð, keypt. Við gerum þetta öll. Ég geri þetta sjálf. Ég þarf alltaf að vera að minna mig á að velja og þrengja – reyna ekki að vera allt fyrir alla.
Hingað til hef ég skilgreint markhópinn minn sem lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru ekki sérfræðingar í markaðsmálum en þurfa að, og vilja, bæta þau. Flott mál. En vá hvað þetta er ennþá vítt! Svo ég er alltaf að skoða málin, spá og spekúlera, ræða við fólk og stilla til.
Ég hef íhugað að þrengja þetta þannig að þetta séu ofangreindir aðilar en í ákveðnum greinum. Það myndi líta einhvern veginn svona út – t.d. hótelmarkaðssetning frá A til Z, eða markaðssetja endurskoðendur frá A til Z eða markaðssetja fatahönnuði frá A til Z – ég væri í öllum bleiku hringjunum:
Maður gæti alveg orðið ansi góður í þeim markaðsaðgerðum sem ættu við þennan tiltekna bransa sem maður veldi. Þetta gæti alveg virkað. Eeeeeeen nei, það einhvern veginn virkar ekki fyrir mig. Ég er ekki sérfræðingur í ákveðnum greinum, per se, og ég vil ekki vera það.
Ég veit hinsvegar að ég er sterkust og ánægðust þegar ég er að vinna í markaðsstefnunni, brandinu og að velja þær markaðsaðgerðir sem henta. Þegar kemur að þessum markaðsaðgerðum – því að setja upp póstlistann, nota Facebook o.s.frv. þá missi ég svolítið áhugann. Ég kann ýmislegt í því, ég gæti það alveg, en maður getur ekki verið allt fyrir alla og það eru mjög færir aðilar til sem eru sérfræðingar í því, en ekki svo góðir í því sem ég er góð í. Þannig að ég er komin á það að þetta er hinn valmöguleikinn:
Þetta er það sem ég vel. Að vinna í kjarna stefnunni, brandinu og velja þær markaðsaðgerðir sem best koma því til skila til markaðarins.
En hvað þýðir það þegar kemur að því að skilgreina markhópinn minn? Hmmm… draumaviðskiptavinurinn…
- hún/hann þarf að hafa metnað til að vilja geta betur, betur og enn betur
- hann/hún þarf að vilja byggja upp framúrskarandi fyrirtæki – ekki bara eitthvað sem gengur
- hún/hann þarf að vilja breyta heiminum með fyrirtækinu sínu – ekki endilega öllum, en a.m.k. sínu litla horni af honum
- hann/hún þarf að vilja byggja upp fyrirtæki sem er einstakt, öðruvísi og áhugavert
- hún/hann þarf að vera tílbúin(n) að leggja á sig þá vinnu sem til þarf
- hann/hún þarf að vera óhrædd(ur) – ja, tilbúinn að taka á hræðslunni
Því að maður verður alveg hræddur þegar maður er að reyna að breyta þó ekki sé nema litlu horni af heiminum. Maður verður hræddur þegar maður stefnir hærra og lengra en hinir. En það eru þeir sem takast á við þessa hræðslu sem fá að njóta þess að gera eitthvað sem skiptir máli.