This website or its third-party tools use cookies which are necessary to its functioning and required to improve your experience. By clicking the consent button, you agree to allow the site to use, collect and/or store cookies.
Please click the consent button to view this website.
I accept
Deny cookies Go Back

Thoranna.is

Marketing Consultation and Planning on the Digital Spectrum

  • Heim
  • Blogg
  • Ráðgjöf
  • Samstarf
  • Fyrirlestrar & fræðsla
  • Um
  • Samband
  • EN
You are here: Home / Archives for markaðsrannsóknir

Branding I: Hvað er brandið þitt?

Alveg sama hvað þú gerir eða gerir ekki í markaðsmálunum, hvort sem þér líkar það betur eða verr, hvort sem þú áttar þig á því eða ekki, og hvort sem þú tekur meðvitaðar ákvarðanir um að skapa það og stýra því eða ekki – þú ert alltaf með brand.

Ef þú ert ekki með á hreinu hvað brand er, þá er gott að smella hér og tjékka á því, en í grundvallaratriðum er brand það sem kemur upp í huga fólks og þær tilfinningar sem vakna þegar það sér eða heyrir af einhverju, hvort sem það er fyrirtæki, vara, þjónusta eða persóna. Brand er alltaf til staðar, vegna þess að bara að nefna eitthvað einu orði mun alltaf kveikja einhverjar hugsanir og tilfinniningar, alveg sama hversu lítið eða mikið fólk veit um það.

Spáðu í það. M.a.s. bara að heyra eitthvað nafn kveikir strax eitthvað. Nafn sem jafnvel er bara þrír stafir. Hver hefur ekki einhvern tímann sagt, eða heyrt einhvern segja, “Hann bara lítur ekki út eins og Jói” eða, “Jófríður – það hljómar eins og gömul kona!”. Jafnvel abstrakt orð kveikja hugsanir og tilfinningar. Þó það séu bara hljóð sem hafa enga vitræna þýðingu eins og hljóðlíkingarorð. Þau vekja samt hugsanir og tilfinningar. Þess vegna er alveg sama hversu mikið eða lítið fólk veit, sér eða heyrir af fyrirtækinu þínu, vöru, þjónustu eða bara þér sjálfri/sjálfum, það kvikna alltaf einhverjar hugsanir og tilfinningar.

Ætlarðu að treysta bara á guð og lukkuna?

Spurningin er þá: Ætlar þú bara að krossleggja fingurnar og vona að brandið sem vaknar hjá fólki sé brand sem að hjálpi þér og verði til þess að þau kaupi af þér? Eða viltu taka stjórnina og gera allt sem í þínu valdi stendur til að tryggja að brandið fái þau til að vilja kaupa af þér – og bara þér – og byggi þannig upp viðskiptatryggð sem verður til þess að viðskiptavinirnir fari ekki annað?

Hvað er brandið ÞITT?

Veistu hvert brandið þitt er?
Brand manns er nefnilega það sem aðrir segja að það sé – ekki það sem maður sjálfur segir. Áður en við getum farið að hafa áhrif á það hvað fólk hugsar og tilfinningar þeirra til okkar, þá verðum við að vita hvernig staðan er í dag. Ef við vitum ekki hvar við stöndum núna, hvernig getum við þá áttað okkur á hvernig við eigum að komast þangað sem við viljum fara? Og hvernig kemstu að því hvað brandið þitt er?

Markaðsrannsóknir. Farðu út og talaðu við fólk. Spurðu fólk hvað kemur upp í hugann og hvaða tilfinningar vakna þegar þú ert nefnd(ur), fyrirtækið þitt, varan þín eða þjónusta. Ég mæli reyndar með því að fá einhvern annan en akkúrat þig til að gera það, því að ef þú ert manneskjan á bak við brandið, þá er fólk ekki líklegt til að vera alveg hreinskilið við þig. Fólk vill jú ekki særa neinn og væri líklegt til að halda aftur af sér ef það hefur eitthvað neikvætt að segja. Og trúðu mér, þú vilt heyra þetta neikvæða. Ef þú veist ekki hvað þarf að laga, hvernig ætlarðu að laga það? Fáðu þess vegna hjálp frá öðrum. Það er allt í lagi þó þú hafir ekki efni á því að ráða fagfólk í verkið. Ég er viss um að þú getur fundið einhvern sem þú treystir til að hjálpa þér með því að fara þarna út og ræða við fólk um brandið þitt.

Hvernig viltu hafa brandið þitt?

Næst þarftu að ákveða hvert þú vilt fara þaðan. Hvað viltu að brandið þitt sé? Hvað viltu að fólk hugsi og hvernig viltu að því líði? Hver er munurinn á brandinu þínu í dag og því sem þú vilt að brandið þitt sé? Hvar skilur á milli? Hverju viltu breyta? Hvað er gott og þú vilt halda í og byggja frekar á?

Það er ekki fyrr en við vitum hvar við erum og hvert við viljum fara sem við getum farið að hugsa um hver besta leiðin til að komast þangað er. Og það er efni í heilan bloggpóst út af fyrir sig og meira til! Til að byrja með, finndu út hvert brandið þitt er og hugsaðu um hvernig þú vilt að það sé.

Endilega segðu mér hvernig þú vilt að brandið þitt sé í ummælunum hér fyrir neðan! 

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: Brand, Branding, markaðsrannsóknir

Hverjir eru þetta? Skilgreindu markhópana með meira en bara tölum og hörðum skilgreiningum!

Í fyrri póstum höfum við skoðað af hverju þú getur ekki selt öllum og hvernig þú getur fundið drauma viðskiptavininn þinn, og þar með besta markhópinn eða bestu markhópana fyrir þig að einbeita þér að. En hvernig skilgreinum við svo þessa markhópa?

Klassíska leiðin er að skilgreina þá lýðfræðilega og landfræðilega, eftir hlutum eins og aldri, kyni, tekjum, menntunarstigi o.s.frv. Í sumum tilfellum á þetta algjörlega við, en í öðrum skiptir þetta bara alls engu máli! Hvort sem lýðfræði eða landafræði á við hjá þér eða ekki, þá muntu alltaf þurfa að fara dýpra og læra meira um þá sem þú ert að markaðssetja til.

Þú verður að þekkja þetta fólk eins og bestu vini þina. Skilja þau, vita hvað skiptir þau máli, fyrir hvað þau lifa, hverja þarfir þeirra eru, hvaða vandamál þau glíma við. Með því að þekkja þau og skilja eins vel og þú mögulega getur ertu betur í stakk búinn að átta þig á því á hverju þau hafa áhuga, hvernig þú getur skipt þau máli og hvernig þú getur byggt upp samband við þau.

Markaðsmál snúast öll um að byggja upp samband, að mörgu leyti á sama hátt og þú byggir upp persónuleg sambönd. Ef þú ætlar að mynda samband við einhvern, þá er alltaf betra að vita sem mest um þá og skilja þá sem best, ekki satt? Með því að skilja bakgrunn fólks og gildi þeirra – hvað það er sem skiptir þau máli – þá geturðu átt áhrifaríkari samskipti við þau. Spáðu í hvernig þetta virkar í persónlega lífinu – markaðssetning er í rauninni eins, bara á stærri skala.

Þú þarft að tala til markhópsins þíns á einhvern þann hátt sem hefur þýðingu fyrir hann. Þetta er enn mikilvægara í dag með samfélagsmiðla, blogg og allar þessar leiðir sem við höfum til að vera í gagnvirku sambandi við fólk og nú þegar fólk ræður meira hvort það hlustar á mann. Dagar hefðbundinna auglýsinga eru að líða undir lok. Við getum ekki bara gargað á fólk hvort sem þeim líkar betur eða verr. Áhorfendur eru ekki lengur fangaðir fyrir framan sjónvarpið heima. Fólk getur skipt um stöð, tekið upp og spólað yfir auglýsingarnar og það eru m.a.s. til forrit sem taka auglýsingarnar af þeim vefsíðum sem þú ert að lesa efni á!

Nútímatól eins og samfélagsmiðlar veita okkur frábært tækifæri til að tengjast fólki sterkari böndum en með hefðbundnum auglýsingum. Það þýðir hinsvegar líka að það er pressa á okkur að skilja hvað markhópurinn vill og hvað skiptir þau máli, því að annars koma þau bara til með að “aflæka” Facebook síðuna, hætta að fylgja þér á Twitter og afskrá sig af póstlistanum.

Persónulega er ég hrikalega ánægð með þessa þróun. Því nú eru það ekki bara fyrirtækin með mesta peningana eða ágengasta fólkið sem ná árangri, heldur þau sem virkilega er annt um viðskiptavini sína og leggja sig fram um að byggja upp samband við þá.

Þú getur því væntanlega séð hversu mikilvægt það er að skilja markhópinn sinn og þekkja eins vel og mögulegt er. Leggðu þig fram um það næstu vikuna að spekúlera vel í markhópnum þínum. Hvað veistu um þau? Hvernig geturðu fengið að vita meira um þau? Og hvernig kemur sá skilningur og sú þekking til með að hjálpa þér að tala til þeirra á áhrifaríkari hátt og byggja við þau sterkara samband?

Leyfðu mér að fylgjast með hvernig gengur með því að skilja eftir ummæli hér fyrir neðan eða á Facebook :)

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsrannsóknir, markhópagreining

Ekki vera rass – markaðsrannsóknir eru nauðsynlegar!

Ég vaknaði upp við vondan draum um daginn. Ég var að vinna með stórum hóp af fólki í markhópagreiningu og allt í einu áttaði ég mig á því að þau voru bara að skálda út í bláinn með hvernig markhópurinn þeirra væri, í stað þess að hafa einhverjar raunverulegar upplýsingar. Og það minnti mig á eitthvað sem ég veit alveg en maður á til að gleyma. Það kann ekkert okkar hugsanalestur! (Ef það er rangt, og þú kannt hugsanalestur, vertu þá endilega í bandi því mig langar miiiiiiiiiiiikið að tala við þig! :)

Ekki bara gerði ég ráð fyrir að þau vissu að þau yrðu að gera markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópinn – og gerði þar með ráð fyrir að þau læsu mínar hugsanir – heldur gerðu þau ráð fyrir að þau vissu allt um markhópinn – og gerðu þar með ráð fyrir að þau læsu hugsanir og vissu allt mögulegt um fólk sem þau höfðu jafnvel aldrei hitt!

Og hverju skiptir þetta? Jú, þetta skiptir nefnilega öllu máli. Markaðsstarfið snýst allt um að ná til fólks og mynda við það samband. Ef að þú heldur eitthvað um fólk sem ekki er rétt og talar við það byggt á því, þá er blaðrið í þér tilgangslaust – ekki satt?

Þetta er svona eins og að vera strákur og labba upp að stelpunni á barnum og byrja að reyna við hana á fullu – sem þú hefðir getað sparað þér með smá könnun sem leitt hefði í ljós að hún væri barasta ekkert fyrir stráka heldur kysi heldur fegurra kynið ;)

Það er alltaf gott að muna það sem þeir segja á engilsaxneskunni:

En þá heyrist gjarnan: “En ég er bara með lítið fyrirtæki og ég hef ekkert efni á að kaupa markaðsrannsóknir”. Veistu, það er heldur enginn að tala um að gera það. Nú verður kannski einhver fræðimaðurinn alveg tjúll, en það er betra að gera tiltölulega einfalda könnun upp á eigin spýtur sem getur gefið manni einhverjar vísbendingar, heldur en að gera ekki neitt.

Hér eru nokkrir einfaldir hlutir sem þú getur gert til að læra meira um markhópinn þinn, án þess að þurfa að veðsetja fyrirtækið!:

  • Skoðaðu gögn sem þegar eru til. Það er ógrynni af gögnum á netinu og hér hef ég tekið saman ýmsa gagnlega hlekki sem þú getur mögulega nýtt þér.
  • Skoðaðu gögn hjá þér: Sölutölur, viðskiptavinaskrár, dagbækur, gestabækur, bókanir og aðrar upplýsingar sem þú kannt að luma á.
  • Ræddu við framlínufólkið þitt (ef það er ekki þú), þá sem afgreiða viðskiptavininn og þjónusta hann alla daga. Hverjir eru viðskiptavinirnir þínir? Hverjir þeirra eru bestir? Hvernig eru þeir?
  • Gerðu könnun á netinu með tólum á borð við Google Forms.

  • Gerðu vettvangsrannsókn, settu saman rýnihóp eða taktu viðtöl við fólk – eða enn betra, fáðu einhvern sem þú þekkir til að aðstoða þig við það ;)

Hvað sem þú gerir, ekki gera rass úr mér eða þér – fáðu að vita hvernig hlutirnir raunverulega eru ;)

Í MáM þjálfuninni er ekki bara farið í rokna góða markhópagreiningu, heldur einnig hvernig þú getur gert markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópana þína og þú getur alltaf spurt spurninga og fengið svör og ráð í lokaða hópnum okkar á Facebook :)  

Written by Thoranna · Categorized: íslenskt · Tagged: markaðsrannsóknir, markhópagreining, upplýsingar

  • Facebook
  • Instagram
  • LinkedIn
  • Twitter

© 2023 Thoranna.is · Rainmaker Platform