Fyrir þá sem hafa fylgt mér í einhvern tíma er markaðsferlið ekkert nýtt. Ef þú ert ný(r), kíktu þá hér snöggvast ;) Og fyrir þá sem lásu póstinn í síðustu viku, þá talaði ég um að eiga markaðsstarfið frekar en að leigja það, með því að nota auglýsingar og ýmislegt fleira til að ná fólki inn í ferli þar sem þú þarft síðan ekki að borga fyrir hvert einasta skipti sem þú vilt að fólk sjái þig eða komist í samband við þig.
Ég ætla að fjalla aðeins meira um það hvernig við getum gert þetta, þ.e. að eiga markaðsstarfið okkar, með því sem á engilsaxneskunni er kallað Lead Management en lead er mögulegur viðskipavinur í markaðsferlinu.
Ok, svona hef ég almennt sett markaðsferlið fram:
Ef við nú setjum það fram línulega (frá vinstri til hægri eins og gengur og gerist ;) þá getum við sett Lead Management ferlið samhliða markaðsferlinu og markaðsaðgerðir sem við getum notað í hverjum hluta:
Förum betur í gegnum þetta:
Lead Generation er einfaldlega að ná til fólks. Láta vita af okkur og vekja áhuga þeirra. Þarna geta auglýsingar virkað ágætlega, en önnur sterk tól eru m.a. leitarvélabestun (SEO) og efnismarkaðssetning, þar sem að gott og áhugavert efni vekur athygli og eykur vitund um þig, fyrirtækið þitt, vörur og þjónustu. Þarna getum við þurft að “leigja”, þ.e. að kaupa auglýsingar til að ná þessari fyrstu snertingu við mögulega viðskiptavini.
Lead Capture er að ná þeim inn í markaðsferlið þitt. Ná þeim inn þannig að þau skrái sig á póstlistann (túrbó markaðstól), fylgi á samfélagsmiðlunum og hvað annað sem þér dettur í hug þannig að þú sért búin að ná þeim á þitt svæði, þar sem þú þarft ekki lengur að leigja frá öðrum til að ná til þeirra. Það má deila um hvort samfélagsmiðlarnir eru slíkt svæði, en það lækkar a.m.k. leiguna verulega ef maður nær fólki inn á samfélagsmiðlana því það er almennt ódýrara að auglýsa á fylgjendur sína en þá sem maður ætlar að ná til nýrra á samfélagsmiðlunum.
Lead Nurturing snýst allt um að rækta og byggja upp sambandið. Notaðu markaðsaðgerðirnar sem þú átt, eins og póstlistann, til að gera þetta og þarna kemur efnismarkaðssetningin sterk inn, bæði til að fá fólk til að líka við þig og til að byggja upp traust. Þetta tekur tíma. Fólk er ekkert tilbúið að kaupa af þér strax.
Spáðu aðeins í þetta. Þú getur verið mjög góður í fyrstu tveimur hlutunum, að ná til fólks og fá það inn til þín, en ef það er ekki þess virði að vera memm þegar inn er komið þá er fólk fljótt að fara aftur. Þess vegna skiptir það öllu máli hvað þú gerir í því að rækta sambandið – efnismarkaðssetning er lykilatriði þarna. Annars er þetta svona svolítið eins og liðið sem hangir á skemmtistaðagötunum á sólarströndum og nær þér inn inn á staðinn með gylliboðum – svo þegar þú kemur inn er staðurinn tómur!
Lead Conversion snýst um að gera þessa aðila að viðskiptavinum. Hingað til höfum við bara verið að rækta sambandið, leyfa þeim að kynnast okkur, kynnast þeim betur og þarna þarf tól til að breyta þeim í viðskiptavini með því að fá þá til að kaupa. Þarna þarftu að gefa þeim tækifæri til að prufa vöruna þína eða þjónustu og minnka áhættuna sem fólk upplifir – fólk upplifir alltaf áhættu þegar það kaupir. Það þarf líka að ýta við fólki með einhverjum hætti til að taka skrefið núna, ekki á morgun eða næsta ári.
Ongoing Lead Management snýst um að halda sambandinu áfram, í gegnum þessa miðla sem þú átt, og stuðla þar með að því að fólk skipti við þig aftur og að það vísi til þín frekari viðskiptum. Þarna gildir margt það sama og um lead nurturing en einnig meira til, s.s. eins og að vera með efni og upplýsingar fyrir þá sem hafa keypt af þér nú þegar, og vera með markaðsaðgerðir sem hvetja til tilvísana.
Farðu yfir það sem þú ert að gera í markaðsstarfinu þínu. Ertu að ná að leiða fólk í gegnum þetta ferli?