Af einhverjum ástæðum hefur efnismarkaðssetning (e. content marketing) verið mér extra hugleikin síðustu daga, núna síðast bara fyrr í dag þegar ég hélt erindi um markaðssetningu á netinu fyrir Ský (Skýrslutæknifélag Íslands – sem ætti eiginlega að heita Upplýsingatæknifélag Íslands :) Ég er líka að endurvinna fjórða hluta MáM grunnþjálfunarinnar sem fjallar um val á markaðsaðgerðum og samspil þeirra til að ná sem mestum árangri. Stundum veit maður eitthvað, en eitthvað verður til þess að virkilega hamra hlutina inn (ég er viss um að þú kannast við þetta) og á meðan ég hef verið að endurvinna þetta þá sé ég alltaf betur og betur hvað efnismarkaðssetning er stór og gríðarlega mikilvægur hluti af markaðssetningu í dag – og á bara eftir að aukast.
Hvað á ég við með efnismarkaðssetningu. Hmmmmm ætli sé ekki bara best að sýna ykkur fyrsta vídeóið úr þjálfunarprógramminu mínu um efnismarkaðssetningu því ég segi það þar ;)
Nýr og endurbættur fjórði hluti MáM grunnþjálfunarinnar fjallar um markaðsferlið, samspil markaðsaðgerða (hmmmmm… þarna er nú einn góður bloggpóstur ;) og listar svo upp hinar ýmsu markaðsaðgerðir sem standa til boða, flokkaðar eftir mikilvægi og hvað getur átt við fyrir hverskonar fyrirtæki, vörur og þjónustur og gefur dæmi um markaðsprógrömm sem hentað geta hinum ýmsu aðilum. Þegar ég fór að skoða listann bara yfir þessar helstu aðgerðir þá áttaði ég mig á því hvað efnismarkaðssetning er út um allt!
Hér eru helstu atriðin sem fyrirtæki verða að huga að í markaðssetningunni sinni þar sem efnismarkaðssetning kemur við sögu (og linkar í nokkur vídeó sem ég átti í farteskinu um sum þeirra ;)
- Vefsíðan – ef það er ekki efnismarkaðssetning þá veit ég ekki hvað! Hvað þarf að vera á henni? Hvað er það sem fólk vill fá að vita? Hvaða virði er í henni fyrir fólk?
- Lykilorðagreining – nauðsynleg fyrir alla efnismarkaðssetningu. Lykillinn að því að fólk finni efnið þitt þegar það er að leita að því.
- Leitarvélabestun – sama og með lykilorðagreininguna
- Markaðstextinn þinn (vefsíðutexti, upplýsingar á samfélagsmiðlum, og ef við á bæklingar og auglýsingar o.s.frv.) – úff hvað er það annað en efnismarkaðssetning?
- Að ná í fjölmiðlaumfjöllun í markaðsskyni – fjölmiðlar pikka ekki upp auglýsingar frítt. Það þarf að vera vinkill, það þarf að vera eitthvað áhugavert, það þarf að vera eitthvað virði og eitthvað til að segja frá – sem er einmitt líka kjarninn í efnismarkaðssetningu.
- Það er nokk sama hvaða samfélagsmiðil þú ert að nota – það er efnismarkaðssetning. Hvort sem það er Facebook, Twitter, LinkedIn, Pinterest, YouTube, Google+, Instagram, Tumblr … ef fólk er ekki að fá eitthvað áhugavert sem því finnst vera virði í og er matreitt á réttan hátt fyrir það, þá getur maður hamast eins og hamstur í hjóli án þess að nokkuð gerist. Og blogg – sem má í raun flokka sem samfélagsmiðil, er náttúrulega hreinræktuð efnismarkaðssetning.
- Póstlistinn er efnismarkaðssetning út í gegn, en fæst íslensk fyrirtæki nýta hann þannig. Flest nota hann bara til að senda út tilboð, boð á forútsölur og annað. Þar eru gríðarleg ónýtt tækifæri til að byggja upp sterkara samband við tilvonandi og núverandi viðskiptavini og fá meiri viðskipti fyrir vikið – og ekki bara við þá sem vilja fá afslátt ;)
- Svo eru hlutir sem eru kannski ekki svo mikið notaðir á íslenskum markaði sem geta verið frábærir í markaðssetningu og eru efnismarkaðssetningartól eins og vefnámskeið og Google Hangouts Live on Air (sem maður ætti náttúrulega að nota miklu miklu meira).
Ég gæti haldið áfram lengi lengi en ég vona að ofangreint hafi a.m.k. komið því til skila að efnismarkaðssetning er hluti af markaðssetningu allra fyrirtækja, hvort sem þeim líkar það eða ekki – svo er spurning hvort þú ætlar að nota þetta frábæra tækifæri í botn til að mynda samband við viðskiptavinina þína eða, eins og sagt er “leave the money on the table”.
p.s. “shout out” til viðskiptavina minna í Hugsmiðjunni sem hafa verið að taka efnismarkaðssetninguna föstum tökum með góðum árangri – og bloggið þeirra fékk tilnefningu til SVEF verðlaunanna sem besti vefmiðillinn innan um stóra vefmiðla eins og Vísir og DV. Hrikalega stolt af þeim!
Ég hef skrifað töluvert um efnismarkaðssetningu áður, t.d. þessar þrjár færslur sem þér gætu þótt áhugaverðar ef þú hefur ekki lesið þær nú þegar. Notaðu leitarboxið hér hægra megin og leitaðu að “efnismarkaðssetning” :)