Viltu skjóta samkeppninni ref fyrir rass? Viltu virkilega vera sigurvegarinn á þínum markaði?
Þá verður að hafa það á hreinu af hverju fólk á að kjósa þig fram yfir aðra!
Klassíska svarið þegar spurt er “af hverju ætti ég að kjósa þig fram yfir samkeppnisaðilana þína?” eru svör á borð við:
- “Við erum betri”
- “Við bjóðum betri þjónustu”
- “Við bjóðum betri gæði”
Hvað eiga þessi svör að þýða? Betri samkvæmt hverjum? Hvaða staðla erum við að miða við? Hver vill ekki halda því fram að þeir séu betri, með betri þjónustu og betri gæði? Segir einhver “Ja, við bjóðum bara svona sæmilega þjónustu”.
Auðvitað eigum við að leitast við að gera eins vel við viðskiptavini okkar og við mögulega getum innan þess ramma sem við höfum sett okkur m.a. m.t.t. verðs. Ef við ætlum að vera ódýrust á markaðnum, þá bjóðum við að sjálfsögðu ekki upp á lúxus, en við getum leitast við að bjóða bestu gæðin í okkar verðflokki. Það er hinsvegar grundvallargalli fólginn í því að ætla aðgreina sig frá samkeppninni með því að vera “betri”.
Í fyrsta lagi er enginn algildur staðall um það hvað er gott, betra eða best. Það er allt afstætt og fer bara eftir hverjum og einum hvernig það er metið. Í öðru lagi, þá er yfirleitt hægt að leika svoleiðis hluti eftir. Ef það sem þú ert að gera skiptir máli og er virkilega betra en það sem samkeppnin býður, svo mikið að þeir finna fyrir því, vittu til að þá verða þeir fljótir að stúdera það og gera nákvæmlega það sama. Það gengur kannski ekki alltaf hjá þeim, en þeir munu klárlega reyna og það gæti vel gengið. Þannig að ég er ekki að segja að þú eigir ekki að stefna að því að vera best(ur) í þínum bransa (þú átt klárlega að gera það!) heldur er ég einfaldlega að segja að það er mjög ólíklegt að það sé nóg og þú þarft á meiru að halda.
Af hverju á fólk að kjósa þig fram yfir samkeppnina?
Einfalt:
Af því þú ert öðruvísi!
Þú verður að vera vera öðruvísi á einhvern þann hátt sem höfðar til fólks.
Seth Godin skrifaði vel þekkta bók sem heitir “Purple Cow” eða Fjólublá kú. Í henni talar hann um að keyra eftir sveitavegi og sjá fjólubláa kú. Þú tekur pottþétt eftir henni. Og ekki bara það, heldur muntu tala um hana. Þú munt segja öllum frá henni! Þú munt líklegast fara út úr bílnum og taka mynd og sennilega pósta myndinni á Facebook og Instagram (að minnsta kosti þar!). Það er alveg hugsanlegt að þú myndir blogga um það. Hvernig sem allt er, þá er á hreinu að þú tekur eftir henni og þú munt hafa einhverjar skoðanir á henni. Hvaða tilfinningar vekur þessi fjólubláa kú? Fílarðu hana? Finnst þér hún ömurleg? Er hún skrýtin? Fyndin? Hún er öðruvísi, hún er þess virði að tala um og hún er væntanlega eitthvað sem þú fílar eða ekki. Og þú þarft það – þú þarft að finna leið til að vera öðruvísi.
Vertu öðruvísi á einhvern þann hátt sem skiptir máli og vertu hugrakkur / hugrökk! Taktu þetta alla leið – ekki bara setja eitthvað smá skraut á hlutina og segja “úúúúu sjáðu hvað við erum öðruvísi!” Farðu alla leið… ALLA leið! Vertu raunverulega öðruvísi!
Af hverju?
Í fyrsta lagi, þá geturðu átt þetta sem er öðruvísi. Ef þú ert bleika bókhaldsfyrirtækið þá væri ferlega hallærislegt fyrir einhverja aðra að koma inn á markaðinn og gera það sama. Fólk myndi bara segja “oh, þeir eru bara að reyna að vera eins og þetta bleika bókhaldsfyrirtæki sem er nú þegar til”. Það er bara hallærislegt, léleg eftirlíking og hermikráka.
Í öðru lagi þá vekja hlutir sem eru öðruvísi upp tilfinningar. Fólki líkar við það eða ekki – og þeim sem líkar við það eru líklegri til að skipta við þig. Ef þú ert “bara betri” þá getur einhver annar verið “bara betri” á morgun. Hvað er betra getur breyst á augabragði og mismunandi fólk skilgreinir “betri” á mismunandi hátt. Það að reyna að vera “betri” er á margan hátt eins og að reyna að vera ódýrastur. Á morgun getur einhver annar boðið betri díl og þá endar þetta með verðstríði. Spáðu t.d. í flug á milli heimsálfa. Eitt flugfélag fór að bjóða upp á sæti sem lögðust alveg niður – betra, já – en áður en maður vissi af voru öll flugfélögin í sambærilegum verðflokki farin að bjóða þau! Svo voru það í rauninni svefnsæti, einn byrjaði og hinir fylgdu á eftir. Þú endar með endalaust höfrungahlaup! Vertu öðruvísi á einhver hátt sem skiptir máli fyrir fólk og þú eykur líkurnar á því að fólk myndi við þig tryggð.
Það eru nokkur “brönd” sem ég fíla í botn af því að þau eru mjög mjög mikið öðruvísi. Ef þú skoðar Pinterest prófílinn minn á Pinterest.com/thoranna þá finnurðu töflur sem eru helgaðar sumum af þessum bröndum eins og t.d. Virgin, Poo Pourri, Ben & Jerry’s og Eat24. Kíktu á þau til að fá innblástur. Og eins mikið og ég þoli ekki klisjur, þá er ástæða fyrir því að þær eru til, og klassísk dæmi eru klassísk vegna þess að þau sýna hlutina svo vel. Spáðu í Apple. Apple hefur alltaf verið öðruvísi. Spáðu í þegar þeir komu með iMac-inn – hver var að gera gegnsæjar tölvur í sælgætislitum? Enginn! Og ef einhver hefði hermt eftir þeim? Þeir hefðu bara verið nákvæmlega það – eftirhermur. Þetta er dæmi um að vera öðruvísi og gríðarlega hugrakkur!
Þú þarft að vera öðruvísi og þarft að vera hugrökk/hugrakkur, því ef þú ert það ekki, þá mun á endanum einhver annar vera það – ég get lofað þér því! Ekki vera eins og hinir. Hafðu karakter. Burtséð frá öllu öðru, þá er lífið líka bara svo miklu skemmtilegra svoleiðis!
Af hverju ætti ég að skipta við þig? Hvað er öðruvísi við þig?