Þegar eigendur minni fyrirtækja eru spurðir um markhópinn sinn, þá eru enn ansi margir sem svara því til að þeir selji barasta öllum. Sem er mjög skiljanlegt. Hver vill ekki að sem allra flestir kaupi vörurnar þeirra eða þjónustu? Ég skil þetta barasta ósköp vel. Stundum langar mann bara að standa úti á torgi og hrópa yfir allan heiminn hvað maður hefur að bjóða. Ég sjálf á það til að taka bara smá kast og hugsa – æi, ég hendi þessu bara þarna út á alla. Vandamálið er bara að það virkar ekki. Af hverju ekki?
Spáðu aðeins í þessu. Það dúndrast á okkur hundruð ef ekki þúsundir markaðsskilaboða á hverjum degi. Það er í viðbót við öll önnur skilaboð eins og símtöl, tölvupósta, fréttirnar og bara svona almenn dagleg samskipti við heiminn og fólkið í kringum þig. Við verðum stöðugt að vera að sía úr og velja hverju við eigum að veita athygli og hvað við eigum að loka úti. Ef einhver er ekki að tala beint til okkar – og helst bara okkar – þá erum við ekkert að fara að hlusta.
Þegar kemur að því að tala við fólk um vörur og þjónustu þá er fólk ekkert að fara að hlusta ef því finnst hlutirnir ekki eiga við sig. Ef fólk hefur ekki áhuga, eða telur sig ekki hafa þörf fyrir vöruna eða þjónustuna (jafnvel þó að við vitum að þau þurfa hana ;) þá munu þau bara loka augum og eyrum fyrir okkur og velja að nýta þau til að hlusta og horfa á eitthvað annað sem þeim finnst eiga betur við sig. Það er þessvegna mjög mikilvægt bæði að skipta máli fyrir viðkomandi og að vera áhugaverður. Og maður getur einfaldlega ekki skipt alla máli eða verið þannig að allir finnist maður áhugaverður.
Það er líka ferlega dýrt að ætla að reyna að vera alls staðar og tala við alla. Með því ertu að eyða óskaplega miklu af tíma, orku og peningum í að koma áfram skilaboðum sem fólk einfaldlega skellir skollaeyrum við. Sem frumkvöðull eða fyrirtækjaeigandi, hefurðu efni á að eyða tíma, orku og peningum á þann hátt? Ég veit að ég hef það ekki.
Þess vegna verðurðu að velja og fókusera. Þú verður að finna þann hóp, eða þá hópa, fólks sem er tilbúinn til að hlusta á þig og er tilbúinn að kaupa vöruna þína eða þjónustu – markhópana þína. Og þú þarft svo að stúdera þá út í gegn.
Finndu út hvernig best er að ná til þeirra. Hvaða skilaboð eru sterkust og ná í gegn? Hugsaðu bara um þitt daglega líf og hvernig þú þarft að sníða skilaboðin að mismunandi aðilum, þó að þú sért að segja í grunninn sama hlutinn. Ef ég ætla að fá táningsson minn til að koma með mér upp í sumarbústað þá þarf ég að selja það ansi mikið öðruvísi heldur en þessi sem er 6 ára, eða gagnvart vinafólki mínu, ekki satt? Það þarf líklega að tala unglinginn svolítið til, 6 ára guttinn flippar af spenningi um leið og orðið “sumarbústaður” er nefnt og þegar ég býð vinafólki mínu skemmir ekkert fyrir að minnast á nautasteikina sem verður á grillinu eða góða rauðvínið sem verður með henni ;)
Stendurðu nokkuð enn á kassa á Lækjartorgi og reynir að garga yfir allan heiminn? Veistu hver markhópurinn þinn er, eða markhóparnir? Segðu mér frá hér fyrir neðan :)