Það er komið sumar og eins og við vitum róast allt á klakanum á þessum árstíma. Ég ætla þess vegna að taka mér gott (og að ég tel verðskuldað ;) hlé frá bloggskrifum og tölvupóstsendingum fram í ágúst. Hinsvegar ætla ég ekki að skilja þig eftir í lausu lofti ef þig skyldi þyrsta í meiri markaðsþekkingu svo ég tók saman lista yfir nokkur af uppáhalds markaðsbloggunum mínum og hlaðvörpum (e. podcast). Ég sjálf eeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeelska hlaðvörp. Það er svo yndislega þægilegt að geta lært og fengið markaðsfræðin beint í æð á meðan ég er að gera eitthvað annað eins og að keyra Reykjanesbrautina, fara í labbitúr, vinna í garðinum eða bara hvað sem er annað þar sem eyrun og heilabúið er laust þó að kroppurinn sé að vinna ;) En það er líka voða notalegt að liggja í sólinni úti á palli eða á ströndinni og lesa – ja eða kúra uppi í sófa í rigningunni með spjaldtölvuna ;)
Ég er áskrifandi að hátt í 200 bloggum, ótöldum póstlistum og hátt í 20 hlaðvörpum, en það eru bara örfá sem ég passa að missa ekki af, sem fá að fara inn í innboxið hjá mér og ég tjékka á reglulega.
Það eru fá sem fjalla um markaðsstefnumótun, og þau sem gera það eru almennt ekki mjög aðgengileg nema fyrir sérfræðinga. Ég hef þess vegna ekki sett nein þeirra hérna inn, nema kannski SocialTriggers sem kemur mögulega stundum inn á slíka hluti. Hinsvegar hef ég sett inn efni sem gerir mér kleift að fylgjast með þróuninni í hinum hraða og síbreytilega heimi markaðssetningar á netinu, ekki síst samfélagsmiðla og efnismarkaðssetningar.
Hér er listi yfir topp 11 staðina þar sem ég sanka að mér markaðsþekkingu dags daglega:
Derek Halpern með Social Triggers er snillingur í markaðssetningu og fjallar mestmegnis um sálfræðina á bak við markaðssetningu á netinu. Hlaðvarpið hans er alltaf það fyrsta sem ég hlusta á áður en ég tjékka á nokkrum öðrum þar sem hann er alltaf með frábæra gesti úr fræðaheiminum og viðskiptalífinu.
Neil Patel með Quicksprout bloggið er snilli í öllu sem viðkemur markaðssetningu á netinu og það kemur ekki einn einasti blogg póstur frá honum sem er ekki stútfullur af gagnlegum upplýsingum. Ef eitthvað er þá fær maður of mikið af upplýsingum – en maður getur alltaf treyst því að þær séu pottþéttar.
Amy Porterfield er Facebook gúrúinn minn svo ég fylgist vel með henni í tengslum við þau mál. Hún er bæði með blogg og hlaðvarp og fær oft til sín góða gesti. Í gegnum tíðina hefur maður skráð sig á ótal frí vefnámskeið hjá hinum og þessum og oft séð eftir tímanum – en það hefur aldrei gerst með Amy. Hún klikkar ekki ;)
HubSpot er óþrjótandi hafsjór af fróðleik og þekkingu í kringum “inbound marketing”, þ.e. markaðssetningu sem dregur að – sem er akkúrat sú markaðssetning sem ég vil stunda og hvet mína viðskiptavini til að stunda. Bloggið er flott og safnið þeirra af ýmsum fróðleik og gögnum varðandi markaðssetningu ekki síðra.
Digiday er vefmiðill helgaður vefmiðlun, markaðssetningu og auglýsingum og þar eru oft alveg hrikalega flottar greinar. Vel þennan miðil fram yfir marga aðra vel þekkta á markaðnum.
SocialMouths er bloggið hjá Francisco Rosales, blöndu af Ítala og Guatemalabúa sem býr í LA. Hann fjallar um blogg, samfélagsmiðla, efnismarkaðssetningu, markaðssetningu í gegnum tölvupóstlistann og “conversion” – þ.e. að ná viðskiptunum. Það er alltaf djúsí “stuff” í því sem hann sendir frá sér.
KISSmetrics er greiningartól fyrir netmarkaðssetningu og þeir halda út mjög góðu bloggi um greiningar, markaðsmál og prófanir. Oft mjög góðar greinar þarna og gagnlegar.
Social Media Examiner er mjög þekkt samfélagsmiðlablogg og þarna er hafsjór af upplýsingum og efni. Þú verður ekki svikinn. Þeir eru líka með hlaðvarp.
Fyrir þá sem vilja kafa meira í efnismarkaðssetningu:
Buffer bloggið er frá Buffer appinu sem er samfélagsmiðlastjórnborð. Þeir blogga um samfélagsmiðla og tengt efni og þarna eru oft mjög góðir póstar.
Copyblogger eru gamlir refir í efnismarkaðssetningu og þarna er gríðarlegur hafsjór af fróðleik varðandi hana og tengd efni s.s. textaskrif, samfélagsmiðla, leitarvélabestun, markaðssetningu með tölvupóstlistanum og markaðssetningu á netinu almennt.
Content Marketing Institute fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um efnismarkaðssetningu og tengt efni. Þarna finnurðu mjög gott efni um það.
Njóttu vel og þú mátt endilega segja mér hvernig þú fílar þetta ;) – já og ef þú lumar á einhverjum uppáhalds sem þú vilt deila með fólki, endilega gerðu það! :)