Fyrir mörgum árum síðan sat ég fund með snilldar branding ráðgjafa og forstjóra eins stærsta fyrirtækis landsins. Ráðgjafinn var að kynna þjónustu sína fyrir forstjóranum og hafði sýnt honum frábær dæmi og komið með mjög flottar tillögur að því hvernig stofan hans gæti hjálpað við að færa fyrirtækið upp á hærra plan. Ég man að ég var algjörlega heilluð. Ég hef alltaf elskað branding hliðina á markaðsfræðunum og eftir að hafa setið í gegnum þessa kynningu þá fannst mér hún bara ennþá meira spennandi.
Eftir um klukkustundarlangan fund leit forstjórinn á ráðgjafann og sagði (á ensku): “Svo þú vilt breyta lógóinu okkar?” Ég átti ekki til orð. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Sú staðreynd að forstjóri eins stærsta fyrirtækis landsins héldi að branding snérist bara um að breyta lógóinu gjörsamlega fríkaði mig út. Ef stóru strákarnir fatta ekki um hvað branding snýst, hvernig er þá hægt að ætlast til að fólk í minni fyrirtækjum skilji það?
Sem betur fer eru ekki allir eins og þessi annars ágæti forstjóri. Það gleður mig að segja að fleiri og fleiri aðilar eru að átta sig á því um hvað branding snýst og að það snýst um svo miklu miklu meira en bara logo. Tjékkaðu á bloggpóstasafninu mínu um branding ef þú vilt vita meira :) Í þessum pósti langar mig hinsvegar að tala aðeins meira um lógóið, vörumerkið sjálft. Því að þó að lógó sé ekki það sama og brand, þá er það mikilvægur hluti af því. Það má segja að lógóið sé andlit brandsins þíns. Það er oft það fyrsta sem fólk sér frá þér og jafnvel lengi vel það eina, og það er því mikilvægt að það komi réttum skilaboðum áleiðis.
Lógó er í rauninni alls ekki einfalt mál
Lógóið þitt er andlit fyrirtækisins þíns, vörunnar eða þjónustunnar. Lógóið þarf að koma réttu skilaboðunum á framfæri. Það verður að vera “on brand”. Lógóið er oft lítið tákn eða mynd, og þarf að sýna brandið þitt á einfaldan hátt, jafnvel bara með stöfunum (e. logotype). Það þarf að aðgreina þig á markaði og það þarf að vera auðþekkjanlegt og eitthvað sem fólk tekur eftir.
Lógó þarf að aðlaga sig að ýmsum aðstæðum.
Það verður að öllum líkindum notað á pappír, rafrænt á vef, í svart hvítu, lit, með öðrum lógóum, risastórt t.d. á byggingu, og agnarsmátt s.s. á vef í snjallsímum eða í öppum.
Fyrir nokkuð sem er svona mikilvægt og notað á svona margvíslegan og flókinn hátt, þá verður þú að gera þetta almennilega. Þetta er ekki eitthvað sem þú hendir í einhvern sem er voða flinkur að teikna eða kann voða vel á Photoshop. Þó að einhver sé listamaður eða vefhönnuður, eða frábær í tölvugrafík, þá er það ekki endilega rétti aðilinn til að gera lógóið þitt. Þú verður að fá góðan grafískan hönnuð í verkið. Einhvern sem veit hvað hann er að gera og hafðu í huga að það eru ekki allir grafískir hönnuðir jafnir fyrir guði og mönnum þegar kemur að lógógerð. Það eru ekki allir grafískir hönnuðir reyndir í lógógerð og þeir hafa ekki allir þekkinguna til að búa til gott lógó. Finndu einhvern sem hefur reynslu af því og skoðaðu hvað viðkomandi hefur gert áður. Hafa þeir reynslu? Líkar þér það sem þeir hafa gert áður?
Viltu sama andlit og einhver annar er með?
Lógó verður að vera sérsniðið fyrir brandið þitt. Ekki fara á netið í einhver lógobanka eða á myndabankasíðu eða eitthvað álíka til að kaupa lógó. Ekki nota lógó sem einhver annar getur keypt sér líka. Það verður að vera einstakt. Myndir þú vilja ganga um með sama andlit og einhver annar? Ekki misskilja mig – ég er ekki að segja að allar netþjónustur sem bjóða upp á lógóhönnun séu slæmar, svo lengi sem lógóið er sérstaklega búið til fyrir þig og þar eru fagmenn að verki. En hinsvegar, ef þú kýst að fara þá leið, þá leggur það ennþá meiri ábyrgð á þínar herðar að gera virkilega góða verklýsingu og gera hönnuðinum mjög vel grein fyrir því hvað þú vilt. Þú munt að öllum líkindum aldrei hitta viðkomandi auglitis til auglitis eða geta rætt málin almennilega við hann. Þú verður að gefa þeim allar nauðsynlegar upplýsingar og vera viss um að hann skilji hvað brandið þitt er, hverju þú vilt koma til skila með því, hvað þú vilt, hvað þér líkar, hvað þér líkar ekki o.s.frv. Hvernig eiga þeir annars að geta hannað rétt andlit fyrir brandið þitt?
Ég vona að þetta hafi gert þér grein fyrir hversu mikilvægt lógóið þitt er. Í guðanna bænum vandaðu til verka hvort sem þú ert að láta gera nýtt, eða finnst þurfa að dusta rykið af því gamla. Eyddu peningum í það. Það er þess virði. Fáðu einhvern virkilega góðan til að gera það því að lógóið þitt mun verða andlit fyrirtækisins þíns í langan tíma.