Ég er að taka til. En þú? Það er hrikalega hollt að taka til hjá sér reglulega. Ég er reyndar ekki nógu dugleg við það, en það er gott þegar maður fær spark í rassinn. Í þetta skiptið var sparkið umsóknir um nýsköpunarstyrki. Nú er planið að bera MáM boðskapinn út um víða veröld, auk þess sem ég var að aðstoða við aðrar umsóknir. Og þegar maður biður hið opinbera um aðstoð við að fjármagna það, þá er sko eins gott að maður geti útskýrt hvað maður ætlar að gera og hvernig maður ætlar að gera það! ;)
Þetta er hinsvegar eitthvað sem maður á ekki að þurfa spark í rassinn við. Í hvert skipti sem ég geri þetta þá minnir þetta mig á hvað það er mikilvægt að setja hlutina skýrt og skilmerkilega niður fyrir sig. Þetta er svolítið eins og þegar maður er að flytja í nýtt hús. Það er svo hollt og svo mikil hreinsun. Henda út því sem maður þarf ekki, gera sér grein fyrir því hvað mann vantar. Út með ruslið, inn með eins og afrakstur einnar góðrar ferðar í Ikea og skipulagið í lag! ;)
Eitt af því gagnlega sem kom út úr þessari vinnu hjá mér var að ég hreinsaði til í markaðsmálunum hjá mér. Ég reyni að gera það reglulega. OK, ég er, eins og ég hef sagt einhvern tímann áður, á fleiri samfélagsmiðlum en ég mæli með, svona af því að í mínum bransa vill maður vera inni í hlutunum, en að öðru leyti þá er þetta að verða nokkuð skýrt. Ég er farin að sjá ansi vel hvað virkar og hvað er tímaeyðsla.
Það er rosalega gagnlegt að setja hlutina sjónrænt upp. Ég er með allskonar miða og krot og dótarí upp um alla veggi til að hjálpa mér að átta mig á hlutnum. Í þetta skipti ákvað ég að setja markaðsferlið mitt bara skýrt og skilmerkilega upp, annars vegar fyrir íslensku starfsemina, og hinsvegar fyrir fyrirhugaða erlenda starfsemi. Þú getur séð afraksturinn á meðfylgjandi mynd (soldið óskýr – blessaður snjallsíminn :)
Mér líður rosalega vel eftir þessa tiltekt. Nú er stefnan skýr, skilmerkileg – og sýnileg, sem er ekki minna mikilvægt. Ég veit hvað ég ætla að gera, hvenær ég ætla að gera það, af hverju ég ætla að gera það og hvað ég vil fá út úr því. Nú er ég bara spennt að takast á við verkefnin!
Ert þú með plan?
Ef þú þarft betra plan fyrir markaðsmálin, þá gæti MáM þjálfunin verið eitthvað fyrir þig ;)