Klukkutími. 60 mínútur. 3600 sekúndur. Það er einn tími í ræktinni. Það er þáttur í sjónvarpinu (með fullt af auglýsingum). Það er einn tími í nuddi – og manni finnst það engan veginn nóg. Það er ekki svo mikið sem maður getur gert á klukkutíma. Selur þú tímann þinn? Hvort sem það er ráðgjöf, einkaþjálfun, nudd, kennsla eða hvað annað. Gengur það upp? Kaupir þú tíma af einhverjum? Hversu mikið færðu út úr þeim tíma?
Það hefur löngum tíðkast að fólk selji tímann sinn. Þegar maður fær borgaða yfirvinnu fær maður í raun borgað á tímann. Þú færð x mikið fyrir hefðbundinn vinnutíma og y á tímann fram yfir það. Og ef þú ert í fastri vinnu, þá gengur það upp. Ef þú ert ekki í fastri vinnu þá þarftu að selja út ansi marga tíma og þú verður að selja þá nokkuð dýrt – og samt hafa tíma til að markaðssetja þig, tíma fyrir bókhaldið o.s.frv. Ef þú tekur frí, ef þú veikist, þá færðu ekki greitt. Það róast yfir sumarið, það róast í kringum jólin… ef þú selur tímann þinn þá þekkirðu þetta…
Hvernig getur þú tekið tímann þinn og gert meira úr honum? Hvernig getur þú pakkað inn því sem þú gerir og selt það meira eins og vöru, heldur en sem tíma. Hvernig geturðu selt þó að þú farir í frí, eða fáir flensu? Geturðu kennt fólki eitthvað tengt því sem þú gerir, komið því frá þér t.d. í bók, námskeiði á netinu, námskeiði á DVD eða jafnvel sem hljóðbók? Geturðu selt aðra hluti í kringum það sem þú gerir? Garðyrkjumaður gæti gefið út DVD námskeið um umhirðu garða, nuddari gæti gefið út bók um leiðir til að mýkja vöðvana og slaka á, gigtarlæknir getur gefið út bók með ráðleggingum fyrir gigtarsjúklinga, einkaþjálfari getur selt þjálfunarvídeó á netinu. Það eru ýmsar leiðir til að pakka inn því sem þú gerir og selja það – hvernig getur þú pakkað þinni þjónustu eða þekkingu inn og selt hana?
Með þessum hætti geturðu líka hjálpað mun fleiri. Það eru í raun engin takmörk fyrir því hversu margir geta keypt bók, DVD eða farið á vefsíðu. Þó fólk sé annars staðar á landinu, eða jafnvel erlendis, þó það komist ekki á hefðbundnum vinnutíma eða hafi jafnvel ekki efni á að kaupa tíma hjá þér þá geta þessir aðilar oft keypt innpökkuðu þjónustuna. Þú getur selt fleirum á auðveldari hátt og þannig veitt hagkvæmari kjör, fleiri hafa efni á henni og allt þetta stuðlar líka að því að bera boðskapinn þinn víðar.
Þegar ég byrjaði þá vann ég “einn-á-einn” með fólki. Ég gat ekki tekið við öllum sem höfðu áhuga á að vinna með mér, og það voru líka margir sem vildu vinna með mér sem ekki höfðu efni á því. Ég stillti verðum í hóf, en við þekkjum öll íslenskt skattaumhverfi – það fer ansi mikið í skatta og gjöld, þannig að ef það á að hafa eitthvað upp á sig að selja út tímann, þá þarf bara að rukka svolítinn slatta. Fundum fylgdu líka ferðir, og tími sem fer í þær með tilheyrandi veseni. Ég fann líka mjög fljótt þegar ég fór að þjálfa fólk í markaðsmálum að ég var alltaf að fara yfir sömu hlutina aftur og aftur og aftur, svo að smátt og smátt fór ég að gera efni um markaðsmálin fyrir viðskiptavinina mína. Viðskiptavinir mínir fóru með efnið heim, fóru í gegnum það og svo fórum við yfir hlutina þegar við hittumst. Þannig nýttist tíminn með viðskiptavininum mun betur og var mun meira gefandi fyrir báða aðila því að við vorum ekki að eyða dýrum tíma í grundvallaratriði. Á endanum snéri ég þessu alveg við – þetta er í raun sama þróun og er að verða í menntakerfinu – flippuð kennsla – þ.e. með MáM efninu fer ég með viðskiptavinum mínum yfir grundvallaratriðin og þessi atriði sem hægt er að setja staðlað fram, þannig að þegar og ef þeir taka tíma með mér, þá er virkilega eitthvert virði í þeim tíma. Þá erum við farin að tala um hluti sem virkilega breyta einhverju fyrir viðkomandi.
Ég fæ oft fyrirspurnir um hvort það sé ekki hægt að kaupa bara einn eða tvo tíma hjá mér. Svarið er einfalt, „Nei, því miður, ég er hætt því“. Af hverju? Jú, ástæðan er einföld. Ég er búin að átta mig á að ég get voðalega lítið ráðlagt þér af viti í markaðsmálunum ef ég veit ekki almennilega hver markhópurinn þinn er, hvernig samkeppnin er og hvernig þú vilt koma fyrir á markaðnum (brandið þitt) – það eru grundvallaratriðin. Ef þú ert með þetta á hreinu, þá tekur samt a.m.k. hálfa klukkustundina að koma því til skila til mín – og það er ef þú ert með þetta allt á tandurhreinu – og mín reynsla er einfaldlega sú að þetta sé í raun það sem aðallega vantar upp á hjá fólki. Ég hef sagt það áður, og segi það aftur, það skiptir engu máli hversu vel maður kann tæknilega á Facebook, Google AdWords eða aðrar markaðsaðgerðir, ef grunnurinn er ekki almennilegur þá gerir þetta ósköp lítið fyrir mann. OK, þá er hálftími eftir af tímanum. Það er mjög ólíklegt að ég geti ráðlagt þér eitthvað, og farið nógu vel yfir það, á hálftíma, til að þér finnist þú fá almennilegt virði út úr tímanum og þá verður þú óánægð(ur) og ég verð svekkt yfir að geta ekki hjálpað þér almennilega … oh well :)
Anyhooooo… það sem ég vildi segja með þessu öllu er að ég tók það sem ég gerði og pakkaði því inn. Þannig get ég selt þjónustu mína þó að ég sé ekki alltaf á staðnum, viðskiptavinurinn fær mun mun meira fyrir sinn snúð, og allir eru ánægðari.
Hvernig getur þú pakkað þinni þjónustu inn þannig að bæði þú og viðskiptavinurinn fáið meira fyrir ykkar snúð? Mér þætti gaman að heyra frá þér :)