Ég var að versla við ákveðið fyrirtæki fyrir nokkru síðan. Ég kom á staðinn rétt fyrir klukkan fjögur, með tveggja ára gamlan son minn með mér. Þegar ég kom að fyrirtækinu stóð starfsmaður þess fyrir utan dyrnar ásamt vini sínum, strompreykjandi á kjaftatörn. Ég gekk inn með barnið – gekk inn á milli þeirra – og stóð á miðju gólfinu í verslun þar sem ryklagið sást borðunum. Eftir nokkrar mínútur, þegar starfsmaðurinn gerði sig engan veginn líklegan til að drepa í og koma og þjónusta mig, sagði ég honum að ég þyrfti að vera annars staðar fljótlega, og spurði hvort hann gæti nokkuð aðstoðað mig. Hann drattaðist jú inn og gerði það – en ég fékk auðvitað á tilfinninguna að ég væri að ónáða hann með viðskiptum mínum. Það þarf varla að nefna það að framhaldið á þjónustunni var í takt við byrjunina…
Þeir eru ekki einu aðilarnir á markaðnum sem veita þá þjónustu sem þeir veita. Þeir eru ekki einu sinni ódýrastir eða með bestu vörugæðin. Líkurnar á að ég versli þar aftur = 0. Líkurnar á að ég segi fullt af fólki frá þessu = 100%. Líkurnar á því að það fólk versli þar eftir að hafa heyrt þessa sögu … ja, ansi litlar ekki satt?
Það kostar ekki mikið að veita góða þjónustu – og ef að fyrirtækið hefur ekki efni á að láta þrífa – eða eigandi þrífi í versta falli hreinlega sjálfur – þá hefur fyrirtækið ekki efni á að vera í rekstri.
Hafðu metnað til að gera þitt besta – það margborgar sig!