Það er því miður ekki of oft sem maður kemst í tæri við fyrirtæki sem maður vill segja frá af jákvæðum ástæðum – en ég fann eitt í morgun. Eins og svo margir aðrir, ekki síst við stelpurnar sem búnar erum að koma í heiminn einhverjum börnum, þá er ég krónískt með í bakinu. Ég er búin að prófa ýmislegt, með misgóðum árangri, og ákvað að nú ætlaði ég að prófa að fara til kírópraktors.
Ég byrjaði að skrifa einn bloggpóst um þessa reynslu – en þegar ég var komin af stað, þá sá ég að það er svo margt sem hægt er að læra af henni að ég ætla að taka bara hvert atriði fyrir sig, almennilega – og hér er fyrsti parturinn.
Mannlegi þátturinn
Þegar ég mætti tók strax á móti mér brosmild og almennileg kona og kynnti sig með nafni. Ég var ný og hefði auðveldlega getað væflast þarna heillengi eins og illa gerður hlutur. Kannist þið ekki við að mæta einhversstaðar, láta vita af ykkur í afgreiðslunni og sitja svo og bíða þangað til þið eruð farin að spá hvort að fólk hafi gleymt ykkur? Það var sko ekkert svoleiðis hér :)
Þegar ég hitti kírópraktorinn heilsaði hann mér með handabandi og breiðu brosi og fór að fara í gegnum spurningalistann sem ég fyllti út – en spjallaði við mig um leið. Hann var léttur og skemmtilegur og mér leið strax vel í návist hans. Húmor getur verið lykilatriði í samskiptum við viðskiptavini og er allt of sjaldan notaður.
Þegar ég kom fram var konan að ljúka við að afgreiða eldri konu og spjallaði um skíðaferðir við hana, sem ég blandaði mér svo inn í og úr varð svolítið spjall. Við gengum svo frá tímabókuninni og hún kvaddi mig hlýlega. Þegar ég var að fara heyrði ég að hún ávarpaði manninn sem hafði beðið á meðan ég gekk frá mínum málum með nafni, og bauð honum tímasetningu.
Mér leið strax vel þarna. Fannst ég strax vera partur af prógramminu. Hvernig mér var tekið, með hlýju og brosum var til fyrirmyndar.
Hvernig tekur þú á móti þínum viðskiptavinum? Hvernig tekur starfsfólkið þitt á móti viðskiptavinum? Gerið þið eitthvað til að tryggja að viðskiptavinurinn finni að vel sé tekið á móti honum og vel séð um hann? Að heilsa fólki með nafni getur haft meiri jákvæð áhrif en maður áttar sig á.
Spáðu aðeins í þessu … ;)