Skv. boðorðunum hef ég framið dauðasynd. Þ.e. skv. boðorðum markaðsfræðinnar hef ég framið dauðasynd. Ég hef ekki skrifað bloggfærslu síðan 11. apríl. Það er að slaga upp í mánuð. Það er engin afsökun að í millitíðinni var páskafrí, það er engin afsökun að í millitíðinni sá ég um komu þekkts fyrirlesara til landsins og vann í kringum þann viðburð, það er engin afsökun að ég var a vinna að öðrum stórum viðburði fyrir vinnuveitanda minn. Það er engin afsökun að ég var að vinna, sjáum fjölskylduna, fara á skíði, fara á Aldrei fór ég suður :) … Ja, ég hefði verið að fremja dauðasynd ef ég væri að markaðssetja eitthvað. Kannski ég sleppi þar sem ég er ekki að reyna að selja þér neitt ;)
Það er nefnilega þannig að lykilatriði í markaðssetningu er að vera alltaf að. Jafnt og þétt. Stöðugt að minna á sig, stöðugt að viðhalda sambandinu. Ef þú ákveður að blogga, þá verður þú að blogga reglulega. Ef þú ert með Facebook, þá verðurðu að halda því lifandi og setja inn færslur reglulega (tvisvar í viku er er algjört lágmark). Ef þú birtir auglýsingar, þá verðurðu að birta þær jafnt og þétt og reglulega. Það þýðir ekkert að birta eina auglýsingu og búast við því að salan rjúki upp – þó að hún sé heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu eða heil mínúta í sjónvarpinu. Hafðu auglýsinguna frekar litla og birtu hana oftar.
Því oftar sem við sjáum eitthvað, því meira treystum við því, því líklegri erum við til að kaupa það.
Það virkar bara einfaldlega svoleiðis.