Þegar þú ert að skipuleggja markaðsaðgerðirnar þínar þarftu að hafa í huga hvað þú vilt að þær geri. Það er ekki raunhæft að ætla öllum markaðsaðgerðum að loka sölunni – í raun eru það mjög fáar oft sem loka sölunni.
Talað er um AIDA ferlið, en það er það ferli sem fólk fer í gegnum þegar það íhugar kaup á vöru eða þjónustu. AIDA stendur fyrir:
Awareness – vitund um vöruna eða þjónustuna
Interest – áhugi á vörunni eða þjónustunni
Desire – löngun í vöruna eða þjónustuna
Action – framkvæmdin – að kaupa vöruna eða þjónustuna
Spáðu í það á hvaða stigi viðskiptavinurinn er þegar þú nærð til hans með ákveðinni markaðsaðgerð og hvernig þú ýtir henni sífellt nær síðasta stiginu – að kaupa.
Eitt einfalt dæmi. Fataverslun.
Awareness: Stór og flottur útstillingagluggi á fjölfarinni götu – fólk tekur eftir versluninni og veit af henni. Hægt er að styðja við þetta t.d. með Facebook auglýsingum, tískusýningum o.fl. sem hafa eingöngu þann tilgang að ná fólki á þetta fyrsta stig – að vita af versluninni.
Interest: Það sem er í verslunarglugganum vekur athygli og áhuga, nægjanlega til að draga fólk inn í verslunina. Facebook síða sýnir nýjustu vörurnar, það heitasta og vekur þannig áhuga viðskiptavinarins.
Desire: Inni í versluninni er vörunum stillt þannig fram að fólk fer að langa í hana. “Vá, hvað þessi blússa er flott með þessu pilsi” o.s.frv. Einnig eru sett upp spjöld eða merkingar sem segja þér að þetta sé nýja línan, núna sé 10% afsláttur af þessu eða hinu og annað. Einn punktur þarna sem allt of margar fataverslanir klikka á: Hafðu lýsinguna í mátunarklefanum þannig að hún láti viðskiptavininn líta vel út. Ef fólki finnst það ekki líta vel út í mátun, þá er jú ólíklegra að það kaupi, ekki satt?
Action: Þegar viðskiptavinurinn er tilbúinn að kaupa þarftu að gera henni það eins auðvelt fyrir og mögulegt er. Er vingjarnleg afgreiðslumanneskja við kassann? Takið þið við öllum mögulegum greiðslukortum? Fær hún flottan poka undir nýju flíkina? o.s.frv.
Já og ekki gleyma að þetta endar ekki þarna – þarna er þetta fyrst að byrja. Nú ertu búin(n) að ná viðskiptavininum inn og mynda samband – haltu áfram að rækta það. Meira um það síðar ;)
Þetta er bara lítið dæmi til að átta sig á því hvað við er átt. Hægt er að gera ýmislegt fleira á hverju stigi fyrir sig. Farðu í gegnum markaðssetningarferlið fyrir þína vöru eða þjónustu. Hvaða stig í AIDA ferlinu á við hvaða snertifleti við þína tilvonandi viðskiptavini? Er skýrt hvað markaðsaðgerðin á að gera? Er hægt að gera þetta betur á hverju stigi fyrir sig?